[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Gera má ráð fyrir að þátttaka lífeyrissjóða verði takmörkuð í yfirstandandi útboði á fjórðungshlut í Arion banka ef útboðsgengið verður í efri mörkum þess sem gefið hefur verið upp.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Gera má ráð fyrir að þátttaka lífeyrissjóða verði takmörkuð í yfirstandandi útboði á fjórðungshlut í Arion banka ef útboðsgengið verður í efri mörkum þess sem gefið hefur verið upp. Um nýliðin mánaðamót var gefin út skráningarlýsing á bankanum og því lýst yfir um leið að Kaupskil og félag sem stýrt er af Attestor Capital stefndu að því að losa um allstóran hluta eignar sinnar í Arion banka, sem nú nemur 68%, á genginu 0,6-0,7 af bókfærðu eigin fé bankans. Endanlegt sölugengi mun ráðast af eftirspurn í útboðinu en þar geta fjárfestar lagt inn pantanir fyrir hlutum í bankanum og tilgreint hvar, innan fyrrnefnds verðbils, þeir eru tilbúnir til að ganga að viðskiptum með hlutafé Arion.

Sjóðirnir enn á ný að borðinu

Á undanförnum vikum hafa fulltrúar seljenda róið öllum árum að því að koma hlutafé bankans á framfæri, ekki síst við erlenda fjárfesta. Bankinn verður skráður á markað í lok vikunnar og verður það gert með tvöfaldri skráningu í Kauphöllum Nasdaq OMX, í Reykjavík og í Stokkhólmi. Hin tvöfalda skráning var talin forsenda fyrir því að draga erlenda fjárfesta að borðinu.

En þá hafa einnig væntingar staðið til þess að fá stóra íslenska fjárfesta að bankanum. Þar hljóta lífeyrissjóðirnir að vega þungt en að minnsta kosti tvær tilraunir hafa verið gerðar til þess að fá þá að borðinu án árangurs. Síðari tilraunin hleypti illu blóði í samskipti sjóðanna og forsvarsmanna Kaupskila en fulltrúar lífeyrissjóðanna töldu að Kaupskil hefðu leikið tveimur skjöldum í þeim viðræðum. Urðu málalyktir þær, í kjölfar þess að í ljós kom að Kaupskil hefðu haldið viðræðum við sjóðina áfram nokkru eftir að félagið hafði skuldbundið sig til að selja eigendum sínum hluti í bankanum, að félagið bauðst til þess að greiða útlagðan, tugmilljóna kostnað sjóðanna, vegna viðræðnanna sem endað höfðu í harkalegu strandi.

Liggja enn yfir ákvörðuninni

Heimildir Morgunblaðsins innan úr lífeyrissjóðakerfinu herma að fæstir lífeyrissjóðirnir hafi gert endanlega upp hug sinn um með hvaða hætti þátttöku þeirra verði háttað í útboðinu sem lýkur á fimmtudag en margar sjóðstjórnir munu sitja fundi um málið í dag og næstu daga þar sem þátttakan verður kortlögð og ákvörðuð.

Lítið spenntir fyrir hæsta verði

Heimildir blaðsins herma hins vegar að sjóðirnir hyggist ekki skrá sig fyrir stórum fjárhæðum í útboðinu nema við neðri mörk verðbilsins. Því kunni í ákveðnum tilvikum að verða lítið úr þátttöku sjóðanna, verði útboðsgengið nær 0,7 en 0,6 af bókfærðu eigin fé.

Meðal þess sem sjóðirnir hafa nú til skoðunar eru þau áhrif sem eignarhlutdeild í Arion banka kann að hafa á áhættudreifingu þeirra. Þar er verið að kortleggja krosseignatengsl í íslensku efnahagslífi og hvernig þær eignir sjóðanna, sem margar hverjar liggja í tryggingafélögum, skuldabréfum útgefnum af bönkunum og beinum lánveitingum til húsnæðiskaupa einstaklinga, kunna að hafa áhrif á fyrrnefnda áhættudreifingu. Þannig segja viðmælendur blaðsins að margt bendi til þess að eignarhlutur í Arion banka auki í litlu áhættudreifinguna.