Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Íslendingum hefur gengið vel á Evrópumótinu í brids í Oostende í Belgíu. Mótinu lýkur á laugardag og er keppni í opnum flokki rúmlega hálfnuð.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Íslendingum hefur gengið vel á Evrópumótinu í brids í Oostende í Belgíu.

Mótinu lýkur á laugardag og er keppni í opnum flokki rúmlega hálfnuð. Íslenska liðið er í fjórða sæti sem stendur og vann allar viðureignir sínar í gær, að undanskilinni rimmu gegn Norðmönnum þar sem íslenska liðið tapaði 15-5.

Liðið hefur verið í efstu fimm sætunum frá því mótið hófst, en átta efstu liðin vinna sér inn þátttökurétt á heimsmeistaramóti. Liðið etur kappi við sterkar bridsþjóðir í dag, Ítalíu og Þýskaland.

Hollendingar vermdu fyrsta sætið í gærkvöldi, Ungverjar voru í öðru sæti og Ítalir í því þriðja. Alls keppa 34 þjóðir í opna flokknum.

Í kvennaflokki og öðlingaflokki gekk illa á sunnudag, en í gær unnu liðin allar viðureignir sínar og eru bæði um miðja deild.

Fundur Evrópska bridgesambandsins (EBL) fór fram á laugardag. Nýr forseti, Jan Kamras frá Svíþjóð, var kjörinn á fundinum og Jafet Ólafsson, forseti Bridgesambands Íslands, var endurkjörinn í stjórn sambandsins.