Gluggaskipti Stefan er hér við vinnu á glugga á suðurhlið Kópavogskirkju. Gluggarnir verða sendir á verkstæði Oidtmann-fjölskyldunnar í Þýskalandi.
Gluggaskipti Stefan er hér við vinnu á glugga á suðurhlið Kópavogskirkju. Gluggarnir verða sendir á verkstæði Oidtmann-fjölskyldunnar í Þýskalandi. — Morgunblaðið/Hari
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Starfsmenn þýska fyrirtækisins Oidtmann byrjuðu í gær að taka niður steinda glugga Gerðar Helgadóttur í Kópavogskirkju. Gluggarnir verða sendir til viðgerðar á verkstæði Oidtmann í Linnich í Norður-Þýskalandi.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Starfsmenn þýska fyrirtækisins Oidtmann byrjuðu í gær að taka niður steinda glugga Gerðar Helgadóttur í Kópavogskirkju. Gluggarnir verða sendir til viðgerðar á verkstæði Oidtmann í Linnich í Norður-Þýskalandi. Listiðnaðarverkstæðið þýska gerði gluggana á sínum tíma eins og fleiri gluggalistaverk í íslenskum kirkjum. Stefan Oidtmann rekur nú fyrirtækið sem hefur verið í eigu fjölskyldu hans í rúm 160 ár.

„Faðir minn og frændi ráku fyrirtækið á undan mér og fengu fálkaorðuna fyrir frá forseta Íslands. Núna þegar þeir eru báðir fallnir frá þá rek ég fyrirtækið með Henry frænda mínum. Við erum fimmta kynslóð Oidtmann-fjölskyldunnar sem sér um rekstur fyrirtækisins en fyrirtækið fagnaði 160 ára afmæli á dögunum,“ segir Stefan Oidtmann sem er staddur hér á landi til að taka niður gluggana.

Gerður gisti hjá fjölskyldunni

Oidtmann segir fjölskyldu sína hafa þekkt Gerði Helgadóttur vel. „Fyrirtækið okkar gerði marga af gluggunum sem hún hannaði. Við erum enn í góðu sambandi við fjölskyldu hennar hér á Íslandi og í gegnum árin höfum við verið í viðhaldi og viðgerðum á verkum hennar. Hún bjó vanalega í húsi foreldra minna í Þýskalandi þegar hún var þar,“ segir Stefan og bætir við að fólk úr fjölskyldu Gerðar hafi komið við í Kópavogskirkju.

„Ég er í góðu sambandi við frænda hennar, Jón Snorrason. Hann hefur komið til Þýskalands og ég hef heimsótt hann nokkrum sinnum hér á Íslandi. Hann kom einmitt hingað í Kópavoginn til að sjá hvað við erum að gera við verk frænku hans,“ segir Stefan og hlær við.

Þrír starfsmenn, að Stefan meðtöldum, eru hér á landi frá þýska fyrirtækinu að sjá um viðgerðir á Kópavogskirkju. Stefan segir að unnið sé að því að fá betri ramma um gluggana og tryggja að þeir muni endast lengur. Fyrirtækið býr það vel í dag að hafa ýmsa þekkingu sem ekki var til staðar þegar gluggarnir voru upphaflega settir í. Hann segir að það skipti máli að þeir sem koma að verkum Gerðar þekki þau og að viðgerðir séu framkvæmdar með sama hætti og verkin voru upphaflega gerð, svo þau verði í nákvæmlega sama standi og áður.