[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Reykjavíkurborg hefur samþykkt umsókn Höfðaíbúða um leyfi til að breyta skilgreiningu á 38 íbúðum á Höfðatorgi sem gististað í flokki II. Íbúðirnar eru í Bríetartúni 9-11.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Reykjavíkurborg hefur samþykkt umsókn Höfðaíbúða um leyfi til að breyta skilgreiningu á 38 íbúðum á Höfðatorgi sem gististað í flokki II. Íbúðirnar eru í Bríetartúni 9-11. Stefnt er að því að afhenda íbúðirnar í byrjun næsta árs.

Sagt var frá því í Morgunblaðinu í lok apríl að umhverfis- og skipulagsráð hefði synjað umsókn Höfðaíbúða um gistileyfin. Af því tilefni var rætt við Hjálmar Sveinsson, formann umhverfis- og skipulagsráðs. Taldi Hjálmar þá aðspurður ólíklegt að byggingarfulltrúi myndi snúa ákvörðuninni við. Það gerðist hins vegar.

Snúa að miðborginni

Bríetartún 9-11 er tvö sambyggð fjölbýlishús. Þar verða alls 94 íbúðir. Hótelíbúðirnar verða í vesturhluta hússins, sem snýr að miðborginni, á fyrstu átta hæðunum. Við hlið íbúðaturnsins er Fosshótelsturninn, stærsta hótel landsins. Þar eru 320 herbergi. Miðað við tvo í herbergi og þrjá gesti í hverri hótelíbúð munu húsin rúma um 740 næturgesti. Við það bætast um 180 gestir á 93 herbergjum á Hótel Stormi handan við götuna. Má segja að Höfðatorg sé að verða eitt helsta hótelsvæði landsins.

Félagið Höfðaíbúðir er tengt byggingarfélaginu Eykt, sem byggir upp Höfðatorg.

Ekki náðist í Hjálmar Sveinsson vegna málsins í gær.

Frá efstu hótelíbúðunum verður útsýni yfir Skuggahverfið. Þar er meðal annars áformað að reisa 17 hæða hótelturn á vegum Radisson RED. Þá er fjöldi hótela og gististaða í undirbúningi í næsta nágrenni. Til dæmis eru Holtin að festa sig í sessi sem gistihverfi.

Dæmi um umfangið er að umhverfis- og skipulagsráði hafa borist umsóknir um gistirými fyrir ríflega 1.900 gesti frá því í byrjun apríl. Miklu munar um 900 gesta hótel við flugvöllinn í Vatnsmýri, en það hefur lengi verið á undirbúningsstigi. Samþykkt gistirými á tímabilinu rúmar nærri 800 gesti.

Ásókn í Grensásveginn

Athygli vekur að félag með sama aðsetur og Gamma hefur sótt um leyfi fyrir gististað fyrir 74 gesti í tveimur húsum á Grensásvegi 8 og 10. Við hliðina, á Grensásvegi 12, er nú verið að innrétta íbúðir sem leigðar verða Reykjavíkurborg. Þá eru fjárfestar að breyta Grensásvegi 16a, gamla ASÍ-húsinu, í 80 herbergja hótel. Bendir þetta til að fjárfestar hafi trú á þessum borgarhluta. Hefur borgin áform um mikla þéttingu byggðar í Múlunum og Skeifunni. Með þeirri uppbyggingu er viðbúið að þjónustustigið muni hækka. Á Grensásvegi 1 hafa fjárfestar áformað að byggja eitt stærsta hótel landsins. Þau áform voru sett á ís.

Samhliða þessari þróun hefur borgin dregið úr endurnýjun gistileyfa á vissum reitum miðborgarinnar.