Skuggalega flottir Sebastian Boxleitner, styrktarþjálfari landsliðsins, stjórnar upphitun leikmannahópsins eins og herforingi og kemur einnig að öðrum verkefnum á hverri einustu æfingu.
Skuggalega flottir Sebastian Boxleitner, styrktarþjálfari landsliðsins, stjórnar upphitun leikmannahópsins eins og herforingi og kemur einnig að öðrum verkefnum á hverri einustu æfingu. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í KABARDINKA Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is Svo hressilega blés á heimaslóðum íslenska landsliðsins í knattspyrnu í Rússlandi í gærmorgun að flugvellinum í Gelendzhik var lokað um tíma.

Í KABARDINKA

Skapti Hallgrímsson

skapti@mbl.is

Svo hressilega blés á heimaslóðum íslenska landsliðsins í knattspyrnu í Rússlandi í gærmorgun að flugvellinum í Gelendzhik var lokað um tíma. Sumum fannst vindurinn reyndar þægileg tilbreyting því sólin brást ekki hlutverki sínu frekar en fyrri daginn.

Landsliðið flýgur til Moskvu á fimmtudag, tveimur dögum fyrir viðureigina sögulegu við Argentínu, og vonandi verður lognið ekki á jafn mikilli hraðferð þá. Verði ekki hægt að fljúga frá Gelendzhik þarf nefnilega að aka í eina og hálfa klukkustund til næsta flugvallar. Áfram er spáð steikjandi hita og vindi, en á fimmtudag er reyndar reiknað með að blási úr annarri átt svo vonandi verður flugfært. Að öðrum kosti leggur hugsanlega einhver gestanna úr norðri til við heimamenn að byggt verði á flugvellinum og starfsemin flutt annað. Hann er hvort eð er aðeins steinsnar frá byggðinni...

Fyrir fyrstu æfingu, á sunnudaginn, hafði verið komið fyrir sóltjöldum þar sem blaðamenn og ljósmyndarar athöfnuðu sig við hlið æfingavallarins, auk þess sem vinnuaðstaða íslenska fjölmiðlahópsins var í stóru tjaldi aftan við völlinn. Þar fékk enginn að fara inn í gærmorgun vegna hvassviðrisins og sóltjöldin voru fokin burt.

Að rokinu frátöldu gekk lífið sinn vanagang í litla strandbænum við Svartahaf í gær. Fótboltamenn æfðu, fjölmiðlamenn töluðu, mynduðu og skrifuðu og Rússarnir fóru á ströndina. Blíða verður hér þar til um helgina þegar spáð er mikilli rigningu, tímabundið. Þá verður íslenski hópurinn í Moskvu, hætt að rigna þar skv. spánni og veðrið orðið blítt. Gæti það vitað á gott?