Sú besta Leikkonan Katrina Lenk fer á kostum í The Band's Visit.
Sú besta Leikkonan Katrina Lenk fer á kostum í The Band's Visit. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Söngleikurinn The Band's Visit hlaut langflest Tony-verðlaun í New York á sunnudagskvöldið, tíu alls, en þau eru helstu leiklistarverðlaunin vestanhafs. Söngleikurinn fjallar um egypska lögregluhljómsveit sem verður strandaglópur næturlangt í Ísrael.

Söngleikurinn The Band's Visit hlaut langflest Tony-verðlaun í New York á sunnudagskvöldið, tíu alls, en þau eru helstu leiklistarverðlaunin vestanhafs. Söngleikurinn fjallar um egypska lögregluhljómsveit sem verður strandaglópur næturlangt í Ísrael. Aðalsöngvarar verksins, Katrina Lenk og Tony Shalhoub þóttu best í sínum flokkum og þá var leikstjórinn David Cromer valinn sá besti, tónskáldið David Yazbek hreppti verðlaun fyrir tónlistina og Itamar Moses fyrir söguna.

Tvöfalda Harry Potter-leikritinu, Harry Potter and the Cursed Child , sem gerist eftir að bókaflokki JK Rowling lýkur og er dýrasta sviðssetning leikrits í sögu Broadway hafði líka verið spáð góðu gengi og það gekk eftir því þau hrepptu verðlaunin sem besta leikritið.

Að sögn The New York Times var óvæntasta uppákoma kvöldsins þegar söngleikurinn Once on This Island hafði betur en Carousel og My Fair Lady og hreppti verðlaun sem veitt eru fyrir besta söngleik sem aftur er færður á svið.

Verðlaun fyrir bestan leik hrepptu Andrew Garfield og Nathan Lane fyrir Angels in America og Glenda Jackson og Laurie Metcalf fyrir Three Tall Women .

Í ávörpum gagnrýndu margir listamannanna núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum, án þess að nefna forsetann á nafn. Leikarinn Robert De Niro vandaði Donald Trump þó ekki kveðjurnar þegar hann kynnti tónlistaratriði Bruce Springsteen og tvinnaði við það hressilegum blótsyrðum.