[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sólinni hefur verið misskipt á landinu fyrstu 10 daga júní. Við Mývatn voru sólskinsstundirnar orðnar 118 – eða 11,8 á dag að meðaltali.

Sólinni hefur verið misskipt á landinu fyrstu 10 daga júní. Við Mývatn voru sólskinsstundirnar orðnar 118 – eða 11,8 á dag að meðaltali. Í Reykjavík mældust sólskinsstundir aðeins 23,0 og hafa aðeins fimm sinnum verið færri síðan byrjað var að mæla.

Þetta kemur fram í bloggi Trausta Jónssonar á Moggablogginu.

Meðalhiti fyrstu tíu daga júnímánaðar er 8,6 stig í Reykjavík, +0,1 stigi ofan meðallags sömu daga áranna 1961-1990, en -1,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 15. sæti sömu daga á öldinni.

Mun hlýrra hefur verið á Norður- og Austurlandi. Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu dagana 12,0 stig. Þetta er fjórða hlýjasta júníbyrjun þar frá 1936. Á Austurlandi eru dagarnir tíu einnig meðal þeirra hlýjustu sem vitað er um.

Miðað við síðustu tíu ár er jákvæða vikið mest á hálendinu norðaustanlands. Við Upptyppinga, Kárahnjúka og á Eyjabökkum er hitinn 6,5 stigum ofan meðallags.

Nú virðist talsverð breyting á veðurlagi vera að eiga sér stað og líklegt að saxist eitthvað á jákvæðu hitavikin norðanlands og austan næstu tíu dagana, segir Trausti.

Sigurðir Þór Guðjónsson veðursagnfræðingur er einnig á Moggablogginu. Hann bendir á að síðastliðinn föstudag hafi hiti einhvers staðar á landinu farið í 20 stig eða meira samfellt í 11 daga. Það er met í dagafjölda svo snemma sumars, a.m.k. frá stofnun Veðurstofunnar árið 1920. sisi@mbl.is