Mér er þakklæti efst í huga þegar ég skrifa þessi orð hérna við sundlaugarbakkann á hóteli okkar íslensku fjölmiðlamannanna í strandþorpinu Kabardinka í Rússlandi.
Mér er þakklæti efst í huga þegar ég skrifa þessi orð hérna við sundlaugarbakkann á hóteli okkar íslensku fjölmiðlamannanna í strandþorpinu Kabardinka í Rússlandi. Þakklæti í garð landsliðsmannana okkar fyrir að hafa unnið sér sæti á vinsælasta íþróttaviðburði heims (það má reyndar deila um hvort Ólympíuleikarnir séu vinsælli), og í garð þjálfaranna og annarra sem tóku þátt í að velja þennan notalega stað.

Sólin hefur glatt hjartað eftir skelfilegt vor heima í Reykjavík og notaleg hafgola sér til þess að manni verði ekki of heitt. Talandi um vind þá má segja að nú ríki lognið á undan storminum því það virðast allir leikmenn, þjálfarar og aðrir enn pollrólegir yfir því sem framundan er. Það breytist í síðasta lagi á laugardaginn.

Með í för hjá íslenska hópnum eru kokkarnir Hinrik Ingi Guðbjargarson og Kirill Dom Ter-Martirosov, en svo skemmtilega vill til að Kirill, sem búið hefur á Íslandi frá því að hann var 11 ára, er héðan af Gelendzhik-svæðinu við Svartahaf.

Ég held að þarna fari tveir algjörir lykilmenn í íslenska hópnum, því maturinn sem ég hef fengið eða séð aðra fá sér hingað til í ferðinni hefur ekki verið neitt sérstakur. Þess ber þó að geta að ég hef aldrei verið einhvers konar annáluð alæta þegar kemur að mat.

Við fengum bara að sjá fyrstu 15 mínúturnar af æfingu Íslands í gær en það var hughreystandi að sjá Aron Einar Gunnarsson og Birki Bjarnason í takkaskóm, taka fullan þátt í þeim hluta. Argentína hefur þegar misst tvo byrjunarliðsmenn út úr sínu liði vegna meiðsla en við megum einfaldlega verr við slíku en slíkar stórþjóðir.