Sögustund David Douglas Duncan á ljósmyndahátíð í Perpignan í Frakklandi árið 2002 og heimsþekktir ljósmyndarar hlýða á sögur meistarans, þeir Nick Knight, Christopher Morris og James Nachtaway.
Sögustund David Douglas Duncan á ljósmyndahátíð í Perpignan í Frakklandi árið 2002 og heimsþekktir ljósmyndarar hlýða á sögur meistarans, þeir Nick Knight, Christopher Morris og James Nachtaway. — Morgunblaðið/Einar Falur
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Bandaríski ljósmyndarinn David Douglas Duncan er látinn, 102 ára að aldri. Hann lést í Suður-Frakklandi, þar sem hann var búsettur í nær sex áratugi.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Bandaríski ljósmyndarinn David Douglas Duncan er látinn, 102 ára að aldri. Hann lést í Suður-Frakklandi, þar sem hann var búsettur í nær sex áratugi. Duncan var einn áhrifamesti frétta- og heimildaljósmyndari seinni hluta 20. aldar og öðlaðist heimsfrægð fyrir skrásetningu sína á átökum, ekki síst Kóreustríðinu, en myndir hans birtust reglulega í virtustu tímaritum síns tíma. Þá var Duncan höfundur rúmlega tuttugu bóka og sú fyrsta sem öðlaðist verulega frægð var „This Is War“ sem kom út árið 1951, fjallar um Kóreustríðið og þótti sýna hryllinginn á afhjúpandi hátt.

Á seinni hluta ævinnar var Duncan þekktur sem hirðljósmyndari Pablos Picasso. Hann fór fyrst óboðinn að hitta listamanninn heimsfræga, Jacqueline eiginkona hans bauð Duncan inn og að spjalla við Picasso, sem var í baði. Þeir urðu bestu vinir og eyddi Duncan miklum tíma með Picasso síðustu 17 árin sem málarinn lifði, og gaf út fjölda bóka með myndum af lífi hans og umhverfi.

Við Duncan hittumst nokkrum sinnum á árlegri hátíð helgaðri fréttaljósmyndun í Suður-Frakklandi og árið 2002 átti ég við hann samtal sem birtist hér í blaðinu. Við gengum þá saman um ljósmyndasýningar og sumar sýndu stríðsátök.

„Hér er mikið af frábæru efni í myndum,“ sagði hann, „en kannski of mikið af tragík og óhugnaði. Ég vildi gjarnan sjá fleiri myndasögur með hamingju og léttleika. Það er erfitt að nota myndavél til að segja sögu en það er auðvelt að nota myndavél við að segja stríðsfréttir. Stríð er það auðveldasta sem þú getur myndað; alls staðar eru særðir, drama, sorg... Maður þarf bara að vita hvernig stríð eru háð, komast nálægt átökunum og vera heppinn. Þegar stríð bresta á fara allir þessir ljósmyndarar af stað og vilja ná MYNDINNI. Það er auðvelt. En að fylgjast með lífi fólks og gera heildstæða sögu, það er erfitt en gefur ljósmyndaranum svo miklu meira.“ Hann sagði að þrátt fyrir að hann væri hvað þekktastur fyrir stríðsmyndir hefði stríðsljósmyndun verið atvinna fyrir sér, ekki áhugamál. Þá hefði lífið verið auðveldara fyrir ljósmyndara hér áður fyrr. „Nú hafa allir séð atburðina í sjónvarpsstöðvunum; við ljósmyndarar þurfum að gera mjög óvenjulegar sögur til að grípa athyglina. En samt er þessi urmull góðra ljósmyndara á ferðinni í dag og allir vilja verða nýr Cartier-Bresson, Eisenstadt, James Nachtway – eða Douglas Duncan!“

En myndlist var áhugamál og hann naut þess að kynnast Picasso. „Ég var ekki málari, ekki listfræðingur heldur bara ljósmyndari og Picasso gat verið alveg afslappaður gagnvart mér,“ sagði hann. „Picasso var alltaf í vinnustofunni en hann var forvitinn um heiminn og vildi spjalla. Ég var alltaf á ferðinni, í Rússlandi, í Palestínu, Asíu, og þegar ég sneri heim til Frakklands heimsótti ég hann og sagði sögur.

Picasso skildi hvað ég var að gera með öllum þessum myndum, hann vissi að með tímanum yrði þetta yrði merkileg heimild. Ég gaf honum oft prent og hann lék sér að sumum þeirra, málaði á þau, og ég myndaði það allt saman,“ sagði Duncan.