Arnrún Antonsdóttir fæddist 24. september 1958. Hún lést 23. maí 2018.

Minningarathöfn um Arnrúnu fór fram 8. júní 2018.

Elsku Adda mín.

Ég veit ekki hvað ég get sagt, en þú ert búin að vera partur af lífi mínu alla ævi. Minningarnar hrannast upp í huga mínum.

Við bjuggum á móti hvor annarri í Efstasundi og líklegast hittumst við fyrst þegar þú varst í göngutúr með ömmu þinni lítil skotta og hljópst til og ætlaðir að bjarga mér þar sem ég var bundin við snúrustaurinn.

Eftir það var ekki aftur snúið og urðum við bestu vinkonur öll uppvaxtarárin. Á unglingsárunum kynntist þú honum Ingva þínum og með árunum minnkaði sambandið hjá okkur eins og gengur og gerist. Við fylgdumst þó alltaf hvor með annarri í gegnum árin og ef það leið of langur tími á milli, þá hringdum við eða hittumst og það sem við gátum alltaf talað, hlegið eða grátið saman, alltaf var eins og við hefðum hist í gær.

Það er líka svo stutt síðan við hittumst síðast og glöddumst saman. Þá ákváðum við að fara reglulega í göngu, en henni verðum við víst að fresta um sinn. Elsku vinkona, hvað ég á eftir sakna þess að heyra, hitta og knúsa þig. Ég veit að Svana þín og allir hinir hafa tekið vel á móti þér með opinn faðm.

Þar til næst.

Elsku Ingvi, Anton, Þórður og fjölskyldur, Guð styrki ykkur og blessi.

Ykkar vinkona,

Guðrún Júlíusdóttir (Gunna).

Látin er langt fyrir aldur fram klúbbsystir okkar í Lionsklúbbnum Seylu, Arnrún Antonsdóttir. Við félagar í klúbbnum erum harmi slegnar vegna andláts Öddu, sem lést úti í Berlín eftir stutt veikindi. Hún fór með manni sínum, Ingva, ásamt félögum hans í Lionsklúbbi Álftaness og eiginkonum þeirra í helgarferð til Berlínar, þar sem átti að skoða þessa miklu menningarborg, með hennar miklu sögu og njóta samvista við Lions-félaga og vinkvenna í hennar eigin klúbbi.

En það átti ekki eftir að verða. Mikill er missir Ingva, sona hennar, barnabarna hennar og annarra ástvina.

Við Lions-konur söknum hennar mikið, stórt skarð er höggvið í okkar litla klúbb, þar sem við höfum séð á bak þremur klúbbsystrum á sex ára sögu klúbbsins okkar, en við munum halda minningu þeirra á lofti um ókomin ár.

Adda var ein af stofnfélögum í Lkl. Seylu á Álftanesi. Það var mikill fengur að hafa hana með þegar við lögðum upp í það að stofna klúbbinn.

Hún varð fljótt kvödd til ábyrgðarstarfs sem gjaldkeri. Starfaði hún í mörgum nefndum klúbbsins og var alltaf jákvæð og hvetjandi, tilbúin hvort heldur í fjöruhreinsun eða sörubakstur og margt annað sem klúbburinn tók sér fyrir hendur.

Ötul var Adda að koma með nýja félaga í klúbbinn og sama dag og hún lést kom inn um bréfalúguna hjá mér bréf frá Alþjóðaforseta Lions, ásamt silfurmerki til handa henni fyrir félagafjölgun á síðasta starfsári. Adda var varaformaður næsta starfsárs, og hefur hún örugglega verið farin að skipuleggja starfsárið sitt.

Hvers vegna er leiknum lokið?

Ég leita, en finn ekkert svar.

En finn hjá mér þörf til að þakka

þetta, sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Við klúbbsystur hennar þökkum henni að leiðarlokum fyrir samfylgdina í gegnum árin og biðjum góðan guð að varðveita Ingva, synina Þórð og Anton, fjölskyldur þeirra og aðra aðstandendur.

F.h. Lionsklúbbsins Seylu,

Guðrún H. Össurardóttir.

Hver getur siglt þó að blási ei byr,

bát sínum róið án ára?

Hver getur kvatt sinn kærasta vin,

kvatt hann án sárustu tára?

Ég get siglt þó að blási ei byr,

bát mínum róið án ára.

En ekki kvatt minn kærasta vin,

kvatt hann án sárustu tára.

(Þýð. Hulda Runólfsd. frá Hlíð)

Elsku frænka, þetta ljóð lýsir líðan okkar þegar við kveðjum þig í dag.

Við sitjum hér saman systkinin úr Háagerði 29 og rifjum upp liðna tíð, allar stundir sem við höfum átt með ykkur systrum í Efstasundi 70.

Nú hafa Eyrún og Guðrún þurft að kveðja ykkur tvær yngri systur sínar og er það stórt skarð í systrahópinn. Þið systur voruð ekki bara frænkur heldur meira eins og systur okkar, þar sem mæður okkar, systurnar Jara og Helga, voru mjög nánar og samgangur á milli heimilanna var mikill.

Við erum að rifja upp stundir úr jólaboðum, spiladögum, afmælum, ættarmótum og frábærum stundum á Skinnalóni og allt eru þetta yndislegar minningar. Í hvert sinn sem við hittumst var knúsast af innileik og því fylgdi þitt fallega bros og dillandi hlátur. Í augunum á þér var fallegur glampi af lífsgleði og hlýju að ógleymdri kímni sem smitaði út frá sér.

Þín verður sárt saknað úr „systra-ferð“ vorsins og Canasta verður að bíða uns við hittumst á ný.

Nú eru þær mæðgur saman á ný en ykkar missir er mikill

Elsku Ingvi, Toni, Þórður og fjölskyldur.

Guð blessi ykkur og varðveiti.

Hákon, Hrafnhildur,

Guðrún og Jóhanna.

Fallin er frá, óvænt, og fyrir aldur fram góð vinkona okkar hjóna Arnrún Antonsdóttir. Adda eins og hún var oftast kölluð var á ferðalagi í Berlín þegar hún veiktist skyndilega og lést á sjúkrahúsi þar í borg 23. maí. Við kynntumst Öddu og Ingva fyrir um 25 árum gegnum Lions á Álftanesi og náðum strax vel saman.

Þau voru samrýmd hjón, unnu saman í sínu fyrirtæki, voru mjög félagslynd og drífandi í öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur. Margar skemmtilegar stundir koma upp í hugann, matarboð og sumarbústaðarferðir þar sem þau hjónin nutu sín í eldhúsinu, síðan voru gjarnan sungnir skagfirskir slagarar eða gömul ættjarðarlög í lok máltíðar og flesta textana kunni Adda. Hún elskaði að spila lögin hans Sigfúsar Halldórssonar og syngja með.

Adda og Ingvi voru miklir matgæðingar og stofnuðu þeir nokkrir Lionsmenn matarklúbb ásamt okkur konunum þar sem boðið var í skemmtilegar matarveislur með tilheyrandi söng og gítarspili. Einnig höfum við undanfarin 20 ár komið saman með góðum vinum og skipst á að halda jólaboð í desember, þessar stundir eru ómetanlegir minningafjársjóðir. Að ferðast með þeim erlendis var mikil skemmtun, aldrei nein vandamál, bara gleði og jákvæðni hvort sem var ferðast í bíl um Þýskaland eða Ítalíu og gist í litlum þorpum í heimagistingu eða ferðir þar sem var gist á lúxushótelum.

Við vinkonurnar tókum okkur til fyrir um 20 árum og keyptum eiginmönnunum að óvörum þriggja vikna ferð til Taílands og Balí, sú ferð var oft rifjuð upp og mikið hlegið að minningunum. Einnig áttum við með þeim skemmtilegar stundir á Flórída fyrir tveimur árum ásamt vinum okkar Hilmari og Elínborgu en Elínborg Lionsvinkona okkar lést skömmu síðar langt fyrir aldur fram. Adda er ein af stofnfélögum í Lionsklúbbnum Seyla á Álftanesi. Þar naut hún sín og bauð sig gjarnan fram til verka, hún var gjaldkeri klúbbsins á fyrstu árunum og oftar en einu sinni í skemmtinefnd því konur eins og Adda eru ómissandi á þeim vettvangi. Ef klúbbkonur voru beðnar að taka að sér verkefni var hún yfirleitt fyrst til að bjóða sig fram. Hennar verður sárt saknað af okkur í Seylu. Sárastur er þó söknuður Ingva og fjölskyldunnar sem hafa misst svo mikið og svo skyndilega bæði dóttur og eiginkonu á innan við tveimur árum en Svana, dóttir Öddu og Ingva lést í september 2016.

Adda var máttarstólpi fjölskyldunnar og bar hag Ingva, barnanna og barnabarnanna fyrst og fremst fyrir brjósti og sá til þess að allir hefðu það sem best en gleymdi sjálfri sér svolítið í allri umhyggjunni þessi elska. Við komum til með að sakna og syrgja Öddu um ókomin ár. Við biðjum almættið að styrkja fjölskyldu hennar sem hefur misst svo mikið og vitum að hún hefur fengið góðar móttökur frá dóttur, systur, foreldrum og ættingjum í Sumarlandinu.

Rut og Bragi.

Adda okkar er látin, það er fjölskyldunni allri mikið áfall. Hún barðist hetjulegri baráttu í rúmar þrjár vikur á sjúkrahúsi í Berlín. Við vorum alltaf svo viss um að hún kæmi heim með okkur.

Adda varð hluti af fjölskyldunni fyrir rúmum 45 árum síðan, þá aðeins fimmtán ára. Hún vann hug og hjörtu allra í fjölskyldunni. Við hittum Öddu í fyrsta skiptið þegar hún kom með Ingva að passa börnin okkar. Ingvi taldi öruggara að hafa hana með því hún kunni að skipta um bleyjur og var svo lagin með börn. Strax daginn eftir spurði Sigfús sonur okkur hvenær þau kæmu aftur að passa. Adda hafði einstakt lag á börnum, hún spilaði við þau, púslaði og fór í leiki. Adda stjórnaði ófáum barnaafmælum í fjölskyldunni, þar var hún í essinu sínu og hreif alla með sér í leikinn. Öll börn sem kynntust henni elskuðu hana.

Adda og Ingvi eignuðust börnin sín þrjú á fjórum árum Anton, Þórð og Svönu. Oft á tíðum var nóg gera hjá Öddu en aldrei kvartaði hún.

Adda var einstaklega lagin í höndunum, hún saumaði og prjónaði föt á krakkana. Hún fór til að mynda á saumanámskeið og saumaði dragt á sig og jakkaföt á Ingva. Ég man að kennarinn hafði á orði að margir hefðu sótt þetta námskeiðið en Adda var fyrsta manneskjan til að sauma jakkaföt.

Adda var úrræðagóð ef halda átti veislu hvort sem var að elda eða bera fram matinn enda hafði hún notið leiðsagnar hjá Tona pabba sínum, sem var bryti. Þegar komið var að því að ganga frá eftir veisluna þá var Adda fljótust allra og allt komið á réttan stað á svipstundu.

Það var ekkert verkefni of stórt fyrir hana Öddu.

Alltaf var mikill samgangur á milli heimila okkar, fyrst á Sauðárkróki og síðar á Álftanesinu. Við eigum margar góðar minningar frá jólum, áramótum og ferðalögum með fjölskyldum okkar bæði hér heima og erlendis.

Þar var alltaf glatt á hjalla og góður matur á borðum enda miklir sælkerar þar á ferð. Adda og Ingvi unnu mikið saman, fyrst ráku þau Bláfell á Sauðárkróki og síðan stofnuðu þau og ráku Bílaspítalann í Hafnarfirði. Adda sá um bókhaldið og fjármálin og þar var allt í röð og reglu eins hennar var von og vísa.

Þegar barnabörnin fæddust þá fékk Adda nýtt hlutverk og þar naut hún sín til fullnustu. Hún hlakkaði til sumarsins sem hún ætlaði að verja í sumarbústaðnum með barnabörnunum sínum. Missir þeirra er mikill.

Andlát Svönu, sem lést fyrir tæpum tveimur árum, var þeim Öddu og Ingva afar þungbært. Karen Líf, dótturdóttir þeirra, dvaldi reglulega hjá ömmu sinni og afa og var afar kært á milli þeirra, enda er Karen Líf lifandi eftirmynd móðir sinnar, vel gefin, skemmtileg og yndisleg í alla staði.

Innilegar samúðarkveðjur til Ingva, Antons, Þórðar, Karenar og fjölskyldna þeirra.

Hvíl þú í friði, elsku vinkona, þín verður sárt saknað. Guð blessi þig.

Kveðja,

Stefanía og Snorri.