[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Önnu Bergljótu Thorarensen. Leikstjórn: Anna Bergljót Thorarensen. Lög: Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen og Rósa Ásgeirsdóttir. Söngtextar: Anna Bergljót Thorarensen, Baldur Ragnarsson og Stefán Benedikt Vilhelmsson.

Eftir Önnu Bergljótu Thorarensen. Leikstjórn: Anna Bergljót Thorarensen. Lög: Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen og Rósa Ásgeirsdóttir. Söngtextar: Anna Bergljót Thorarensen, Baldur Ragnarsson og Stefán Benedikt Vilhelmsson. Danshöfundur: Berglind Rafnsdóttir. Búningar: Kristína R. Berman. Leikmynd: Sigsteinn Sigurbergsson. Brúða: Andrea Ösp Karlsdóttir og Kristína R. Berman. Gosanef: Elín Sigríður Gísladóttir og Móeiður Helgadóttir. Leikarar á frumsýningu: Bergdís Júlía Jóhannsdóttir, Björn Thorarensen, Huld Óskarsdóttir, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir, en Anna Bergljót Thorarensen stekkur inn í ýmis hlutverk á sýningartímabilinu. Leikhópurinn Lotta frumsýndi í Elliðaárdalnum miðvikudaginn 23. maí 2018 og sýnir verkið um allt land í sumar.

Tólfta sumarið í röð leggur Leikhópurinn Lotta land undir fót og ferðast með nýja fjölskyldusýningu um landið þvert og endilangt, áhorfendum til ánægju og yndisauka. Aðall Lottu hefur verið að vinna með ævintýraarfinn á frumlegan hátt og í sýningu sumarsins birtast kunnuglegar persónur Ævintýraskógarins. Anna Bergljót Thorarensen teflir saman spýtustráknum Gosa, sem Carlo Collodi skapaði á árunum 1881-3 lesendum til viðvörunar en flestir þekkja sennilega úr Disney-teiknimyndinni frá 1940, og yngismeynni Rapunzel, sem birtist í safni Grimmsbræðra 1812 en á rætur að rekja allt aftur til Persíu 11. aldar. Yngri áhorfendur þekkja stúlkuna í turninum með síða hárið sennilega best sem Garðabrúðu úr Disney-teiknimyndinni Tangled frá 2010 en í meðförum Lottu er stúlkan nefnd Ósk. Límið milli Gosa og Óskar er hjónin ólánsömu sem í frásögn Grimmsbræðra fengu þrjár óskir sem þau sólunduðu og sátu á endanum aðeins eftir með eitt bjúga.

Anna Bergljót hefur á umliðnum árum sýnt að hún er lunkin í því að bræða saman ólíkar sögur og Gosi er þar engin undantekning. Snjallt er að gera Ósk (Bergdís Júlía Jóhannsdóttir) að dóttur Eddu (Huld Óskarsdóttir) og Jakobs (Sigsteinn Sigurbergsson), ólánsömu hjónanna, sem eiga sér þá ósk heitasta að eignast barn. Í upphafi verks kemur fram að þau hjónin hafi um árabil árangurslaust reynt að eignast barn, en sér til huggunar hefur Jakob smíðað spýtustrák sem hann nefnir Gosa. Dásamlegt var hversu fattlaus hjónin voru þegar vonda nornin (Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir) birtist og bauð þeim þrjár óskir í stað „kökunnar“ sem eiginkonan væri með í „ofninum“.

Í sýningunni er með snurðulausum hætti reglulega stokkið fram og aftur í tíma, frá komu Óskar í heiminn og fram að 10 ára afmæli hennar, en afmælið er vísun í áðurnefnda Disney-mynd. Ólíkt Rapunzel verður Ósk ekki ástfangin af fyrsta piltinum sem heimsækir hana heldur aðeins himinlifandi að fá í Gosa loksins leikfélaga, enda vistin í turninum einmanaleg fyrir lífsglaða og orkumikla stúlku.

Eftir að vonda nornin hefur hrifsað Ósk til sín birtist góða nornin (Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir) og reynir að lina sorg Jakobs með því að blása lífi í Gosa (Stefán Benedikt Vilhelmsson) og tjáir spýtustráknum að takist honum að þekkja muninn á réttu og röngu og velja alltaf að gera það rétta muni hún verðlauna hann með því að breyta honum í alvöru dreng. Í anda Disney-myndarinnar reynir hún að fá engisprettuna (Björn Thorarensen) til að verða samviska Gosa. Engisprettan afþakkar en býðst til að benda Gosa á villur síns vegar ef strákurinn villist mikið af leið, en til þess kemur þó aldrei í sýningunni.

Líkt og síðustu ár er umgjörðin öll til fyrirmyndar. Búningar Kristínu R. Berman gleðja augu í litadýrð sinni og vísa með skemmtilegum hætti í fyrrnefndar Disney-teiknimyndir hvort heldur er í gervum og búningum Gosa, Jakobs, engisprettunnar, Óskar eða nornarinnar. Að vanda er leikmynd Sigsteins Sigurbergssonar á tveimur hæðum, sem býður upp á góðar sjónlínur. Elín Sigríður Gísladóttir og Móeiður Helgadóttir fá hrós fyrir frábæra útfærslu á nefi Gosa, sem stækkar og minnkar eftir þörfum, og ekki síður skemmtilegt var þegar bjúgað festist á nef Eddu með töfrum. Eins og fyrri ár leikur tónlistin stórt hlutverk í sýningunni, en boðið er upp á tíu frumsamin og áheyrileg lög úr smiðju Baldurs Ragnarssonar, Björns og Rósu Ásgeirsdóttur við texta Önnu Bergljótar, Baldurs og Stefáns Benedikts. Annað sumarið í röð var notast við hátalarakerfið, en eitthvað var tæknin að stríða leikurum á frumsýningunni, sem vonandi næst að bæta fljótt úr.

Eftir margra ára reynslu af leik úti undir berum himni áttu leikarar undir leikstjórn Önnu Bergljótar auðvelt með að miðla framvindunni þannig að allt kæmist vel til skila til áhorfenda. Það átti einnig við um nýliðana tvo í hópnum, Bergdísi Júlíu sem túlkaði Ósk af góðu sakleysi og Thelmu Hrönn sem var skemmtileg sem ólíku nornirnar tvær.

Ákveðins vandræðagangs gætti hins vegar hjá krökkunum (Bergdís Júlía, Huld, Stefán Benedikt og Thelma Hrönn) í verkinu sem stríða fyrst Jakobi og síðan Gosa. Vel er skiljanlegt að krökkunum finnist Jakob skrýtinn, enda eigum við því ekki að venjast að eldri karlar gangi um með brúðu í fullri líkamsstærð og bregði fyrir sig búktali. Sennilega hefði farið betur á því að draga úr sérkennilegheitum Jakobs og undirstrika fremur sorg hans yfir barnleysinu. Umskiptin þegar krakkarnir fara að stríða Gosa þjóna auðvitað framvindunni, en komu eins og skrattinn úr sauðarleggnum og hefði þurft að undirbyggja betur.

Að vanda fá vondar persónur Ævintýraskógarins makleg málagjöld, en rýnir saknaði þess að gleðin fengi að ríkja fölskvalaus hjá góðum persónum verksins. Þannig var raunsæið sem birtist í umgengnissamkomulagi Eddu og Jakobs um dótturina og augljós særindi þeirra vegna sambúðarslitanna tíu árum fyrr ákveðið stílbrot í Ævintýraskóginum.

Á umliðnum árum hefur Leikhópurinn Lotta boðað leikhúsgestum á öllum aldri gleði, víðsýni, umburðarlyndi, kjark og kærleika. Í Gosa lærist titilpersónunni að fagna sérstöðu sinni og vera ánægður með sig eins og hann er, sem er mikilvægur lærdómur. Jafnframt er brýnt fyrir áhorfendum að faðmlag geti lagað næstum allt, m.a. látið nefið á Gosa minnka aftur eftir að lygar hans hafa stækkað það. Þrátt fyrir að sungið sé í lokalaginu, „Segjum nú satt“, um mikilvægi þess að segja satt svo nefið lengist ekki, læra ungir áhorfendur af því sem fyrir augu ber að lygar geta bjargað málum. Í laginu „Ljúgðu Gosi, ljúgðu“ gerir titilpersónan allt sem í hennar valdi stendur til að lengja nef sitt nógu mikið til að það geti nýst Ósk sem flóttaleið úr turninum. Þannig skapast ákveðin gjá milli orðs og æðis, sem huga hefði þurft betur að.

Silja Björk Huldudóttir

Höf.: Silja Björk Huldudóttir