Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Hæstiréttur ógilti í fyrsta sinn hjúskap með dómi sínum á fimmtudag. Í málinu hafði hælisleitandi á þrítugsaldri gifst íslenskri þroskaskertri konu, einnig á þrítugsaldri, í því skyni að öðlast dvalarleyfi.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Hæstiréttur ógilti í fyrsta sinn hjúskap með dómi sínum á fimmtudag. Í málinu hafði hælisleitandi á þrítugsaldri gifst íslenskri þroskaskertri konu, einnig á þrítugsaldri, í því skyni að öðlast dvalarleyfi.

„Það er afskaplega dapurlegt að vita til þess að einhverjir vilji nýta sér bágindi fólks með þessum hætti, en jafnframt er gott að sjá að réttarkerfið stendur vörð um þá sem minna mega sín þegar svona atvik koma upp,“ segir Pétur Örn Sverrisson, lögmaður konunnar.

Í dómi réttarins segir að svo sérstakar aðstæður hafi verið uppi í málinu með tilliti til andlegrar stöðu konunnar, að hún hafi ekki getað talist bær til að takast þá skuldbindingu á hendur að ganga í hjúskap.

Hæstiréttur vísaði til matsgerðar þar sem fram kom að konan hefði skýr einkenni einhverfu og þroskaskerðingar. Þar sagði að skilningur hennar á félagslegum samskiptum væri takmarkaður og að hafið væri yfir allan vafa að færni hennar til að gera sér grein fyrir því hvað fælist í hjónabandi hennar og mannsins væri verulega skert.

Hæstiréttur
» Vísað til sérstakra aðstæðna í málinu með tilliti til andlegrar stöðu konunnar.
» Hafið yfir allan vafa að færni konunnar til að skilja þýðingu hjónabands var verulega skert.