María Thelma Smáradóttir á framtíðina fyrir sér í leiklistinni. Myndin Arctic var frumsýnd nýlega í Cannes og hlaut mikið lof en þar leikur hún annað aðalhlutverkið á móti Mads Mikkelsen. Einnig hefur hún samið einleik fyrir Þjóðleikhúsið sem sýndur verður í Kassanum snemma árs 2019, en þar leikur María Thelma einleik um foreldra sína sem kynntust í Taílandi.
María Thelma Smáradóttir á framtíðina fyrir sér í leiklistinni. Myndin Arctic var frumsýnd nýlega í Cannes og hlaut mikið lof en þar leikur hún annað aðalhlutverkið á móti Mads Mikkelsen. Einnig hefur hún samið einleik fyrir Þjóðleikhúsið sem sýndur verður í Kassanum snemma árs 2019, en þar leikur María Thelma einleik um foreldra sína sem kynntust í Taílandi. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
María Thelma Smáradóttir er nafn sem vert er að leggja á minnið, en aðeins 25 ára státar hún af því að hafa leikið á stóra sviði Þjóðleikshússins, samið einleik, leikið í Föngum, gefið út ljóðabók og síðast en ekki síst leikið í Arctic, stórri kvikmynd...

María Thelma Smáradóttir er nafn sem vert er að leggja á minnið, en aðeins 25 ára státar hún af því að hafa leikið á stóra sviði Þjóðleikshússins, samið einleik, leikið í Föngum, gefið út ljóðabók og síðast en ekki síst leikið í Arctic, stórri kvikmynd með Mads Mikkelsen. María Thelma er hálf-taílensk og hélt lengi vel að asískt útlit myndi hamla henni á leiklistarferlinum en segir það ekki raunina. Hinn stóri heimur bíður hennar og tækifærin liggja víða. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Í Perlunni er erill og hópar af ferðamönnum bíða spenntir eftir að fá að komast út á útsýnispallinn. Erindi mitt er hins vegar að hitta unga og efnilega leikkonu sem er nýkomin heim frá Cannes þar sem myndin Arctic var frumsýnd. Þar leikur María Thelma Smáradóttir annað af tveimur aðalhlutverkum á móti danska stórleikaranum Mads Mikkelsen. Þau eru reyndar einungis tvö í allri kvikmyndinni, sem var tekin upp hérlendis í snjó, kulda og trekki. En við komum að því síðar; á kaffihúsinu á efstu hæðinni er hlýtt því sólin skín inn um glerkúpulinn og hitar allt upp eins og í gróðurhúsi. María Thelma er mætt; falleg dökkhærð íslensk kona með dálítið taílenskt blóð í æðum. Yfir kaffinu ræðum við lífið og tilveruna, leiklistina og upprunann sem hún hefur nýtt sér í leiklistinni.

Forvitin um upprunann

Þrátt fyrir að vera orðin kvikmyndaleikkona er María Thelma með báða fætur á jörðinni og býr enn í foreldrahúsum. Henni þykir afar gott að vera í hreiðrinu hjá mömmu og pabba, en móðir hennar, Vala Rún Tuankrathok, er taílensk og faðirinn, Smári Þrastar Sigurðsson, Íslendingur.

Hvernig kynntust foreldrar þínir?

„Áhugavert að þú skulir spyrja að þessu því það verður sett upp verk um þetta á næsta ári í Þjóðleikhúsinu. Þetta er einleikur sem fjallar akkúrat um þetta, hvernig mamma og pabbi kynntust og af hverju hún kom til Íslands, en þau kynntust í Taílandi. Hún var að vinna á bar og pabbi kom inn á barinn og þau kynntust þar. Hann var að vinna hjá flugfélagi en hann er flugmaður og flugvirki. Svo varð mamma ólétt að eldri systur minni og þau giftu sig í Taílandi og fluttu svo til Íslands. „And the rest is history“ en ég er fædd hér,“ segir María Thelma og brosir.

Upphaflega samdi María Thelma stuttan einleik í Listaháskólanum.

„Þetta var lokaverkefnið mitt og við máttum í rauninni gera hvað sem er og einu reglurnar voru að verkið þyrfti að vera tuttugu mínútur. Ég ákvað að fjalla um mömmu mína af því ég var forvitin um líf hennar og mínar ættmæður. Hér á Íslandi getur maður farið í Íslendingabók og þjóðskrá og skoðað allt sitt ættartré. En í Asíu, þegar maður fæðist inn í lægstu stéttirnar, ertu ekkert skráður og það er svolítið eins og þú sért ekki til. Það er svo súrrealískt að hugsa til þess að hinn helmingurinn af mér er þaðan. Þetta eru tveir ólíkir pólar. Ég var ótrúlega forvitin um þetta og fór að grafast fyrir um hennar uppruna,“ segir María Thelma og fór þá að spyrja móður sína spjörunum úr.

„Henni leið aldrei eins og hún væri heima hjá sér þegar hún var í Taílandi. Þá fór ég líka að velta fyrir mér, hvað er það að vera heima? Mamma segir að um leið og hún lenti á Íslandi, og það var var snjór yfir öllu og friðsælt, hafi hún fundið að hér ætti hún heima. Þetta var árið 1990 og hún hefur verið hér alla tíð síðan,“ segir María.

„Ef mamma hefði ekki komið til Íslands væri ég ekki hér. Þannig að þetta sprettur allt af mömmu minni og leit að betra lífi. Þetta er það sem við erum að koma inn á, en ég er ein af fyrstu íslensku leikkonunum af erlendum uppruna,“ segir hún.

Taílenskt uppeldi strangara

Taílenska var töluð á heimili Maríu Thelmu til jafns við íslenskuna en móðir hennar talar alltaf sitt móðurmál við hana. Hún segir heimilið vera litað af taílenskri menningu, taílenskri matargerð og búddisma og nefnir að uppeldið hafa verið ólíkt því sem venjuleg íslensk börn hljóta. „Uppeldisaðferðirnar eru frekar strangar sem ég skil alveg og eru til góðs. Það er ekki mikil femínistabarátta hjá taílenskum konum og haldið í gamlar hefðir. Það eru alls konar litlir hlutir sem eru öðruvísi,“ segir María Thelma en bendir á að móðir sín sé frjálslegri í hugsun en taílenskar konur í Taílandi.

Þegar þú varst lítil, fannst þér þú öðruvísi en hinir krakkarnir?

„Já, já, þegar maður er barn er maður mikið að lesa í umhverfið og bera sig saman við aðra. Svo var ég að skipta á milli tungumála eftir því hvort ég var heima eða í skóla. En ég hef ekki upplifað fordóma.“

Á unglingsárunum segist María Thelma hafa haft áhyggjur af því að útlitið myndi hamla því að hún fengi góð hlutverk í framtíðinni. „En nú hugsa ég að ég eigi eftir að fá fleiri tækifæri, einmitt af því ég lít svona út. Þetta á ekki bara við um mig, heldur alla, af því við höfum öll einhverjar efasemdir um okkur sjálf. Það er algjörlega í okkar höndum hvort við notum það sem styrkleika eða veikleika,“ segir María Thelma sem á við að fólk er alls konar og bæði í kvikmyndum og á sviði er þörf á alls kyns útliti fólks. Enda endurspeglar leiklistin lífið sjálft.

Heppin með leikhópa

María Thelma er alin upp í Kópavogi og fór svo í Fjölbraut í Garðabæ á leiklistarbraut. „Þar fékk ég bakteríuna en það var þannig að þegar ég var í tíunda bekk og þurfti að velja menntaskóla, vissi ég ekkert hvað mig langaði að gera. Ég var feimin og í tilvistarkreppu en þá sá ég þessa leiklistarbraut og ákvað að prófa. Og hef ekki litið um öxl síðan. Þetta er mjög góður undirbúningur undir Listaháskólann,“ segir María Thelma og segist fljótt hafa fundið að hún væri þarna á réttri hillu. Eftir stúdentspróf lá því leiðin beint upp í Listaháskóla og segir hún námið þar hafa verið krefjandi og tímafrekt.

„Maður þarf að vera bæði metnaðarfullur og seigur til þess að komast í gegnum þetta,“ segir María Thelma sem þurfti að sjálfsögðu að þreyta erfitt inntökupróf til þess að komast á leiklistarbraut. Hún segist hafa sótt um til prufu áður en hún kláraði stúdentinn til þess að sjá hvernig ferlið væri, en komst ekki inn enda stúdentsprófs krafist.

„Svo sótti ég aftur um árið eftir og komst inn. Það eru tíu teknir inn en hundruð sem sækja um,“ segir hún.

Eftir útskrift árið 2016 fékk María Thelma strax hlutverk í sjónvarpsseríunni Föngum, sem Nína Dögg Filippusdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir framleiddu og léku í undir leikstjórn Ragnars Bragasonar.

„Það var æðislegt. Mér finnst ég hafa verið mjög heppin með leikhópa. Það er mjög vel tekið á móti mér og allir mæta mér á jafningjagrundvelli. Nína og Unnur eru alveg yndislegar. Ég lék fangann Írisi og fyrst og fremst var þetta mjög lærdómsríkt. Það eru svo stórkostlegar leikkonur í þessum þáttum og það að sitja til borðs með þeim var bara: vá! Ég er mjög þakklát. Ég hefði ekki getað verið heppnari og þetta var ótrúlega skemmtilegt,“ segir María Thelma.

Að því loknu var hún ráðin í verkefni hjá Þjóðleikhúsinu þar sem hún hóf störf í janúar 2017 en þar lék hún í barnaleikritinu Ég get og í Risaeðlunum með tveimur af þekktustu leikurum okkar, Eddu Björgvins og Pálma Gests. „Þar segi ég það sama, hvað ég var ótrúlega heppin með leikhóp. Þetta var mjög gefandi og það var aldrei dauð stund, Edda er svo fyndin,“ segir hún.

Hugsanir ungrar konu

Ljóðabókin Skúmaskot er eftir Maríu Thelmu sem lætur sér ekki nægja að vera á sviði. „Ég fæ mikla þörf fyrir að skrifa og skrifa mjög mikið, en gef það ekki endilega út. Eins og með þessa ljóðabók, þetta er samansafn af einhverri útrás sem ég endaði svo á að gefa út. Það er rosalega frelsandi! Ég get ekki ímyndað mér hversu margar ljóðabækur eru bara í skúffunum hjá fólki. Ég komst yfir þann ótta að sýna þetta öðrum og þá fer manni að vera sama um hvað fólki finnst. Ég skrifaði ekki bókina með það markmið í huga að gefa hana út þannig að þetta er svolítið hrátt og óritskoðað. Það var svo gott að sleppa bara takinu,“ segir hún og segir ljóðin fjalla um ástina, lífið og tilveruna.

„Hugsanir ungrar konu,“ segir hún og hlær.

Einnig skrifaði hún sem fyrr segir einleikinn um foreldra sína sem sýndur verður í Kassanum á næsta ári. Þar mun hún standa ein á sviði.

Er það ekki upphefð að fá að setja upp eigið leikrit og það í Þjóðleikhúsinu, þú sem ert enn svo ung?

„Jú, ég held samt að ég fatti það ekki sjálf. Það var þannig að Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri kom og sá verkið þegar ég setti það upp í Listaháskólanum,“ segir hún en það opnaði síðar dyrnar að stærra verki. Hún segir ekki fleiri leikrit á döfinni á næstunni en þó sé ekkert útilokað. „Ég gæti alveg fengið símtal á morgun með boð í að leika í einhverju, maður veit aldrei.“

Mads er með leikarahjarta

Nýlega var sýnd á Cannes-kvikmyndahátíðinni myndin Arctic með Mads Mikkelsen í aðalhlutverki og Maríu Thelmu. Aðeins þau tvö leika í myndinni, sem er amerísk-íslensk og tekin upp hér á landi. Myndin fékk mikið lof í Cannes og var valin ein af tólf bestu myndum hátíðarinnar.

Hvernig vildi það til að þú fékkst hlutverkið?

„Það var verið að leita að leikkonu af asískum uppruna og þau leituðu víða; í Englandi, Bandaríkjunum og hér heima. Það var haft samband við mig og ég fékk handritið sent og svo hitti ég leikstjórann. Svo fékk ég hlutverkið. Þetta var ekki prufa heldur átti ég samtal við leikstjóranna. Svo voru tökurnar í apríl og maí 2017. Þetta var ótrúlega krefjandi verkefni,“ segir hún.

„Fyrst og fremst út af veðrinu, við tókum mest upp á Nesjavöllum og það var allt á kafi í snjó. Maður var alltaf í stöðugu kapphlaupi við veðrið og náttúruna,“ segir hún en myndin er um lífsbaráttu á norðurskautssvæðinu.

Hvernig er myndin?

„Ég var að sjá hana í fyrsta skipti um daginn í Cannes og fannst hún mjög góð. Maður nær kannski ekki að njóta hennar alveg þegar maður sér hana í fyrsta sinn því ég var svo mikið að hugsa um praktíska hluti,“ segir María Thelma og brosir.

Hvernig er að leika á móti svona stórstjörnu eins og Mads?

„Hann mætir manni á jafningjagrundvelli og er mjög danskur og jarðbundinn. Hann er rosalega skemmtilegur, skilningsríkur og það var mjög gott að vinna með honum. Hann er enn með leikarahjartað og er ekki að missa sig í hroka. Við sóttum mjög mikið í hvort annað hvað varðar handritið og eyddum miklum tíma í að undirbúa okkur og til að missa ekki sjónar á því sem við vorum að gera. Á sama tíma voru aðstæðurnar svo erfiðar að maður þurfti að vera seigur til að komast í gegnum þetta, en þetta var góð reynsla. Það hefði verið auðvelt að missa sig í pirring, og þá meina ég ekki út í hvort annað heldur vegna erfiðra aðstæðna sem við vorum í. Okkur var alltaf kalt og það var alltaf blautt. Alltaf rok. Maður var alltaf með snjó í andlitinu. Þannig að þetta var rosa töff á þennan hátt og ég held að kuldinn geti dregið það versta fram í manni. Þetta voru ekki lúxustökur! Á einum tímapunkti sagði Mads: „Þetta er erfiðasta verkefni sem ég hef tekið þátt í“. Og ég sagði: „Þetta er fyrsta verkefni sem ég hef tekið þátt í!““ segir hún og skellihlær.

„Þannig að þetta er viðmiðið mitt núna. Ég var í útitökum í gær fyrir auglýsingaherferð og það var alveg kalt en ekkert miðað við Arctic! Viðmiðið er svo hátt, nú get ég hvað sem er. Þetta var ótrúlega krefjandi og mikilvægt að standa með sjálfum sér í gegnum allt ferlið.“

Hvað er minnisstæðast úr tökunum?

„Það var svo hvasst eitt sinn að hurðin á bílnum fauk upp og beyglaðist öll. Við Mads, sem sat í aftursætinu, reyndum bæði að loka en hurðin var orðin skökk og hjarirnar gáfu sig en við náðum loks að loka einhvern veginn,“ segir hún.

„Svo var voru fullt af fallegum og fyndnum augnablikum. Það var ótrúlegt hvað við gátum fundið samleið og vorum akkeri hvort annars í þessum aðstæðum. Ég man eftir einu ógleymanlegu augnabliki. Það var einn daginn algjört logn og allt þakið í snjó. Við vorum að borða hádegismat þar sem við sátum á risastórum snjóskafli. Ég var í risastórri úlpu, snjóbuxum og stígvélum. Og Mads sat þarna með mér og allt frábæra tökuliðið og það glitraði á snjóinn og það var svo ótrúlega fallegt. Þetta var svona augnablik þegar maður hugsar að maður vildi ekki vera neins staðar annars staðar.“

Leikhúsið er hættulegra

Hvernig var það að vera á rauða dreglinum í Cannes?

„Það var ótrúlegt að vera þarna, svo súrrealískt. Ég var svo stolt af öllum þeim sem komu að myndinni. Það sem stóð upp úr hjá mér var að sjá allt íslenska tökuliðið þarna, á Cannes, stærstu og flottustu listahátíð í heimi. Við Íslendingar erum komnir þangað, mjög langa leið. Við eigum svo harðgert og flott fólk í þessum bransa. Allir manns draumar og öll manns markmið eiga alveg séns.“

María Thelma segir að hugsanlega geti kvikmyndahlutverkið opnað dyr að öðrum stórum hlutverkum. „Maður veit aldrei. Það eru breyttir tímar hér á landi, í gamla daga var bara hægt að fá hlutverk í leikhúsunum en núna er svo mikil gróska í kvikmyndum og sjónvarpsseríum. Ég er eiginlega búin að vera meira í sjónvarpi en í leikhúsinu.“

Hvort er skemmtilegra?

„Það er hættulegra að vera í leikhúsi, maður þarf að negla þetta í hvert skipti. Og gera það mörg kvöld í röð. En í bíómyndum og sjónvarpinu er þetta nánari leikur.“

Þú endar kannski í bíómynd með Brad Pitt?

„Það er ekkert verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur,“ segir hún og skellihlær.

„Annars er það svo fyndið, að um leið og ég plana eitthvað langt fram í tímann er eins og að lífið loki á það og beini mér í einhverja allt aðra og betri átt.“

Hún segir að líklega sé næst á döfinni að fara á fleiri kvikmyndahátíðir með Arctic. „Við vissum ekki að myndin ætti að fara á Cannes, við sóttum um og svo biðum við eftir svari. Ég var í Kambódíu þegar ég frétti það og þurfti grínlaust að drífa mig heim. Ég var að hlusta á beina útsendingu í símanum mínum þegar tilkynnt var hvaða myndir kæmust inn. Ég var þarna ógeðslega sveitt og öll út í moskítóbiti og var að hlusta á þetta inni í einhverjum kofa. Svo heyrði ég að þeir nefndu Arctic og það var mikið fagnaðarefni.“

Í sumar hyggst María Thelma dvelja í London um skeið að ræða við umboðsmenn sem vilja hitta hana í kjölfarið á leik hennar í Arctic.

„Ég veit ekki hvað kemur út úr því en ég verð þarna í nokkrar vikur. Í haust tekur svo við undirbúningur og æfingaferli fyrir einleikinn.“

Að taka meira pláss

María Thelma er reynslunni ríkari eftir Arctic og segist hafa lært heilmikið.

„Mér leið stundum eins og það væri stutt í það að gefast upp en það skiptir svo miklu máli að halda áfram og ekki afsaka vinnuna sína, á einn eða annan hátt. Þrautseigjan er mikilvæg. Það getur enginn vegið og metið vinnuna þína nema þú sjálfur. Maður á ekki að taka minna pláss en maður þarf; taktu bara meira pláss. Stattu með þér. Það er nefnilega algengt hjá ungum leikkonum að afsaka sig og bakka út í staðinn fyrir að fagna sér og sinni vinnu því það er enginn að fara að vinna vinnuna fyrir þig. Þetta var svo erfitt og gott ferli að ég ætla bara að fagna því.“

20