Fossinn Drynjandi í Hvalá í Árneshreppi. Ólafur og Tómas, sem sjást efst til hægri á myndinni, telja hann með fallegustu fossum landsins og náttúruperlu á heimsmælikvarða. Fossinn er 77 metra hár, það er 3 m hærri en Hallgrímskirkja.
Fossinn Drynjandi í Hvalá í Árneshreppi. Ólafur og Tómas, sem sjást efst til hægri á myndinni, telja hann með fallegustu fossum landsins og náttúruperlu á heimsmælikvarða. Fossinn er 77 metra hár, það er 3 m hærri en Hallgrímskirkja. — Morgunblaðið/RAX
Læknarnir Ólafur Már Björnsson og Tómas Guðbjartsson segjast ekki vera öfgamenn heldur raunsæismenn, en þeir hafa verið óþreytandi að kynna fyrir almenningi fossa í Árneshreppi á Ströndum sem nú er ógnað með fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum.

Læknarnir Ólafur Már Björnsson og Tómas Guðbjartsson segjast ekki vera öfgamenn heldur raunsæismenn, en þeir hafa verið óþreytandi að kynna fyrir almenningi fossa í Árneshreppi á Ströndum sem nú er ógnað með fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum. Báðir eru þeir náttúrubörn að upplagi og vilja vernda landið í óbreyttri mynd enda sé hagsmunum þjóðarinnar þannig mun betur borgið til lengri tíma litið. Viðbrögð við baráttu þeirra hafa verið mikil, jákvæð og neikvæð, enda virðist málið koma við kvikuna. Ljósmyndir: Ragnar Axelsson rax@mbl.is Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Þessi ótrúlegi foss verður undir ef Hvalárvirkjun verður að veruleika. Hef gengið þarna um sl. daga og er uppnuminn af þessu svæði – ósnortið land sem örfáir Íslendingar hafa séð. Viljum við fórna svona perlu fyrir megawött til stóriðju? Slíkt væri brjálæði. Auk þess eru upp af Ófeigsfirði tugir annarra fossa í ósnortnu umhverfi sem ekki eiga sinn líka og margir km af hrikalegum gljúfrum og grasi grónum heiðum. Við þurfum að skila svona perlum til næstu kynslóða, ekki til HS Orku eða Vesturverks. Dreifið endilega þessum pósti ef þið eruð sammála.“

Með þessum orðum hófst formleg barátta Tómasar Guðbjartssonar, hjartaskurðlæknis og náttúruverndarsinna, gegn fyrirhugaðri Hvalárvirkjun á Facebook í fyrrasumar. Færslunni fylgdi sjálfa sem Tómas tók við Rjúkandisfoss í Árneshreppi á Ströndum.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa; bæði jákvæð og neikvæð. Margir þökkuðu Tómasi fyrir frumkvæðið meðan aðrir kváðust komnir með upp í kok af fólki sem „heimsækir Vestfirði í nokkra daga á ári og berst gegn framkvæmdum þar“.

Gáfu út fossadagatal

Tómas ákvað að láta kné fylgja kviði; hringdi í Ólaf Má Björnsson augnlækni, vin sinn og ferðafélaga og bað hann að koma með sér vestur til að taka ljósmyndir af fossum í Árneshreppi sem ógnað er af téðum framkvæmdum. Ólafur lét ekki segja sér það tvisvar; pakkaði myndavél sinni og dróna og fylgdi vini sínum á svæðið.

Félagarnir náðu góðu myndefni og í framhaldinu kynntu þeir til leiks í máli og myndum einn foss á dag í þrjátíu daga á Facebook-síðum sínum undir merkjum #Fossadagatal á Ströndum. Viðbrögð voru sterk og Tómas og Ólafur ákváðu að fylgja málinu eftir með útgáfu bæklings og dagatals sem leit dagsins ljós í nóvember. Upplagið, um 3.000 eintök, seldist upp og segja félagarnir viðtökur hafa verið vonum framar. „Það gaf okkur byr undir báða vængi,“ segja þeir.

Salan gekk þó betur hér syðra en fyrir vestan. „Það seldust bara fimm eintök í versluninni Götu á Ísafirði en við erum eigandanum þakklátir fyrir hugrekkið,“ segir Tómas, en stuðningur við málstað þeirra hefur ekki verið mikill þar um slóðir.

„Við höfum fundið fyrir reiði á Ísafirði, meðal annars á opnum fundi sem við héldum þar. Margir eru okkur ósammála og töluð var kjarnyrt íslenska á fundinum. Á móti kemur að fólk í bænum hefur líka komið að máli við okkur og þakkað fyrir framtakið. Það fólk vill hins vegar af einhverjum ástæðum ekki koma fram opinberlega. Það hefur komið okkur á óvart hvað fólk fyrir vestan er hrætt að tjá sig um málið,“ segir Tómas.

Hinn valkosturinn var að gera ekki neitt

Þeir segjast hafa búið sig undir hita og tilfinningar þegar þeir lögðu af stað í þessa vegferð. „Við vissum að einhverjir myndu segja okkur til syndanna en eina leiðin til að vekja athygli á málinu er að útsetja sig og þess vegna var aldrei spurning að láta slag standa. Hinn valkosturinn var að gera ekki neitt,“ segir Tómas.

Ólafur tekur undir það. „Hagsmunirnir eru of ríkir til að maður geti setið aðgerðalaus á hliðarlínunni. Þetta er okkar sannfæring.“

Og Tómas botnar þessa pælingu. „Það er ekki stór fylking sem hefur tekið að sér að brjóta ölduna. Ég veit að fleiri eru okkur sammála og hvet þá til að láta sig málið varða. Því fleiri brýnd sverð, þeim mun betra.“

Þess má geta að Ólafur og Tómas fjármögnuðu gerð Fossadagatalsins sjálfir enda þykir þeim brýnt að vera frjálsir og óháðir í nálgun sinni. „Við erum í þessu á okkar eigin forsendum og þess vegna höfum við hafnað öllum styrkjum,“ segir Tómas.

Með Fossadagatalinu vildu Ólafur og Tómas kynna fegurð þessara ósnortnu víðerna með áherslu á fossana á svæðinu sem skipta hundruðum. „Sennilega er hvergi á Íslandi að finna jafn fjölbreytt fossalandslag og eru sumir þeirra á meðal fallegustu fossa landsins og náttúruperlur á heimsmælikvarða,“ segja þeir í bæklingnum og bæta við að flestir fossanna séu óþekktir og fæstir þeirra hafi sést á mynd.

Myndefnið mikilvægt

Ólafur og Tómas vísa í baráttuna gegn Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma en þá voru samfélagsmiðlar ekki komnir til sögunnar. „Ómar Ragnarsson og fleiri reyndu af veikum mætti að vekja athygli á tjóninu sem virkjunin kæmi til með að valda á náttúrunni en allt kom fyrir ekki. Lítið myndefni var til af því svæði og það höfðum við í huga nú þegar við hófum okkar baráttu gegn Hvalárvirkjun. Það er auðveldara fyrir fólk að taka afstöðu ef það þekkir á einhvern hátt til svæðisins, þó ekki sé nema af mynd,“ segir Tómas.

Og Ólafur bætir við: „Einhver þarf að tala máli náttúrunnar. Sem betur fer eru að verða kynslóðaskipti í hugsun; mun fleiri sýna náttúruvernd skilning en fyrir tíu til fimmtán árum og átta sig á því að verðmætin eru víða.“

Snýst ekki um hægri og vinstri

Þeir nefna listamenn í þessu sambandi og nærtækasta dæmið sé kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, sem nú er í kvikmyndahúsum. Þeim þykir myndin ákaflega vel heppnuð og þarft innlegg í umræðuna um náttúruvernd. Af öðrum listamönnum sem lagt hafa baráttunni ómetanlegt lið tilgreina þeir Ragnar Kjartansson myndlistarmann, Andra Snæ Magnason rithöfund, Björk Guðmundsdóttur söngkonu og Ragnar Axelsson ljósmyndara. „Þetta fólk hefur veitt okkur mikinn innblástur.“

Þá segja Tómas og Ólafur náttúruvernd löngu hætta að snúast um hægri og vinstri pólitík. „Einu sinni var það feimnismál hjá hægrimönnum að vilja vernda náttúruna. Sem betur fer er það liðin tíð; við þekkjum marga hægrimenn sem eru sama sinnis og við. Og vonandi eru vinstrimenn ekki að linast í afstöðu sinni en gárungarnir segja að „Vinstri græn“ séu orðin bara „Vinstri“ eftir að þau tóku sæti í ríkisstjórn,“ segir Ólafur og glottir.

Meiri stuðningur frá konum en körlum

„Síðan er það svo merkilegt,“ segir Tómas, „að ég upplifi iðulega meiri stuðning frá konum en körlum. Það er líklega engin tilviljun að það var kona sem verndaði Gullfoss á sínum tíma, Sigríður í Brattholti.“

Sjálfir segjast Ólafur og Tómas ekki vera öfgamenn, einungis raunsæismenn sem beri hagsmuni lands og þjóðar fyrir brjósti.

En samfélög þurfa að þrífast. Ólafur og Tómas gera sér fulla grein fyrir því. „Árneshreppur þarf að lifa, eins og önnur samfélög í þessu landi. Við skiljum það,“ segir Ólafur og Tómas bætir við: „Hreppurinn er skilgreindur sem brothætt byggð og við skiljum vel að fólk vilji úrræði; ekki eftir tíu ár heldur strax. Þess vegna hoppar það á þennan virkjunarvagn. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að bjóða íbúum upp á valkosti.“

Þeir gera hlé á máli sínu.

„Það eru aðrar leiðir en virkjun og stóriðja,“ segir Ólafur síðan með þungri áherslu. „Það er kjarni málsins. Þess vegna biðjum við fólk að horfa til framtíðar í stað þess að einblína á skammtímalausnir.“

Og Tómas tekur upp þráðinn: „Fer einhver í Ófeigsfjörð til að taka ljósmynd af stöðvarhúsinu og pípunum?“

Svari nú hver fyrir sig!

Spurðir um aðrar leiðir benda þeir á að ferðaþjónustu hafi vaxið fiskur um hrygg á Ströndum og Vestfjörðum eins og annars staðar á landinu undanfarin misseri og tækifærin séu margvísleg, ekki síst þegar kemur að dýrum ferðum með verðmæta ferðamenn. „Ísfirðingar átta sig á þessu og fyrir vikið hljóta þeir líka að sjá möguleikana í Árneshreppi; byggð sem er miklu brotnari en þeirra. Túrisminn er að leggjast á sveif með okkur náttúruverndarsinnum og því ber að fagna,“ segir Ólafur.

„Margt hefur breyst,“ segir Tómas, „og þörfin fyrir stóriðju hefur minnkað frá því að Hvalárvirkjun kom fyrst til umræðu.“

Það eru ekki bara fossarnir sem heilla á Ströndum, heldur ekki síður fjöll á borð við Glissu, Töflu og Örkina, að mati félaganna. Bæði fyrir göngufólk og fjallaskíði. Þá séu Drangaskörð skammt þar undan, svo fátt eitt sé nefnt.

Bendir á rangfærslur

Í deilu eins og þeirri sem nú stendur um Hvalárvirkjun segir Tómas mikilvægt að réttar upplýsingar séu bornar á borð fyrir almenning. Eins og hann rekur í aðsendri grein í Morgunblaðinu 31. maí síðastliðinn hefur því ekki alltaf verið að heilsa hjá fylgjendum virkjunarinnar.

„Annar af tveimur landeigendum sem selt hafa vatnsréttindi sín fyrir háar fjárhæðir verði af virkjun, talar niður sínar eigin æskustöðvar og blaðafulltrúi framkvæmdaaðilans, Vesturverks, tekur enn dýpra í árinni og segir svæðið óspennandi og ljótt og aðeins aðgengilegt með góðu móti einn mánuð á ári. Sem er beinlínis rangt,“ segir Tómas í greininni.

Rangfærslurnar eru fleiri, að dómi Tómasar. „... staðreyndavillur sem því miður hefur reynst erfitt að vinda ofan af og margir Vestfirðingar virðast trúa. Þetta staðfestir nýlegt viðtal í Morgunblaðinu við Ásgeir Margeirsson, forstjóra HS Orku, undir fyrirsögninni: VesturVerk í meirihlutaeigu Íslendinga. Þarna reyna fyrirtækin að þvo af sér þá staðreynd að útlendingar ráði ríkjum í þeim – og að erlendir aðilar séu að fjárfesta í íslenskum náttúruauðæfum með hagnað en ekki velferð Vestfirðinga að leiðarljósi.“

Enn alvarlegri, að áliti Tómasar, eru fullyrðingar HS Orku og Vesturverks um að með virkjuninni muni afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum batna stórlega. „Allir eru sammála um að afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum er ófullnægjandi, ekki síst út í botnlanga kerfisins á Ísafirði og í Bolungarvík. Vandamálið liggur þó fyrst og fremst í dreifkerfinu, þ.e. rafmagnslínunum, fremur en að það vanti rafmagn. Enda er það svo að Orkubú Vestfjarða býður raforkunotendum um land allt að kaupa rafmagn þaðan. Töluvert er til af umframorku á Íslandi, t.d. frá Blönduvirkjun og Kárahnjúkum, og væri nær að bæta dreifkerfið á Vestfjörðum til að koma því til notenda. Einnig þarf að leggja af tengigjald sem Vestfirðingar greiða fyrir tengingu við Landsnetið.“

Í samtali okkar segir Tómas málflutning sem þennan á vafasömu siðferðislegu plani. Hæpið sé að fyrirtæki sem ekki eru með starfsemi í hreppnum beiti sér með þessum hætti. „Það er reyndar áberandi að flestir sem tjá sig um virkjunina hafa ekki komið þarna sjálfir og tala því af takmarkaðri þekkingu.“

Náttúruunnendur að upplagi

Náttúruáhugi Ólafs og Tómasar er ekki nýr af nálinni. Faðir þess síðarnefnda var jarðfræðingur og ferðaðist sonurinn með honum vítt og breitt um landið frá blautu barnsbeini, ekki síst um hálendið, sem faðirinn þekkti eins og lófann á sér. Ólafur var minna á hálendinu í bernsku en var á hinn bóginn sendur í sveit með kaupfélagsbílnum á vorin. „Mér leið ákaflega vel í sveitinni, þar sem ég drakk í mig náttúruna, eins og hún gerist best og ætlaði alltaf að verða kúabóndi. Ég saknaði náttúrunnar mest meðan ég var ytra í námi,“ segir Ólafur.

Tómas tekur undir þetta. „Það er svo mikils virði að upplifa þessa ósnortnu náttúru og víðáttu,“ segir hann en félagarnir viðurkenna að þeir verji svo að segja öllum sínum frítíma á fjöllum eða annars staðar úti í náttúrunni.

Eftir að hafa snúið heim úr sérnámi um miðjan síðasta áratug kynntust Tómas og Ólafur á vettvangi selskapar sem kallast FÍFL, það er Félag íslenskra fjallalækna. „Við fundum strax strenginn á milli okkar enda báðir háðir víðáttunni og kyrrðinni,“ segir Tómas. „Þess utan uppgötvaði ég strax að mættur var á svæðið ofjarl minn þegar kom að ljósmyndun en ég hef alltaf haft gaman af því að taka myndir í ferðum mínum á fjöll. Myndin getur nefnilega verið ennþá sterkara vopn en orðið.“

Stundum kallaður Balti

Ólafi líkaði strax vel að ferðast með Tómasi. „Hann þekkir landið miklu betur en ég sem fylgi bara með og tek myndir. Tommi er mjög góður leiðsögumaður.“

„Og leikstjóri,“ skýtur Tómas kankvís inn í. „Óli kallar mig stundum Balta.“

Þeir hlæja.

„Svo er yfirferðin á honum náttúrulega mjög mikil; maður má hafa sig allan við til að halda í við hann. Ég hef aldrei verið í betra formi heldur en eftir að ég fór að elta Tomma,“ segir Ólafur sposkur.

Annars taka þeir iðulega tillit hvor til annars. „Það er nauðsynlegt ætli menn að ferðast saman á fjöllum,“ segir Ólafur. „Við erum orðnir eins og tvíburar; hugsum oft eins og einn maður. Það er kúnst að ganga saman og þegja.“

Eiginkonur þeirra, Dagný Heiðdal og Þóra Þórisdóttir, eru líka oft með í för ásamt syni Ólafs, Tómasi Andra, sem er á fimmtánda ári. „Hann smitaðist ungur af þessari fjallabakteríu og hefur komið í Kverkfjöll, á Hvannadalshnúk og fleiri góða staði sem er örugglega sjaldgæft með krakka á hans aldri,“ segir faðirinn.

Kverkfjöll eru í sérstöku uppáhaldi hjá Tómasi, sem segir það eins sjálfsagðan hlut í sínu lífi að fara þangað og að borða morgunmat. Alls hefur hann komið þangað fjörutíu sinnum.

„Til að byrja með skildi ég ekki hvers vegna Tommi vildi alltaf fara aftur og aftur á sömu staðina en áttaði mig fljótt á því. Íslensk náttúra er svo margslungin að það er aldrei nákvæmlega eins að koma aftur á sama staðinn,“ segir Ólafur sem sjálfur hefur komið tíu sinnum í Kverkfjöll.

Því fleiri, þeim mun betra

Þeir vita fátt skemmtilegra en að ferðast með hópi fólks um hálendið og náttúruna. Því fleiri, þeim mun betra. „Besta náttúruverndin er að fara með fólk út í náttúruna. Það er til dæmis mjög sterkt að koma með fólk að fossunum í Árneshreppi; þá má heyra saumnál detta,“ segir Tómas og Ólafur bætir við að alltaf sé jafnskemmtilegt að fylgjast með viðbrögðum fólks þegar það upplifir víðernið og náttúruperlurnar í fyrsta sinn. „Drifkrafturinn er að skynja hvað fólk er snortið og ánægt.“

Þeir taka skýrt fram að þeir séu engir „ofurmenn“ og flestir geti ferðast með þeim, svo lengi sem þeir eru í þokkalegu formi. „Við setjum okkur sem markmið að koma öllum heilum upp og höfum bara einu sinni þurft að hætta við í miðjum klíðum. Það var þegar maður í hópnum fékk hjartsláttaróreglu,“ segir Tómas en þá kom sér að vonum vel að vera með hjartalækni á staðnum.

Innlendum ferðamönnum á hálendinu fjölgar jafnt og þétt og Tómas og Ólafur fagna þessum vaxandi áhuga á náttúru landsins. „Ekki er langt síðan fólk keyrði inn í botn Hvalfjarðar og tjaldaði þar í sumarfríinu. Núna fer það mun víðar og nýtur þeirra lystisemda sem landið hefur upp á að bjóða,“ segir Tómas.

Verða í samfloti

Ólafur og Tómas ferðast mikið um svæði utan alfaraleiðar, með tveggja kílógramma þungt tjald. „Það er ekkert mál að ferðast án þess að vera með tengivagn,“ bendir Tómas á. „Markmiðið er að vera í sem bestum tengslum við náttúruna og í sumar ætlum við að prófa nýja uppfinningu, flothettur,“ bætir hann við, en með þeim hætti geta þeir notið dýrðarinnar liggjandi á bakinu í ám og vötnum. „Við verðum í samfloti í orðsins fyllstu merkingu en hermt er að maður finni þetabylgjur þegar maður kemst í þetta ástand,“ segir Tómas.

Eins og gefur að skilja stjórnar veðrið oftar en ekki för. „Við gerum plön en náum ekki alltaf að fylgja þeim eftir. Stundum þarf maður bara að elta veðrið,“ segir Tómas sem vanur er að fara á Öræfajökul í maí. Að þessu sinni komst hann ekki þangað vegna veðurs; í fyrsta skipti í fjórtán ár. „Það er til marks um það hversu leiðinlegt veðrið var í maí. Vonandi verður sumarið betra!“

Þeir ljúka máli sínu með því að benda á að það séu mikil forréttindi að geta ferðast um landið sitt og notið perlanna sem það hefur upp á að bjóða. „Maður og náttúra eru eitt,“ segir Ólafur, „og við höfum rétt á því að rækta það samband.“