Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Grípa þarf til aðgerða til að koma í veg fyrir óeðlileg áhrif á kosningar þar sem stjórnmálasamtök, aðilar tengdir þeim eða aðilar sem draga taum tiltekinna stjórnmálaafla geta beitt sér með óprúttnum hætti án þess að kjósendur geti áttað sig á hver eigi í hlut eða varað sig á annarlegum hvötum og hagsmunum sem kunna að búa að baki.

Þetta kemur fram í niðurstöðukafla nýrrar skýrslu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningum til Alþingis. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, auk fleiri alþingismanna, óskaði eftir skýrslunni.

Í skýrslunni segir að engar vísbendingar séu um aðkomu erlendra aðila að kosningabaráttu hér á landi eins og gerst hefur í sumum öðrum ríkjum.

Síður hulduaðila ekki ólöglegar

Fram kemur að umræða um óeðlileg afskipti af lýðræðislegum kosningum hafi verið mikil erlendis undanfarin ár, ekki síst á samfélagsmiðlum. Í Bandaríkjunum standi t.a.m. yfir opinber rannsókn á aðkomu rússneskra aðila að forsetakosningum þar í landi árið 2016. Þar sé grunur um að erlendir aðilar hafi reynt að hafa áhrif á kosningar með því að dreifa falsfréttum eða magna upp fréttir.

Um aðkomu hulduaðila að kosningum hér á landi segir að borið hafi á nafnlausum auglýsingum á samfélagsmiðlum hér á landi sem beinst hafi gegn tilteknum stjórnmálaflokkum. Á Facebook hafi verið áberandi síðurnar Kosningar 2016 og Kosningar 2017 sem beint hafi spjótum að flokkum á vinstri væng stjórnmálanna og Kosningavaktin sem hafi rekið áróður gegn flokkum á hægri vængnum.

Ekki sé ljóst hver eða hverjir hafi staðið að baki þessum síðum.

Í skýrslunni segir að ekkert bendi til þess að umræddar herferðir hafi verið ólöglegar miðað við núgildandi lög á Íslandi og að baki rannsóknarheimildum lögreglu þyrfti að búa grunur eða kæra um refsivert brot.