Áfram Ísland! Skiptar skoðanir eru um nýja HM-lagið.
Áfram Ísland! Skiptar skoðanir eru um nýja HM-lagið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Í útvarpinu heyrði ég lag. Þó ekki slagarann frá HLH-flokknum heldur nýja HM-lagið úr smiðju Þóris Úlfarssonar.

Í útvarpinu heyrði ég lag. Þó ekki slagarann frá HLH-flokknum heldur nýja HM-lagið úr smiðju Þóris Úlfarssonar. Í laginu þenja margir af ástsælustu söngvurum þjóðarinnar raddböndin en þar á meðal eru Jóhanna Guðrún og Stebbi og Eyvi svo einhverjir séu nefndir.

Eðlilega eru skiptar skoðanir um ágæti lagsins en sumum finnst það klisjukennt og á dögunum beindi Kristinn Hrafnsson blaðamaður því til fólks á Facebook að dreifa ekki þessum „vírus“.

Sitt sýnist hverjum en mér þykir lagið frábært. Þrátt fyrir að hafa lært á blokkflautu í æsku er það ekki sérfræðiþekking mín á tónlist sem ýtir undir skoðun mína heldur sú staðreynd að ég er stemningsmaður öðru fremur.

Ég er einn af þeim sem fullyrða að við vinnum Eurovision á hverju ári og það sama segi ég um heimsmeistaramót karla í knattspyrnu. Eftir að hafa hlustað á lagið er ég sannfærður um eitt, við erum að fara að vinna HM.

Sumir hafa ákveðið í aðdraganda mótsins að spila hlutverk raunsæismanna en við þá segi ég, eins og segir í texta lagsins:

Vilji er allt sem þarf,

Nú með næsta sparki

Náum settu marki.

Teitur Gissurarson