[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Kabardinka Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Kópavogsstoltið Jóhann Berg Guðmundsson er mættur á heimsmeistaramótið í knattspyrnu í enn stærra hlutverki hjá íslenska landsliðinu en á Evrópumótinu fyrir tveimur árum.

Í Kabardinka

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Kópavogsstoltið Jóhann Berg Guðmundsson er mættur á heimsmeistaramótið í knattspyrnu í enn stærra hlutverki hjá íslenska landsliðinu en á Evrópumótinu fyrir tveimur árum. Færa má gild rök fyrir því að hann sé sá leikmaður liðsins sem tekið hafi skref í besta átt síðan á EM. Eftir frábært tímabil með spútnikliði Burnley í ensku úrvalsdeildinni í vetur er þessi 27 ára gamli kantmaður staðráðinn í að standa undir því á HM að vera orðinn einn almikilvægasti leikmaður liðsins:

„Maður er auðvitað kominn í eina bestu deild í heimi og er að spila þar reglulega, spila vel, og það gefur manni mikið sjálfstraust. Auðvitað reynir maður að nýta það til að hjálpa liðinu, eins og ég hef alltaf reynt. Ég er kannski orðinn aðeins mikilvægari núna en ég var þá [á EM 2016], bara út af því á hvaða stað ég er kominn og það er bara eðlilegt,“ segir Jóhann.

Jóhann var einn þeirra leikmanna landsliðsins sem voru til viðtals á æfingu í gær. Birkir Bjarnason og Hannes Þór Halldórsson, sem hafa glímt við smávægileg meiðsli, virtust búnir að hrista þau af sér og voru brattir í viðtölum við mbl.is. Aron Einar Gunnarsson fyrirliði tók einnig fullan þátt framan af æfingu, þann hluta sem var opinn fjölmiðlum, og útlitið er sífellt betra hvað fyrirliðann varðar. Sjálfur segist Jóhann svo geta verið upp á sitt besta á HM:

„Það var mjög gott að fá smáfrí eftir tímabilið, hlaða batteríin og koma ferskur inn í þetta. Maður er heldur ekki að fara að kvarta yfir neinu þegar maður er mættur á HM. Þá er ekki til nein þreyta. Ég er í toppstandi og ætla mér að spila eins vel og ég hef gert í vetur. Allt liðið ætlar sér auðvitað að spila vel, sem lið, því ef við spilum sem lið vitum við hversu erfiðir við erum að eiga við,“ segir Jóhann.

Mjög rólegur yfir þessu öllu

Hann virkar hæfilega afslappaður yfir því að nú fái hann að upplifa stærsta draum flestra fótboltastráka í heiminum, rétt eins og hann virðist aldrei láta það trufla sig innan vallar hve stór eða mikilvægur leikurinn er. Verður það líka þannig í fyrsta HM-leik Íslands, gegn Argentínu a laugardaginn?

„Ég veit ekki alveg. Ég er bara mjög rólegur yfir þessu öllu saman og er ekki að hugsa of mikið út í þetta. Ég tek bara einn dag í einu, æfi vel og er ekkert að stressa mig of mikið. Það þýðir ekkert. Á leikdegi kemur svo auðvitað fiðringur í magann, sem er bara eðlilegt, og það er alltaf spurning hvernig menn eiga við það inni á vellinum. Ég tel mig í góðu standi til að gera það vel á þessum tímapunkti,“ segir Jóhann. Ísland ætlar sér upp úr D-riðlinum en þarf þá að slá við tveimur hinna liðanna; Argentínu, Nígeríu og Króatíu. Hvað fær Jóhann til að trúa að það takist?

„Það sem við höfum sýnt sem lið undanfarin ár. Við vorum í erfiðum riðli fyrir Evrópumótið, komumst á það og fórum langt þar þó að mér fyndist við reyndar ekkert spila svo vel. Við náðum bara í góð úrslit og það er það sem skiptir öllu máli. Við komumst svo beint á HM úr undanriðli sem var sá eini með fjórum liðum af Evrópumótinu, gríðarlega erfiðum riðli. Af hverju ættum við ekki að hafa mikla trú á okkar liði eftir þetta? Fyrri hálfleikurinn gegn Gana [í vináttulandsleik síðastliðinn fimmtudag] sýndi aftur að við erum með frábært lið og nú er bara að tengja það saman í 90 mínútur á móti Argentínu,“ segir Jóhann, og glottir nú bara aðspurður hvort hætt sé við því að fari að molna undan liðinu sem unnið hefur hvert þrekvirkið á eftir öðru síðustu sex ár, í ljósi úrslita síðustu leikja:

„Það vona ég ekki. Við sýndum á móti Gana að við getum gert þetta. Æfingaleikir eru oftast mjög skrýtnir hjá okkur og voru það líka fyrir EM fyrir tveimur árum. Ég hef litlar áhyggjur af þessu og þegar komið verður í fyrsta leik á HM verða allir 100 prósent og ekkert gefið eftir.“

Nýjungar gegn Argentínu?

Nýjar útfærslur af hornspyrnum Íslands vöktu athygli ofanritaðs í vináttulandsleikjunum og Jóhann tekur undir að margir kostir séu í boði til að nýta þær sem best. Föst leikatriði gætu orðið lykilatriði fyrir Ísland til að vinna leiki á HM.

„Já, algjörlega. Við Gylfi sjáum um þessar spyrnur og gerum það áfram. Við höfum verið að prófa nýja hluti og það á bara eftir að koma í ljós á móti Argentínu hvort við prófum eitthvað nýtt. En við erum líka gríðarlega sterkir í að negla boltanum bara inn í teig þar sem við eigum stóra og góða skallamenn. Hvaða lið sem þarf að eiga við okkur inni í teignum á í erfiðleikum. Við eigum fullt af vopnum í vopnabúrinu.“