Um miðja síðustu viku skrifar Ólafur Stefánsson í Leirinn að það sé síðast að frétta af meirihlutaviðræðum í Reykjavík að þar sé svo skemmtilegt og mikið hlegið. – „Guð láti gott á vita!

Um miðja síðustu viku skrifar Ólafur Stefánsson í Leirinn að það sé síðast að frétta af meirihlutaviðræðum í Reykjavík að þar sé svo skemmtilegt og mikið hlegið. – „Guð láti gott á vita!“ bætir hann við:

Við þurfum á göturnar „gravel“

svo gangi smurt viðskipti' og „travel“

Einn höfum kjóa,

og ein er hér Lóa,

– en heyrði' einhver hlæja' ann Pawel ?

Og á laugardag hafði hann við orð „hvikið þér nú allir nema Skammkell“:

Það nær ekki nokkurri átt,

að Nýhaldið*, áður svo blátt,

stjórnað af Degi,

stýrt bænum megi,

á viðsjálan Viðreisnarhátt.

* nýhald er nýyrði lögverndað.

Sigurlín Hermannsdóttir hefur orð á því að nú ætli Alþingi að koma skikki á rafrettureykingar. – „Sýnist sitt hverjum um ágæti þeirrar nýjungar“:

Hann Eldar Sig. gasprar og geipar

og gjarnan sig hulunni sveipar

því að þungbúið loft

hann þekur svo oft

og einkum er ódámur veipar.

Ármann Þorgrímsson yrkir „á leið að jarðarför“:

Okkar tilvist ekki skil,

eitt þó með á hreinu,

að upphafið var aldrei til

og aldrei lýkur neinu.

En áður hafði Ármann spurt: „Hefur stjórnarandstaðan flutt tillögur á alþingi um bætt kjör aldraðra og öryrkja?“ og bætir síðan við :„Það hlýtur eitthvað að hafa farið fram hjá mér!“:

Skömmuð Kata alltaf er,

ástæður þess flestum kunnar,

en fóru eitthvað fram hjá mér

frumvörp stjórnarandstöðunnar?

Um fundarstjórnun forsetans

flytja margir langar ræður.

Með gullkálfum svo ganga í dans,

gleymast þeirra minnstu bræður.

Ég á von á því að fleiri en ég geti tekið undir með Pétri Stefánssyni:

Á Fróni er allt í fínu standi,

fólk í gleði unir sér,

og ég er alveg óstöðvandi

ástfanginn af sjálfum mér.

Karl Bjarnason orti:

Fisksalarnir fram um stig

fala silfrið gljáa:

þeir eru að bjóða sjálfa sig, –

saltaða, úldna, þráa.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is