[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta ákaflega óskýra ferli, um hvernig taka skal á árásum hunda á fólk, er ómögulegt. Það virðist mun skýrara ef um er að ræða hávaða frá hundum eða hollustuhætti. Einn vísar á annan.

Það virðist samt engin tilkynningarskylda eða brot á lögum ef hundur ræðst á fólk eða önnur dýr,“ sögðu foreldrar fimm ára gamals drengs í viðtali í Morgunblaðinu í fyrradag. Drengurinn hefur frá því að hundur af Alaskan Malamute-kyni réðst á hann þurft að gangast undir þrjár aðgerðir, þrisvar verið svæfður. Hann mun líklega þurfa að fara í að minnsta kosti þrjár slíkar aðgerðir í viðbót og glímir við sálrænar afleiðingar.

Reglur í kringum hundahald á Íslandi virðast vera hinar furðulegustu. Meðan dýrin mega nú fara í strætó, á kaffihús og ýmislegt hefur verið gert til að gera samfélag dýra og manna í borg sem best er einhver grautargerð á hinum endanum, þar sem hafa þarf eftirlit með hættulegri hundakynjum. Því þótt svona atvik séu til allrar hamingju sjaldgæf gerir það þau atvik sem verða ekki betri.

Alaskan Malamute er til að mynda listaður sem einn hættulegasti hundur heims, hann er sums staðar bannaður, hefur orðið valdur að dauða barna, og til að hann njóti sín og geti verið yndislegur, eins og hann hefur fulla burði til, þarf hann að fá mikla útrás og halda þarf sérstaklega vel utan um hann. En hvað tryggir það hérlendis að dýr af slíkri gerð fái örugglega þannig umönnun? Það virðist ekkert eftirlit vera með því og því spyr maður sig af hverju að leyfa slíkar tegundir ef það er ekki hægt að tryggja það.

Í þessu finnst manni ábyrgðinni of mikið varpað á þá sem fyrir árásum verða. Það er einfaldlega ekki hægt að kyngja þeim málflutningi að fólk þurfi bara að læra að nálgast dýrin, kenna þurfi börnum að vaða ekki í hunda, þá sé öllum óhætt. Það er ekki hægt að færa ábyrgð yfir á lítil börn sem eru enn að læra á umhverfið. Það er líka spurning hvort ekki ætti að skylda eigendur hunda til að sækja þjálfunarnámskeið meðan þeir eru enn hvolpar því oft er þetta þekkingarleysi eigenda á eiginleikum hundanna og þjálfun sem getur varpað öllu um koll. Hundarnir sjálfir eiga það líka skilið að búa við gott atlæti þar sem þeir fá að blómstra og sýna sínar bestu hliðar.

Þetta ákaflega óskýra ferli, um hvernig taka skal á árásum hunda á fólk, er ómögulegt. Það virðist mun skýrara ef um er að ræða hávaða frá hundum eða hollustuhætti. Einn vísar á annan, heilbrigðiseftirlitið á Matvælastofnun, Matvælastofnun á lögreglu. Og þeir sem hafa áhyggjur af árásarhneigð dýrs í nágrenninu, eins og foreldrar drengsins, fá engar leiðbeiningar um hvernig þau geti snúið sér, það virðist þurfa átak í að samstilla viðbrögð.