Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
Eftir Guðna Ágústsson: "Þessi stækkun Flugstöðvarinnar kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum, ekki síst þar sem dregið hefur úr fjölda ferðamanna."

Nú berast fréttir af því að 150 milljörðum skuli varið til að stækka Flugstöðina í Keflavík um þriðjung. Þá spyrjum við sem fylgjumst með daglegri umræðu um ferðamannastrauminn, er þetta rétt ákvörðun? Eru ekki mörg þyngri verkefni og ákvarðanir sem bíða úrlausnar stjórnvalda um þessar mundir? Ferðamennirnir komu eins og síldin forðum með alla vasa fulla af peningum og allt í einu varð ferðaþjónustan atvinnuvegur sem bjargaði efnahag landsins eftir hrun, þökk sé auglýsingamætti Eyjafjallajökuls og mögnuðu framsýnu fólki. Og ferðaþjónustan er nú stærsti gjaldeyrisaflandi atvinnuvegur landsins, stærri en sjávarútvegurinn.

Ísland var tiltölulega ódýrt ferðamannaland fyrst eftir hrun því krónan féll en nú er landið dýrt því krónan reis og rís enn. Og hefur líklega ofrisið og er ekki bara að rústa hinn nýja atvinnuveg heldur sverfur illa að sjávarútvegi og ekki síst iðnaðinum sem deyr eins og græðlingur á vondu vori. Landbúnaðarvörur eru verðlitlar í útflutningi og innflutningurinn þrengir mjög að innlendri framleiðslu.

Hvar liggja skilin á milli lífs og dauða þegar gengið er skoðað? Seðlabankinn má ekki sofa á verðinum þegar krónan rís og stýrivextir eru enn háir. Ljósið í myrkrinu er þó það að verðbólga er lág. Jafnvel hagfræðingarnir, sem voru blindir í Icesave, eru komnir með sjónina og segja að ofris krónunnar sé 12-15%, þar liggi lífsmörkin bæði hvað ferðaþjónustu og iðnað varðar og aðra útflutningatvinnuvega.

En Seðlabankinn stýrir beint í brimskaflinn í nafni ríkisstjórnarinnar sem færa mun mörgum gjaldþrot eða uppgjöf í atvinnurekstri og nýsköpun, haldi svo fram sem horfir. Og ferðaþjónustan haltrar og þeir ferðamenn sem mest gáfu af sér heltast úr lestinni.

Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni fær nýja von

Þessi stækkun Flugstöðvarinnar kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum, ekki síst þar sem dregið hefur úr fjölda ferðamanna og engin ákvörðun tekin um það brýnasta sem blasir við og allir sjá hvað þarf að gera sem varðar uppbyggingu innviðanna. Hvað með þjóðvegakerfið? Hvað með allt álagið og traðkið við núttúruperlurnar og ferðamannastaðina, já og klósettin svo náttúran sé ekki misnotuð sem slík. Hvað með öryggi ferðamannanna? Hvernig á að reka öll hótelin og ferðamannastaðina, ef krónan stöðvar framhaldið? Hvar eru komugjöldin sem talað hefur verið um í tíu ár?

Samgönguráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sýnir þó af sér kjark og ætlar að byggja upp Flugstöðina í Reykjavík hvað sem hinn endurreisti „flugvallarbani“, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, segir.

Á þeirri spýtu hlýtur að hanga að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni muni þjóna landinu öllu áfram. Þessi ákvörðun um stækkun Flugstöðvarinnar í Keflavík hinsvegar minnir á hjónin sem áttu von á mörgum gestum en þau réðust í það stórvirki að stækka forstofuna eina. Þetta gerðu þau þótt stofan, eldhúsið og allir innviðir heimilisins kölluðu á allt aðra ákvörðun.

Góð ríkisstjórn er í vanda stödd við svona aðstæður og ákvarðanir vinnuhjúa sinna í Isavía.

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.