[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er gott og fagurt að elska málið. Og hinir sönnu elskhugar tungunnar þurfa oft ekki mikið til að „sæt músík rísi í hjörtunum“ eins og danska skáldið Jens Ágúst Skaði kvað.

Það er gott og fagurt að elska málið. Og hinir sönnu elskhugar tungunnar þurfa oft ekki mikið til að „sæt músík rísi í hjörtunum“ eins og danska skáldið Jens Ágúst Skaði kvað. Hér skulu enn rifjuð upp tvö dæmi um sanna ást:

Í Svarfaðardal var til sérkennileg málvenja sem fólst í því að framsöguháttur fyrstu persónu veikra sagna, sem að réttu og viðurkenndu lagi á að enda á a, ég tala, ég vona, ég borða , tók að enda á i rétt eins og í viðtengingarhætti: Ég tali, ég voni, ég borði . Til er saga af konu framan úr dal sem var einu sinni sem oftar mætt til messu á Tjörn og gekk síðan mjög hart fram í kirkjukaffinu á eftir við að hita kaffi og uppvarta kirkjugesti og dró hvergi af sér. Á endanum var hún spurð hvort hún vildi nú ekki reyna að slaka aðeins á og fá sér sjálf eitthvað af góðgerðunum, grípa svo sem eins og einn kaffibolla. Þá svaraði hún því sem síðar varð að orðtaki: „Nei takk, ég smakki það aldrei þegar ég lagi það sjálf.“

Þessi merkilega málvenja var við lýði alllengi frameftir tuttugustu öld en fór síðan halloka eftir því sem skólakerfið efldist og hvarf loks alveg. Svo var það dag einn fyrir tæpum þrjátíu árum að ég var staddur í dalnum og kom að máli við Hjört á Tjörn, frænda minn, og tók strax eftir því hvað það var létt og bjart yfir honum. Það var svo sem ekkert óvenjulegt en augljóst samt að þetta var eitthvað alveg sérstakt. Skýringin kom fljótlega. Hann hafði daginn áður komið við á einum af fremstu bæjum í dalnum og hitt þar bónda nokkuð við aldur. Þeir tóku tal saman um landsins gagn og nauðsynjar eins og alsiða er. Í þann mund sem þeir eru að kveðjast spyr Hjörtur hann hvort hann sé ekki á því að þurrkur eigi eftir að haldast næstu daga: Öldungurinn leit til himins og svarið lét ekki á sér standa: „Ja, ég voni það.“ Frændi minn hafði þá ekki heyrt nokkurn mann taka svona til orða í marga áratugi og það var þetta sem hafði glatt hann svona mikið. Hann lýsti viðbrögðum sínum við þessum stórkostlega atburði þannig að sér hefði hitnað öllum.

Seinna dæmið: Ég var að lesa Brazilíufarana, skáldsögu Jóhanns M. Bjarnasonar (Winnipeg 1905) og rakst þar strax í fyrsta kafla á eftirfarandi setningu: „Við vorum fjórir farþegjarnir, allir íslenzkir, allir einhleypir, ungir og heilsugóðir.“ Ég hafði aldrei séð þessa beygingarmynd áður, farþegjarnir , og bar hana umsvifalaust eins og allt slíkt undir föður minn. Það kom sælubros á andlit hans og ég sá strax að honum hitnaði öllum þegar hann sagði: „Já, svona talaði fólk. Æ, mikið er ég þér óendanlega þakklátur fyrir að minna mig á þetta.“

Svona getur hin sanna ást á tungunni birst. Hitinn sem þarna sló út hjá þessum svarfdælsku bræðrum, það er sami ylur og Jónas Hallgrímsson hafði í huga og fann fyrir þegar hann kallaði málið ylhýrt.

Þórarinn Eldjárn