Munir Oddar af örvum og spjótum, skrautlauf, brot úr lyfjaglasi og hálsfesti voru í sendingunni góðu.
Munir Oddar af örvum og spjótum, skrautlauf, brot úr lyfjaglasi og hálsfesti voru í sendingunni góðu. — Morgunblaði/Arnþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Sextán örvaroddar, fimm oddar af spjótum, axarhöfuð, sveigðar járnþynnur, ljár af orfi, hálsfesti og glerbrot úr lyfjaglösum eru munir í óvæntri sendingu sem Þjóðminjasafni Íslands barst í síðustu viku.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sextán örvaroddar, fimm oddar af spjótum, axarhöfuð, sveigðar járnþynnur, ljár af orfi, hálsfesti og glerbrot úr lyfjaglösum eru munir í óvæntri sendingu sem Þjóðminjasafni Íslands barst í síðustu viku. Það var á föstudag sem starfsmenn Góða hirðisins fundu ýmsa forvitnilega gripi í plastkassa í gámi sem borist hafði frá endurvinnslustöðinni við Dalveg í Kópavogi. Í kassanum reyndist vera nokkur fjöldi gripa sem líta út fyrir að vera fornir. Haft var samband við Þjóðminjasafnið og sótti starfsmaður þess gripina sem hafa verið til athugunar síðustu daga.

Skrautlauf úr kopar

„Það er mjög óvenjulegt að safninu berist nokkuð þessu líkt. Hins vegar vitum við ekkert um uppruna þessara gripa svo við leitum eftir upplýsingum frá þeim sem kunna að vita hvaðan gripirnir koma,“ segir Ármann Guðmundsson, sérfræðingur fornminja hjá Þjóðminjasafninu. Hann telur ekki ósennilegt að kopargripir í þessari sendingu séu af erlendum uppruna; það er spjótsoddur og skrautlauf, sem líkast til hafi verið skeytt við stöng eða skaft. Þá sé í sendingu þessari annar spjótsoddur úr járni sem ýmislegt bendi til að sé frá 10. öld.

„Við munum rannsaka alla þessa gripi, það er efnagreina og röntgenmynda auk þess sem handbragð og tákn úr menningarsögunni geta alltaf gefið okkur vísbendingar. Gerðfræðilegar rannsóknir köllum við slíkt, það er að skoða hlutina í samhengi við annað. Og þá þurfum við fyrst og síðast upplýsingar, til dæmis frá þeim sem fór með þessa gripi í gáminn á Dalvegi eða öðrum sem til þekkja. Það mun verða okkur afar gagnlegt. Það er mjög óvenjulegt að nokkuð þessu líkt hafi verið í einkaeigu og endi svo í nytjagámum,“ segir Ármann.

Gripir úr jörð

Gripirnir sem um ræðir virðast komnir úr jörð og óskar Þjóðminjasafn Íslands eftir upplýsingum frá þeim sem kunna að þekkja til þeirra. Viðkomandi eru beðnir um að hafa samband við Þjóðminjasafn Íslands eins og lög gera ráð fyrir. „Svona gripir eru sameign okkar allra og mega ekki fara í svelginn,“ segir Ármann – og bætir við að gripir úr jörð almennt þurfi að fá sérstaka meðferð forvarða og viðeigandi aðstæður. Varðveisla þeirra og sýning ráðist annars mjög af þeim upplýsingum sem nú er leitað eftir.