Vilhjálmur Friðþjófsson fæddist á „Norðurpólnum“ á Akureyri 19. ágúst 1947. Hann lést á heimili sínu, Gullsmára 7 í Kópavogi, 26. maí 2018.

Foreldrar hans voru Friðþjófur Gunnlaugsson skipstjóri, f. 7.5. 1914, d. 8.5. 2008, og Steinunn Konráðsdóttir húsmóðir, f. 5.10. 1914, d. 21.10. 1988. Systkini Vilhjálms eru Vignir, f. 2.6. 1941, d. 21.4. 1997. Sigurður Anton, f. 4.8. 1942, d. 3.6. 1980. Gísli, f. 14.2. 1946, d. í júní sama ár. Steinunn Erla, f. 28.9. 1950. Hallveig, f. 19.3. 1955.

Vilhjálmur kvæntist 10.6. 1995 Herdísi Eyþórsdóttur, f. 7.8. 1950, en þau hófu sambúð í Reykjavík 1987.

Vilhjálmur ólst upp á Akureyri og lauk þar skyldunámi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hann vann við ýmis störf bæði til sjós og lands, var lengi sölumaður fyrir Samhjálp og „Fæði fyrir alla“ en lauk síðan námi sem vímuefnaráðgjafi og vann sem umsjónarmaður og ráðgjafi á Hlaðgerðarkoti og áfangaheimilinu á Miklubraut 20 frá 2004 og til 2011 er hann lét af störfum vegna heilsubrests.

Vilhjálmur var trúaður frá barnæsku, sótti sunnudagaskóla og var virkur í starfi æskulýðsfélags Akureyrarkirkju sem unglingur.

Í kringum 1982 kynntist hann starfi Hvítasunnusafnaðarins og tók skírn árið 1984.

Árið 2015 fluttust þau hjón í Gullsmára 7 í Kópavogi þar sem Vilhjálmur lést.

Útför Vilhjálms fer fram frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu í dag, 12. júní 2018, og hefst athöfnin kl. 13.

Í dag kveðjum við Villa móðurbróður okkar sem lést af slysförum fyrir stuttu. Villi var vel gefinn og víðlesinn. Hann vissi allt milli himins og jarðar eða svo fannst okkur.

Væntingar til hans voru örugglega miklar í æsku en ekki fara alltaf saman gæfa og gjörvuleiki. Ungur að árum villtist hann af beinu brautinni og náði ekki áttum fyrr en mörgum árum seinna. Honum tókst þó að snúa við blaðinu og hans gæfa var að kynnast Samhjálp, Hvítasunnusöfnuðinum og ekki síst henni Dísu sinni. Hann sagði að í raun hefði hann endurfæðst um fertugt.

Villi og Dísa voru í hamingjusömu hjónabandi, það leyndi sér ekki, þau voru mjög samrýnd og miklir vinir. Gátu þau nú alveg strítt hvort öðru en það var alltaf í góðu enda bæði húmoristar. Í sumarfríunum fóru þau oft akandi um landið og þekkti Villi hvert krummaskuð frá því í söluferðum fyrir Samhjálp. Alltaf var okkur Akureyringunum boðið uppá hangikjöt og ísblóm 19. ágúst, en þá voru þau iðulega stödd norðan heiða. Til Danmerkur fóru þau í tvær ógleymanlegar ferðir og alltaf stóð til að fara aftur í utanlandsferð en sjúkdómar settu strik í reikninginn svo ekkert varð úr því.

Alltaf var gott að kíkja í heimsókn og ófáum kleinum höfum við systkinin sporðrennt við eldhúsborðið og ófáum Bensunum höfum við klappað. Villi tók öllum vel, fór ekki í manngreinarálit og var ekkert að dæma aðra enda fannst okkur við alltaf velkomin. Hann var alltaf að fræða mann um eitthvað tengt sögu eða landafræði, verst hvað maður tók illa eftir. Hann átti líka ótrúlegan fjölda bóka sem hægt var að fletta upp í ef á þurfti að halda. Stundum horfðum við saman á leiki í sjónvarpinu, hann var ManUtd maður en samt var hann mest ÞÓRSARI. Akureyrarliðið Þór var hans lið og hélt hann með þeim í blíðu og stríðu. Við spjölluðum líka um ættfræði og var Villi stoltur af að bera nafn langafa síns. Hann var ekki eins sáttur við að hafa erft hárvöxtinn hans líka. Hann bætti sér upp hárleysið með því að láta sér vaxa myndarlegt yfirskegg. Við sögðum að hann minnti helst á þýska klámmyndastjörnu með þetta skegg en Villi hló nú bara að því, snéri uppá skeggið og sagði að sér fyndist það gefa sér heimspekilegt útlit.

Síðustu árin voru honum erfið. Heilsunni hrakaði og undir lokin fór hann lítið út úr húsi. Okkur fannst honum stundum líða eins og kálfinum, í laginu sem hann hélt svo mikið uppá, sem fjötraður er á vagni og horfir löngunaraugum eftir svölunni sem flýgur frjáls um loftin blá.

En nú er hann Villi okkar floginn á braut, frjáls eins og svalan. Við vitum að honum hefur verið vel fagnað af öllum ástvinunum sem farnir eru og ekki síst þeim ferfættu.

Elsku Dísa, missir þinn er mestur. Við vottum þér okkar dýpstu samúð og biðjum Guð að styðja þig og styrkja.

Blessuð sé minning þín, elsku Villi.

Stella, Daníel og Anton.

Ég var að versla í Nettó þegar hún Dísa hringdi í mig til að segja mér að hann Villi væri dáinn. Það var eins og tíminn stöðvaðist smástund. Þurfti tíma til að átta mig á þessu. Það eru margar minningar sem eru tengdar honum Villa. Við hittumst fyrst fyrir tæpum 40 árum þar sem við vorum á sjúkrahúsi að glíma við sameiginlegan óvin, Bakkus.

Nokkru síðar lágu leiðir okkar saman hjá Samhjálp, þar sem okkur auðnaðist að fóta okkur í tilverunni eftir margra ára ólgusjó, og þar urðum við nánir vinir og félagar og hélst sú vinátta alla tíð.. Villi var svona klettur, alltaf til taks, traustur og tryggur og eftir að hann og Dísa hófu búskap var ég alltaf velkominn í heimsókn. Var eiginlega heimagangur þar á tímabili.

Það er margs að minnast, og ekki rúm til að rifja það allt upp hér. Það væri hægt að fylla heila bók um alla skemmtilegu hlutina,og minna skemmtilegu hlutina sem við gengum saman í gegnum. Við ræddum oft hér áður að skrifa bók sem átti að heita „Fyrr var oft í Koti“, ætluðum að gefa hana út árið 2012, en þá var það ártal í órafjarlægð. Ef til vill er Villi að skrifa þessa bók á himnum, hann var allavega góður penni, bæði á laust og bundið mál. En einhvern veginn vinnur tíminn þannig að allflestar minningar verða skemmtilegar. Árið 1985 fórum við að ferðast um landið og selja bækur, Villi eignaðist bíl sem við skírðum Hannibal, óttaleg drusla, en á þessum farkosti ferðuðumst við um allt land. Í þessum ferðum gerðist margt skemmtilegt sem við rifjuðum oft upp og skemmtum okkur við minningarnar. Ég komst að því í þessum ferðum að sölumennska er ekki mín fjöl í lífinu, en Villi var sölumaður í þónokkur ár. Seinna fór hann að starfa aftur í Hlaðgerðarkoti sem umsjónarmaður, og seinustu árin á Miklubraut 20 þar til hann veiktist síðla árs 2011.

Ég vil með þessum línum sýna honum Villa þakklætisvott fyrir áratuga vináttu, og votta henni Dísu og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Kveðja,

Þórir, Björg og fjölskylda.

Vilhjálmur Friðþjófsson, eða Villi eins og ég þekkti hann, var vinur minn. Hann var lítt langskólagenginn, en þó ein mest menntaða manneskja, sem ég hef nokkru sinni hitt. Áhugamál Villa á þessum síðustu árum voru sérstaklega saga seinni heimstyrjaldarinnar, sem og stjórnmálasaga eftirstríðsáranna; sömu áhugamál og ég hef lengi haft. Heimsóknir til Villa og Dísu voru ógleymanlegar. Fyrst dásamlegasti íslenski maturinn sem fyrirfinnst: Dísa að elda uppáhaldsmatinn minn (saltkjöt með rófum, lamb og brún sósa, saltfiskur með hamsatólg) og svo komu fleiri klukkutíma samræður – já, og stundum deilur – um viðfangsefni þess dags. Ég lærði mikið af Villa, t.d. að skoða orsakir og afleiðingar stríðsins á Kóreuskaga frá sjónarhóli Kínverja frekar en frá hinum niðurnjörvaða vestræna hóli.

Virðing Villa fyrir staðreyndum var einfaldlega aðdáunarverð. En það var túlkun hans og greining á þessum sömu staðreyndum, sem gerðu Villa svo einstakan. Hann rannsakaði ekki aðeins báðar hliðar sama peningsins, heldur einnig hliðarröndina. Þessi opna nálgun á viðfangsefnum leiddi Villa oft til að draga ályktanir, sem voru á skjön við hefðbundnari niðurstöður. Dæmi: fyrir tæpum tveimur árum, þegar kosningabaráttan í Bandaríkjunum stóð sem hæst, lýsti Villi yfir mér algjörum og skilyrðislausum stuðningi við framboð Trumps. Rökfærsla Villa var hrein: „Clinton er órjúfanlegur hluthafi í valdakerfi yfirstéttarinnar; kerfi þar sem innvígðir gefa hver öðrum stuðning til að dafna og njóta. Með Clinton í fararbroddi eru engar breytingar fyrir óbreytta þegna mögulegar. Með Trump í stjórasætinu fáum við að sjá breytingar. Breytingar eru af hinu góða, því stöðnun er dauðadómur vinnandi manna.“

Ég kallaði Villa stundum „síðasta róttæklinginn í dalnum“. En í raun var Villi fyrst og fremst óþreytandi baráttumaður fyrir réttlátari skiptingu auðs veraldar; fyrir jafnrétti og bræðralagi fólksins; og gegn valdakerfi yfirstéttanna.

Nú er síðasti róttæklingurinn fluttur úr dalnum. Farðu í ferð þína í friði, vinur minn.

Magnús Ólafsson,

New York.

Það er aldrei auðvelt að kveðja fallinn vin. Aldrei auðvelt að finna rétt orð. Orð. Og það má reyndar spyrja, hvaða orð eru rétt orð? Vinátta er yfirleitt jákvætt orð. Táknar eitthvað gott. Oftast. Spekingar fyrri tíma hafa sett á bækur hugleiðingar sínar um vináttu. Greint hana og flokkað eftir rót hennar og markmiði.

Orðræður eru ekki alltaf lífgandi. Margar þeirra myrkva. Aðrar lífga og græða. Auka von í samfélagi manna og yl og geta verið upphaf vináttu. Sumar orðræður höfða til dýpri hugsunar. Mannskilnings og breyta fólki. Þegar slík orðræða vitjar fólks, karla og kvenna, þá er hagkvæm tíð. Og margir hefja sitt „Shemoth“ til betra lífs og æja á leiðinni í svala við „sjö vatnslindir og sjötíu pálma“.

Til er undursamleg orðræða. Ein þeirra er sú sem rituð er af Jóhannesi Sebedeussyni í Nýja testamentinu. Hún hefur markmið og hún gefur svör. Undursamleg er hún af því að hún umlykur fólk með mannelskandi anda. Græðandi anda sem býr í speki og visku aldanna. „Því að spekin er mannelskur andi.“ Spekin sem mótuð er með orðum. Og Orðinu. Orðinu sem kom „og bjó með oss“.

Orðræða Jóhannesar fjallar um umbreytingu á sál og anda manna. Þeirra sem taka vilja við henni. Umbreytingunni. Endurfæðingunni. Sú orðræða er háheilög. Hún fjallar um Jesúm Krist sem Orðið tók sér bólfestu í og gekk um og vék skýlunni frá leyndum dómum. Boðaði andlegt yfirfljótandi líf.

Vilhjálmur Friðþjófsson var einn af þeim sem tóku við þessu Orði. Hann tileinkaði sér það, þáði af græðandi smyrslum þess og ilmi. Á þeim slóðum hittumst við fyrir ótal mörgum árum síðan. Á vettvangi Orðsins. Þá var hagkvæm tíð. Við áttum margt saman að sælda á árunum þeim. Ánægjulegt samfélag. Svo kom Herdís Eyþórsdóttir inn í myndina og þau gáfust hvort öðru, Vilhjálmur og hún, og hafa saman tekist á við sætt og súrt eins og gengur í flestra lífi. En nú er hann fallinn frá. „Silfurþráðurinn slitnaður, moldin horfin til jarðarinnar og andinn til Guðs sem gaf hann.“

Við minnumst margra góðra daga og samverustunda með honum og Herdísi.

Vilhjálmur Friðþjófsson lést af slysförum 26. maí síðastliðinn. Í dag verður hann jarðsunginn frá Fíladelfíu í Reykjavík. Við kveðjum hann með þessum fátæklegu orðum sem engin vissa er fyrir að séu réttu orðin.

Vottum Herdísi Eyþórsdóttur, eiginkonu hans og öðrum aðstandendum einlæga samúð okkar.

Óli Ágústsson og

Ásta Jónsdóttir.