Spennandi „Í gegnum verkið á sér stað flæðandi umbreyting, bæði í líkama dansarans og líka með stórkostlegri lifandi sviðsmynd sem kallar ekki síður á athygli áhorfandans,“ segir rýnir um The Lover Báru Sigfúsdóttur.
Spennandi „Í gegnum verkið á sér stað flæðandi umbreyting, bæði í líkama dansarans og líka með stórkostlegri lifandi sviðsmynd sem kallar ekki síður á athygli áhorfandans,“ segir rýnir um The Lover Báru Sigfúsdóttur. — Ljósmynd/Aëla Labbé
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dansari og danshöfundur: Bára Sigfúsdóttir. Ljósmyndari: Noémie Goudal. Sviðsmynd: Noémie Goudal og 88888. Arkitekt: Jeroen Verrecht. Tónlist og hljóð: Borko. Lýsing og tækni: Kris Van Oudenhove. Dramatúrg: Sara Vanderieck. Tjarnarbíó - Listahátíð í Reykjavík, 7. júní 2018.
Mennirnir elskuðu jörðina svo mikið að þeir eyddu henni, gleyptu hana gjörsamlega. Síðan yfirgáfu þeir hana því ekkert var eftir, og eftir hvarf þeirra óx náttúran og stofnaði ný lönd.

Þessi tilvitnun er innblásturinn að verkinu The Lover eftir Báru Sigfúsdóttur sem var sýnt í Tjarnarbíó á vegum Listahátíðar í Reykjavík, dagana 7. og 8. júní. Verk ljósmyndarans og myndlistarmannsins Noémie Goudal sem gerði sviðsmyndina urðu danshöfundinum að yrkisefni.

The Lover er sjónrænt dansverk, hugleiðing um samband manns og náttúru. Dansarinn birtist okkur sem einhverskonar vera, mannleg eða dýrsleg. Hreyfingarnar einkennast af titring eða kippum, fyrst í handleggjunum sem eru líkt og þeir séu grónir fastir við sviðið – jörðina en svo færast hreyfingar út í allan líkamann. Hann – líkaminn – umbreytist í gegnum verkið með hreyfingum sem virðast vera stýrðar af einhverju æðra afli. Bára hefur þróað þennan einstaka hreyfistíl til að miðla hugmyndum sínum en það sem við sjáum er mjög opið fyrir túlkun áhorfandans.

Hún notar einangrunaraðferð þar sem hún hreyfir einn líkamspart, þannig að athygli áhorfenda beinist að honum. Þannig er jafnvel hægt að gleyma því að þetta sé líkami, heldur birtist eitthvað annað, og það er einstaklingsbundið hvað hver sér. Í aðferðafræði dansarans má greina samruna og stríð náttúrunnar og manneskjunnar, sem skapar mekanískt flæði, og hún verður bæði ómanneskjuleg og ódýrsleg. Nærvera hennar er einlæg, og úr andlitinu má bæði lesa fegurð og trega, rétt eins og ástin er. Hún tekur áhorfendur með í ferðalag þar sem gjörðirnar á sviðinu tala, fremur en að flytjandinn sé að kommenta á viðfangsefnið sitt. Hún gefur áhorfandanum möguleika á að hugleiða samband sitt við náttúruna.

Tónlistin endurspeglar togstreitu náttúru og mannsins, sköpunar og eyðileggingar, með annars vegar fagurri fiðlutónlist eða hljóðum sem minna á kirkju, og hins vegar fjarlægum ógnvekjandi drónum. Hún minnir á drauma og bið, millistig milli lífs og dauða, og á endanum er eins og hún gleypi okkur og við drukknum í henni.

Verkið er um togstreituna á milli hins mannlega og hins náttúrulega, og eru mörkin þar á milli óljós. Í gegnum verkið á sér stað flæðandi umbreyting, bæði í líkama dansarans en líka með stórkostlegri lifandi sviðsmynd sem kallar ekki síður á athygli áhorfandans.

Fyrir aftan dansarann er veggur með ljósmynd af grísku hofi, tignarlegum súlum og í botninum má sjá eitthvað sem er falið með teppi. Tákn fyrir grunnstoðir vestrænnar menningar. Hofið er gamalt og rykugt, það er fallegt en það er autt. Það liggur einhver nostalgía yfir því, leifar stórkostlegs heims, sem nú hefur verið yfirgefinn.

Vatn, jafnt tákn um upphaf lífsins sem og eyðileggingu, ræðst á sviðsmyndina, eins og stífla sem brestur, hofið flosnar af og náttúran brýst út. Þetta er dáleiðandi sjón, og mjög spennandi. Að bíða í óþreyju eftir að bútarnir detti af, vonbrigði þegar það gerist ekki og fullnæging þegar stór bútur losnar. Þetta verður eins og keppni þar sem áhorfandinn er í liði með náttúrunni. Veran horfir til baka á heiminn umbreytast, þegar bútarnir detta koma hljóð sem falla inn í hljóðmyndina og bergmála með upplifuninni.

Þema Listahátíðar í ár er „Heima“, og því ekki skrítið að margir íslenskir listamenn kjósi náttúruna sem viðfangsefni sitt, eins og sjá má á myndlistarsýningu hátíðarinnar, Einskismannslandi .

The Lover vekur ekki síður hugleiðingar um það hver á land, hver á náttúruna. Geta mennirnir gert það sem þeir vilja við jörðina, þegar við höfum aðeins búið hér í brotabrot af sögu hennar, og hún hefur valdið til þess að tortíma okkur. Höfum við misst virðinguna fyrir henni, og erum hætt að óttast hana? Eins og ættbálkar fortíðarinnar og sum samfélög í dag gera. Hvað varð um ástarsamband mannanna við náttúruna? Verkið minnir okkur á eilífðina, á allan tímann sem hefur liðið og á eftir að líða. Það er líka jákvætt, gefur okkur von um endursköpun án mannana.

Að hugsa í skammtímalausnum neyslusamfélagsins, eins og að eyðileggja stór landsvæði, þurrka upp fossa, til að leysa vandamál og fyrir skammvinnan hagnað fárra – er ekki farsælt til lengdar. Það þarf að hugsa til framtíðar, þar sem verðmæti einstakrar ósnertrar náttúru og óbyggðra víðerna munu aukast verulega í sífellt manngerðri heimi. Óspillt eyðiland er það dýrmætasta sem við eigum og ástæðan fyrir því að fólk annarra landa flykkist hingað. The Lover minnir okkur á það hvað við erum í raun ómerkileg í samanburði við ótrúlega náttúru þessarar jarðar. Það er óásættanlegt að maðurinn eyðileggi hana, og hún mun berjast á móti.

Bára Sigfúsdóttir er verulega spennandi danshöfundur sem kafar á dýptina og kann að skapa áleitin verk sem krefjast þess að við tökum afstöðu. Við þurfum fleiri slíka höfunda.

Nína Hjálmarsdóttir

Höf.: Nína Hjálmarsdóttir