Þegar einstaklingur með örorku- eða ellilífeyri er undir ákveðnu tekjumarki að teknu tilliti til greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og annarra tekna getur hann átt rétt á uppbót á lífeyri, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.

Þegar einstaklingur með örorku- eða ellilífeyri er undir ákveðnu tekjumarki að teknu tilliti til greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og annarra tekna getur hann átt rétt á uppbót á lífeyri, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Með því er komið til móts við þann kostnað sem viðkomandi einstaklingur ber og fæst ekki greiddur eða bættur með öðrum hætti. Það öfugsnúna er þó að þessi svonefnda uppbót á lífeyri myndar stofn til tekjuskatts samkvæmt lögum um tekjuskatt nr. 90/2003. Þannig er það óumdeilt að þessar uppbætur á lífeyri eru í flestum tilvikum algjör bjarnargreiði þeim sem þær þiggja, með tilheyrandi sköttum og skerðingum á skerðingar ofan.

Það er skemmst frá því að segja að nú hefur Flokkur fólksins lagt fram þingsályktunartillögu sem felur í sér að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt sem tryggi skattleysi uppbóta á lífeyri, enda flestir sammála um hversu óeðlilegt það sé að einstaklingar séu skattlagðir vegna greiðslna sem ætlað er að standa undir kostnaði þeirra vegna örorku, hreyfihömlunar eða sjúkdóma. Ráðherra er jafnframt falið að hafa samvinnu við félags- og jafnréttismálaráðherra til þess að tryggja að skattleysið leiði ekki til skerðinga á greiðslum almannatrygginga til þeirra sem eiga rétt á uppbótum á lífeyri.

Ég hef gjarnan kallað eftir samvinnu í þinginu, „tökum saman höndum hvar í flokki sem við stöndum“ hef ég marghrópað úr öflugasta ræðupúlti landsins. Nú er ljóst að við höfum unnið áfangasigur og að þverpólitísk samstaða hefur náðst um þetta réttlætismál Flokks fólksins. Baráttujaxlinn Guðmundur Ingi Kristinsson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar og með honum er gjörvallur Flokkur fólksins ásamt flutningsmönnum úr öllum flokkum á Alþingi. Ég get varla lýst þeirri gleði og eftirvæntingu sem hríslaðist um mig þegar fulltrúar flokkanna stigu í pontu Alþingis hver á fætur öðrum og óskuðu okkur til hamingju með málið okkar. Öllum bar saman um, að hér væri á ferðinni réttlætismál sem gleðilegt væri að fá að styðja og fylgja alla leið.

Nú er boltinn kominn til fjármála- og efnahagsráðherra og megum við vænta þess að hann komi fram með frumvarpið eigi síðar en 1. nóv. 2018.

Ég er þakklát öllum þeim sem lögðust á árar með Flokki fólksins svo að þetta sanngirnis- og réttlætismál megi ná fram að ganga.

Þau sýndu öll kærleika og velvild gagnvart þeim sem þurfa á hjálp okkar að halda. Þessi áfangasigur er því ómetanlegur og gerir þetta allt þess virði.

Ég trúi, að þetta sé fyrsta skrefið á þeirri vegferð Flokks fólksins að útrýma fátækt á Íslandi og að við munum gera það öll saman.

ingasaeland@althingi.is

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.

Höf.: Inga Sæland