Reynsla Fyrsta öldungalandslið Íslands í brids keppir á EM í Belgíu.
Reynsla Fyrsta öldungalandslið Íslands í brids keppir á EM í Belgíu.
Þrjú íslensk lið keppa á Evrópumóti í brids, sem haldið er í Oostende í Belgíu. Keppni er hafin í opnum flokki en keppni í kvennaflokki og öldungaflokki hefst á morgun. Í opnum flokki er lokið 10 umferðum af 33 og er íslenska liðið í 4. sæti.

Þrjú íslensk lið keppa á Evrópumóti í brids, sem haldið er í Oostende í Belgíu. Keppni er hafin í opnum flokki en keppni í kvennaflokki og öldungaflokki hefst á morgun.

Í opnum flokki er lokið 10 umferðum af 33 og er íslenska liðið í 4. sæti. Liðið hefur spilað vel og aðeins tapað einum leik með litlum mun. Í liðinu spila Jón Baldursson, Sigurbjörn Haraldsson, Aðalsteinn Jörgensen, Matthías Þorvaldsson, Ómar Olgeirsson og Ragnar Magnússon en Anton Haraldsson er fyrirliði.

Í kvennaflokki eru 23 lið. Íslenska liðið skipa Anna Ívarsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir, Anna G. Nielsen, Helga H. Sturlaugsdóttir, María Haraldsdóttir og Stefanía Sigurbjörnsdóttir en fyrirliði er Sveinn R. Eiríksson.

Ísland sendir nú í fyrsta skipti lið til keppni í svonefndum öldungaflokki, en í honum keppa spilarar fæddir 1957 og fyrr. Í íslenska liðinu spila Björn Eysteinsson, Guðmundur Sv. Hermannsson, Haukur Ingason, Þorlákur Jónsson, Karl Sigurhjartarson og Sævar Þorbjörnsson en Guðmundur Baldursson er fyrirliði.

Mótinu lýkur næsta laugardag. Efstu liðin í öllum flokkunum fá rétt til að keppa á heimsmeistaramóti sem haldið verður á næsta ári. Ísland hefur tvisvar spilað í því móti í opnum flokki, 1991 þegar íslenska liðið vann, og 2011 þegar liðið komst í 16 liða úrslit en tapaði þar fyrir Hollendingum, sem síðan urðu heimsmeistarar.