Handritshöfundar og leikstjórinn Guðmundur Björn Þorbjörnsson, t.v., skrifaði handritið ásamt leikstjóranum Hafsteini Gunnari Sigurðssyni. Síðasta áminningin fer í almennar sýningar með enskum texta.
Handritshöfundar og leikstjórinn Guðmundur Björn Þorbjörnsson, t.v., skrifaði handritið ásamt leikstjóranum Hafsteini Gunnari Sigurðssyni. Síðasta áminningin fer í almennar sýningar með enskum texta. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is Íslenski þjóðsöngurinn er útgangspunkturinn í rúmlega klukkutíma heimildarmynd, Síðasta áminningin - Sálmur um böl og blessun þjóðar í þúsund ár , sem frumsýnd verður í kvöld í Bíó Paradís.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Íslenski þjóðsöngurinn er útgangspunkturinn í rúmlega klukkutíma heimildarmynd, Síðasta áminningin - Sálmur um böl og blessun þjóðar í þúsund ár , sem frumsýnd verður í kvöld í Bíó Paradís. Leikstjórinn, Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, er jafnframt handritshöfundur ásamt Guðmundi Birni Þorbjörnssyni. Íslenska landsliðið í fótbolta og ævintýraleg velgengni þess er í brennidepli – en á öðrum nótum en alla jafna. Eins og alkunna er komst liðið á heimsmeistaramótið í Rússlandi þar sem það leikur sinn fyrsta leik gegn Argentínu á laugardaginn. Aldrei áður hefur lið frá jafn litlu landi og Ísland er keppt á HM og hefur saga liðsins vakið heimsathygli.

„Við skoðum samfélagið, sjálfsmynd og hugarfar Íslendinga út frá þeirri sögu og ræðum við leikmenn sem og þjóðþekkt fólk, sem sumt hefur ekki einu sinni áhuga á fótbolta,“ segir Hafsteinn Gunnar og bætir við þeir Guðmundur Björn hafi varpað mörgum hugmyndum á milli sín áður en pælingin um þjóðsönginn varð ofan á.

Öfgafullt áhlaup

„Ferlið er í rauninni búið að vera mjög íslenskt öfgafullt áhlaup frá því Sigurjón Sighvatsson framleiðandi hringdi í mig í janúar og stakk upp á gera heimildarmynd um íslenska fótboltaævintýrið. Hann var með hugmyndir um að einblína ekki endilega á fótboltann sem slíkan eða leikmenn heldur meira á samfélagið og þjóðareinkenni okkar. Þótt ég sé enginn sérfræðingur í fótbolta, kveikti ég strax á hugmyndinni. Ég var nýbúinn að hlusta á óhefðbundna íþróttaþætti, Markmannshanskarnir hans Alberts Camus, sem Guðmundur Björn var með á Rás 1 og fannst hann hljóma rétti maðurinn til verksins,“ segir Hafsteinn Gunnar og víkur því næst að hlutverki þjóðsöngsins, sem þeir félagar urðu ásáttir um að fjalla um í myndinni.

„Íslenski þjóðsöngurinn er frábrugðinn öðrum þjóðsöngvum. Hann er byggður á sálmi sem boðar að maðurinn sýni lítillæti og auðmýkt, á meðan aðrir þjóðsöngvar eru jafnvel stríðsmarsar þar sem menn eru hreinlega hvattir til að fara og drepa andstæðinga sína. Eða þeir eru ýkt þjóðernislög sem upphefja land og þjóð. Við fórum að velta fyrir okkur að hugsanlega væri þversögn í því að íslenski þjóðsöngurinn væri síðasta áminningin sem landsliðið fær áður en það stígur inn á völlinn og etur kappi við kannski miklu sterkara lið. Í rauninni er verið að segja leikmönnum að hafa sig hæga. Við veltum því upp hvort Íslendingar hefðu raunverulega nokkurn tímann hlustað á inntak söngsins. Okkur langaði líka að fá fram hvað leikmenn íslenska landsliðsins og aðrir þjóðþekktir viðmælendur hefðu að segja um litla þjóð sem virðist þrá að heimurinn taki eftir sér.“

Leikmenn og leikmenn

Viðmælendur þeirra félaga úr hópi landsliðsmanna eru Birkir Már Sævarsson, eini leikmaðurinn sem leikur á Íslandi, Jón Daði Böðvarsson, leikmaður Reading á Englandi, og Theódór Elmar Bjarnason sem leikur í Tyrklandi. „Allir þessir strákar hafa búið erlendis meirihlutann af sínum fullorðinsárum og eru því kannski með ákveðna og öðruvísi sýn á Ísland og íslenskt samfélag en heimamenn.“

Aðrir viðmælendur eru séra Kristján Valur Ingólfsson, Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur, Stefán Pálsson sagnfræðingur, Jón Kalman Stefánsson rithöfundur, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. „Þau hafa öll tjáð sig áður um íslenskt samfélag á opinberum vettvangi og haft ýmislegt til málanna að leggja,“ segir Hafsteinn Gunnar um valið á hópnum.

Auk þess sem handritshöfundar og viðmælendur í myndinni hugleiða inntak þjóðsöngsins, fjalla þeir um ímynd heimsins af Íslandi og velta upp hvort hún kunni að vera skökk. „Í erlendum fjölmiðlum lesum við oft að hér sé einhvers konar paradís, fyrirmyndarsamfélag, fullt jafnrétti, hrein orka og þar fram eftir götunum. En er það svo? spyrjum við. Fótbolti er hvati samræðnanna, sem stundum eru á mjög heimspekilegum nótum, án þess þó að vera yfirborðslegar og óskiljanlegar. Undirtitill myndarinnar, Sálmur um böl og blessun þjóðar í þúsund ár , vísar í hugleiðingar um hvort sá kraftur sem býr í þjóðinni og hefur oft komið okkur mjög langt, meðal annars á HM, geti líka komið okkur í vandræði eins og við sáum til dæmis í hruninu. Þótt trúin á eigið ágæti sé kannski reist á veikum grunni, getur hún verið okkar sterkasta vopn.“

Að sögn Hafsteins Gunnars ber líka á góma meinta minnimáttarkennd landans, sem geti birst mikilmennskubrjálæði. Í myndinni er vitnað í Milan Kundera sem sagði að smáþjóðir hefðu ríkari þörf en stórþjóðir til að láta vita af sér því þær ættu frekar á hættu að þurrkast út.

En Síðasta áminningin er þrátt fyrir allt í léttari kantinum, með fullt af skotum úr fótboltaleikjum, aðallega Evrópumótinu, og óvenjulegum vinklum á fótboltaíþróttina í myndum, tali og tónum.

Þótt Hafsteinn Gunnar segist aldrei vita hvað hann sé með í höndunum fyrr en á frumsýningu þegar hann situr í bíósal fullum af fólki, telur hann næsta víst að heimildarmyndin höfði bæði til fótboltaáhugafólks og þeirra sem engan áhuga hafa á fótbolta.