Kristín Þorkelsdóttir
Kristín Þorkelsdóttir
Eftir Kristínu Þorkelsdóttur: "Lítið tíst úr bjöllu eða flaut úr eigin munni kemur í veg fyrir að maður beygi í veg fyrir hjólið, sem getur hæglega gerst á hljóðlátri ferð þess."

Ég er talsvert á göngu með göngugrind og er nýlega komin á mjúkláta rafskutlu. Hjólafólk og gangandi nota sömu stíga og þurfa báðir að sýna tillitsemi. Undanfarið hefur mér oft brugðið illilega þegar hljóðlaust er hjólað fram úr mér.

Í fyrradag fóru yfir 20 hjólreiðamenn fram úr mér á litlum 20 mínútum þegar ég brá mér úr Kópavogi yfir á Arnarnes á yndislegum hjóla- og göngustíg meðfram Hafnarfjarðarvegi. Enginn þeirra gerði vart við sig með bjöllunni.

Ekkert er eðlilegra en að taka fram úr gangandi vegfaranda eða rafskutlu á gönguhraða. En að gera ekki viðvart er hættulegt fyrir báða aðila. Lítið tíst úr hjólabjöllunni eða smá flaut úr eigin munni kemur í veg fyrir að maður stígi til hliðar í veg fyrir hjólið, sem getur hæglega gerst því hjólreiðar eru svo dásamlega hljóðlátar og svífandi!

Kyrrðin á ekki við þegar tekið er framúr

Ég bið ykkur, frábæra hjólafólk, að gera vart við ykkur. Ég er sannfærð um að þetta er skilningsleysi sem auðvelt er að laga.

Mér finnst samgöngustofa hafa gert margt vel í umferðarfræðslu, Nú er hjóla- og göngutími sem er dásamlegur samgöngumáti og stórmerkilegt hvað margir stíga á bak þessum næstbesta vini mannsins, hjólhestinum: Hjólafólkið þarf á tillitssemi bílstjóranna að halda og við sem ferðumst um á gönguhraða á sömu stígum og þið á hjólunum þurfum á tillitssemi ykkar að halda!

Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.

Höfundur er grafískur hönnuður og myndlistamaður. kristin@gallery13.is