Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Fiskvinnslan Íslandssaga á Suðureyri sagði upp 10 beitningamönnum um mánaðamót. Fyrirtækið áformar að kaupa bát og búnað til að vélbeita á sjó.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fiskvinnslan Íslandssaga á Suðureyri sagði upp 10 beitningamönnum um mánaðamót. Fyrirtækið áformar að kaupa bát og búnað til að vélbeita á sjó. Það er talið hagkvæmara, sérstaklega vegna hárra veiðigjalda, að sögn framkvæmdastjórans.

„Það er orðinn of mikill kostnaður við að gera út á landbeitta línu, eftir að þessi ofurháu veiðigjöld komu til sögunnar,“ segir Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu. Hann segir það helstu ástæðuna fyrir uppsögnunum.

Fyrirtækið er að kanna möguleika á að fjárfesta í bát með beitningavél í stað þeirra tveggja báta sem það gerir nú út.

Fjórir sjómenn eru á bátunum og þeim var ekki sagt upp. Beitningamennirnir hafa mislangan uppsagnarfrest, flestir þrjá mánuði. Óðinn segir stefnt að því að breytingin verði 1. september, við upphaf nýs fiskveiðiárs.

„Það gengur ekki vel,“ segir Óðinn um reksturinn. „Launin eru um 50% af tekjum útgerðarinnar og veiðigjöldin 12-15%. Við erum með tvo sjómenn og fimm beitningamenn við hvorn bát. Um það bil 7% af tekjum útgerðarinnar fara því í laun hvers manns, samkvæmt þumalputtareglunni. Veiðigjöldin þýða að við erum auk þess með tvo menn á sveimi sem við sjáum aldrei en þurfum að borga full laun. Þetta er næsthæsti kostnaðarliðurinn hjá útgerðinni í dag, á eftir launum,“ segir Óðinn.