Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að Íslandsstofa verði ekki undanskilin samkeppnis- og upplýsingalögum eins og upphaflega stóð til í lagafrumvarpi sem var ætlað að skýra rekstrarform stofnunarinnar betur.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að Íslandsstofa verði ekki undanskilin samkeppnis- og upplýsingalögum eins og upphaflega stóð til í lagafrumvarpi sem var ætlað að skýra rekstrarform stofnunarinnar betur. „Það var komið til móts við gagnrýni á þetta í utanríkismálanefndinni og gilda samkeppnislögin um stofnunina eins langt og það nær en þetta er auðvitað ekki samkeppnisrekstur,“ segir Guðlaugur.

Samkeppniseftirlitið sendi utanríkismálanefnd langa umsögn um frumvarpið þar sem það var meðal annars gagnrýnt að Íslandsstofa ætti að vera undanþegin samkeppnislögum. Tók Samkeppniseftirlitið fram að engan rökstuðning væri að finna fyrir nauðsyn þess að samkeppnislög giltu ekki um Íslandsstofu.

Ekki ríkisstofnun

„Þetta átti aldrei að verða ríkisstofnun en lögin, eins og þau voru, þóttu ekki nægjanlega skýr. Það var krafa um að skýra þetta betur og að öðrum kosti hefði forstjórinn verið settur á lista yfir forstöðumenn ríkisstofnana og þá væntanlega starfsmennirnir ríkisstarfsmenn. Það var aldrei hugmyndin með Íslandsstofu,“ segir Guðlaugur Þór.

Stofnuninni er með nýju lögunum breytt í sjálfseignarstofnun og er það gert fyrst og fremst til að skýra að hún sé rekin á einkaréttarlegum grunni. „Þetta er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda. Það er verið að skýra stöðu stofnunarinnar og líka verið að einfalda reksturinn þannig að það sé auðveldara að ná markmiðum. Í framhaldinu verður farið í vinnu við að koma með form sem hentar,“ segir Guðlaugur.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var flutningsmaður nefndarálits meirihluta utanríkismálanefndar í annarri umræðu frumvarpsins á Alþingi í gærkvöldi og er reiknað með að frumvarpið verði samþykkt í dag.