Mark Glódís Perla Viggósdóttir skorar síðara mark sitt og íslenska landsliðsins gegn Slóveníu á Laugardalsvellinum í gærkvöld. Skalli niður í vinstra hornið eftir hornspyrnu.
Mark Glódís Perla Viggósdóttir skorar síðara mark sitt og íslenska landsliðsins gegn Slóveníu á Laugardalsvellinum í gærkvöld. Skalli niður í vinstra hornið eftir hornspyrnu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Kristján Jónsson kris@mbl.is Risaviðburður verður á dagskrá í íslensku íþróttalífi í september þegar Íslendingar leika hálfgerðan úrslitaleik gegn sigursælu liði Þýskalands um sæti í lokakeppni HM kvenna í knattspyrnu og efsta sæti í 5.

Í Laugardal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Risaviðburður verður á dagskrá í íslensku íþróttalífi í september þegar Íslendingar leika hálfgerðan úrslitaleik gegn sigursælu liði Þýskalands um sæti í lokakeppni HM kvenna í knattspyrnu og efsta sæti í 5. riðli undankeppninnar. Sú er orðin raunin eftir 2:0 sigur á Slóveníu á Laugardalsvelli í gær.

Þegar leikjaniðurröðun lá fyrir í riðlinum ræddu Freyr Alexandersson og leikmenn hans um þennan möguleika. Eftir stórkostlegan sigur í Þýskalandi í október var þessi möguleiki ekki svo fjarlægur. Á þessu ári hefur liðinu tekist að fara yfir þær hindranir sem fara þurfti yfir og hver veit nema íslenskir knattspyrnuunnendur fylli Laugardalsvöllinn í september í fyrsta skipti á kvennalandsleik. Ekki er hægt að finna betra tilefni til að þurrka út þá vandræðalegu sögulegu staðreynd.

Ný staða kom upp

Leikurinn í gær var ekki neitt listaverk út frá fagurfræði knattspyrnunnar. En íslensku landsliðskonunum tókst að halda í þolinmæðina og ná í mörkin sem þurfti til að brjóta þær slóvensku á bak aftur.

Liðið var án þeirra Söru Bjarkar Gunnarsdóttur og Dagnýjar Brynjarsdóttur en sú staða hefur ekki komið upp áður. Skiljanlega hafði það áhrif á sjálfstraustið í sóknaruppbyggingu liðsins enda um leikmenn að ræða sem orðið hafa meistarar í tveimur sterkustu deildunum.

Að loknum fyrri hálfleik hafði maður ekki of góða tilfinningu fyrir úrslitunum. Ísland hafði fengið fjölda hornspyrna og innkasta. Spyrnurnar voru ágætar hjá Hallberu og Selmu og innköst Sifjar stórhættuleg eins og áður. En nú vantaði bæði Söru og Dagnýju sem gjarnan skalla innköstin áfram. Hið skæða vopn íslenska liðsins var því bitlítið fyrir vikið.

Vel þegið framlag Glódísar

Í föstum leikatriðum var helst spurning um hvort Glódís gæti unnið skallaeinvígi þótt fleiri leikmenn geti vissulega verið grimmir í vítateignum. Okkar bjargtrausti miðvörður brá sér í hlutverk markaskorara þegar liðið þurfti mest á því að halda. Í fyrra skiptið eftir hágæða fyrirgjöf frá Hallberu og í síðara skiptið eftir hornspyrnu frá Selmu. Þessi mörk Glódísar voru einstaklega vel þegin því ekki gekk of vel að opna slóvensku vörnina. En úr gestunum var mestur vindur þegar þær lentu undir og slíkt höfum við séð áður hjá liðunum frá Balkanskaganum.

Glódís og Sif hafa átt virkilega góða undankeppni og á því varð ekki breyting í gær. Fyrir framan þær hefur Gunnhildur Yrsa iðulega verið öflug og ekki fer framhjá neinum hversu miklum framförum hún hefur tekið. Lukkudísirnar voru með Gunnhildi í gær því strax á 3. mínútu lét hún skynsemina lönd og leið. Fór í glæfralega tæklingu og samkvæmt reglunum hefði verið auðvelt að rökstyðja brottrekstur. Okkar kona slapp þó án þess að fá gult spjald.