Fundur Bílar ráðherranna skörtuðu flöggum ríkjanna líkt og vera ber.
Fundur Bílar ráðherranna skörtuðu flöggum ríkjanna líkt og vera ber.
Utanríkisráðherrar Þýskalands, Frakklands, Rússlands og Úkraínu hittust í gær í Berlín, höfuðborg Þýskalands, en fundinum var ætlað að vera nýtt upphaf að friðarferli í Úkraínudeilunni, sem nú hefur geisað í um fjögur ár. Meira en 10.

Utanríkisráðherrar Þýskalands, Frakklands, Rússlands og Úkraínu hittust í gær í Berlín, höfuðborg Þýskalands, en fundinum var ætlað að vera nýtt upphaf að friðarferli í Úkraínudeilunni, sem nú hefur geisað í um fjögur ár. Meira en 10.000 manns hafa látið lífið í deilunni og enn eru nær daglega skærur á milli úkraínska stjórnarhersins og rússneskumælandi uppreisnarmanna í austurhluta landsins.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Petró Porosjenkó, forseti Úkraínu, töluðust við í síma á laugardaginn til þess að undirbúa jarðveginn fyrir fundinn. Ræddu forsetarnir meðal annars möguleikann á að skipst yrði á föngum.

Fundurinn í gær markaði nokkur tímamót, þar sem þetta var fyrsti fundur fulltrúa þessara fjögurra ríkja í um 16 mánuði, en saman stóðu Þjóðverjar og Frakkar að hinu svonefnda Minsk-samkomulagi á milli Rússa og Úkraínumanna, sem í orði kveðnu átti að tryggja vopnahlé í deilunni. Samkomulagið hefur hins vegar verið þverbrotið af báðum deiluaðilum og ríkti því lítil bjartsýni fyrir fundinn í gær um árangur. Sagði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, að enn væri mjög langt á milli Úkraínumanna og Rússa, og því mætti gera ráð fyrir erfiðum viðræðum. Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, tók í sama streng fyrir helgi og sagði að trúverðugleiki Minsk-samkomulagsins væri að veði.

Frakkar kynntu í síðustu viku nýja ályktun í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, þar sem brot á vopnahléinu voru fordæmd. Var ályktunin samþykkt samhljóða, þar á meðal af Rússum. sgs@mbl.is