Lárus Ögmundsson, yfirlögfræðingur Ríkisendurskoðunar, lést á Landspítalanum við Hringbraut þriðjudaginn 5. júní, 66 ára að aldri. Lárus fæddist í Reykjavík 11. september 1951.

Lárus Ögmundsson, yfirlögfræðingur Ríkisendurskoðunar, lést á Landspítalanum við Hringbraut þriðjudaginn 5. júní, 66 ára að aldri.

Lárus fæddist í Reykjavík 11. september 1951. Foreldrar hans voru Ögmundur Guðmundsson, deildarstjóri hjá Tollgæslu Íslands, og Halldóra Pálmadóttir húsfreyja.

Lárus varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands árið 1973 og lauk lagaprófi við Háskóla Íslands 1978. Hann varð héraðsdómslögmaður 1985.

Lárus var fulltrúi og síðar deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu frá 1. júní 1978 til 1. september 1989. Þá hóf hann störf hjá Ríkisendurskoðun og starfaði þar í tæp 29 ár, nú síðast sem yfirlögfræðingur og staðgengill ríkisendurskoðanda.

Lárus lék um tíma með meistaraflokki Vals í knattspyrnu. Hann starfaði í stjórnum félagsins um árabil, meðal annars í aðalstjórn, og var Valsmaður alla tíð eins og fjölskylda hans öll. Þá starfaði hann einnig að félagsmálum opinberra starfsmanna.

Eftirlifandi eiginkona Lárusar er Hildigunnur Sigurðardóttir. Börn þeirra eru þrjú, Lilja Karitas, Dóra María og Sigurður Egill.

Útför Lárusar verður gerð frá Bústaðakirkju fimmtudaginn 21. júní klukkan 13.