Þorvaldur Magnússon fæddist á Bakkavelli í Hvolhreppi 12. ágúst 1958. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 5. júní 2018.

Hann var sonur hjónanna Magnúsar Gunnars Sigurjónssonar frá Bakkavelli í Hvolhreppi og Viktoríu Þorvaldsdóttur úr Reykjavík.

Systkini Þorvaldar: Margrét Magnúsdóttir, maki Einar B. Steinmóðsson, búsett á Selfossi, Sigurjón Magnússon, d. 1975, Vilhjálmur Magnússon, maki, Kristín Þ. Sigurðardóttir, búsett á Stokkseyri, Gunnar Magnússon, maki Guðrún R. Erlingsdóttir, búsett í Reykjavík, Bjarni Magnússon, búsettur á Stokkseyri, Signý Magnúsdóttir, maki Arnar Þór Diego, búsett í Danmörku.

Þorvaldur stundaði ýmis störf, s.s sjómennsku, fiskvinnslu, vann við virkjanir, í smíðavinnu, hann var einnig sem unglingur í sveit ásamt bræðrum sínum á Minna-Núpi í Gnúpverjahreppi.

Hann var í flugskóla, lærði undirstöðu í grafík og skiltagerð og stofnaði í framhaldinu Nýsýn, merkingar og skiltagerð og var Bjarni bróðir hans einnig með honum í því um tíma. Síðustu ár vann Þorvaldur hjá Nýþrif, auk þess að vera í skiltagerðinni og Gróðrarstöðinni Heiðarblómi, fyrirtæki Magnúsar og Viktoríu, hann vann einnig við gistiheimili fjölskyldunnar, Kvöldstjörnuna.

Útför Þorvaldar fer fram frá ríkissal Votta Jehóva í dag, 12. júní 2018, klukkan 13. Jarðsett verður í Stokkseyrarkirkjugarði.

Þorvaldur bróðir minn er látinn.

Það er þyngra en tárum taki að kveðja bróður í annað sinn, en Sigurjón bróðir okkar lést aðeins tæplega átján ára í skelfilegu slysi, missir föður míns er mikill.

Við systkinin urðum sjö, öll nema Signý slitu barnsskónum á Bakkavelli í Hvolhreppi.

Það var oft líf og fjör í Vallarkróknum enda margir krakkar á hverjum bæ og reyndum við að hittast við hvert tækifæri.

Í minningunni heyri ég hlátrasköllin rjúfa kyrrðina, allir sem mögulega geta eru úti að leika sér á kvöldin. Tveir bræður eru sjaldan langt hvor frá öðrum, það eru þeir Þorvaldur og Sigurjón, þeir eru eins ólíkir og hugsast getur, annar er glókollur en hinn er dökkur á brún og brá, þeir eru einnig ólíkir á margan annan hátt, Þorvaldur sallarólegur en Sigurjón uppátækjasamur ærslabelgur. Foreldrar okkar gáfu okkur nokkuð frjálsar hendur og við máttum leika okkur úti að vild. Ég er elst í systkinahópnum og það kom oft í minn hlut að gæta bræðra minna, sérstaklega eftir að pabbi fór að reka verslun á Hvolsvelli, þá var mamma oft að aðstoða hann þar. Árin liðu og alltaf var hópurinn samheldinn í Vallarkróknum. Í skólanum á Hvolsvelli gerðu bræður mínir og Sigurður á Velli mikinn usla fyrsta skóladaginn eitt sinn er þeir ákváðu að elta stelpurnar í frímínútunum og kyssa þær, þetta var fyrsti skóladagur Þorvaldar og fannst honum þetta að vonum mjög spennandi leikur. Þegar inn var komið talaði Trúmann yfir hausamótum drengjanna og sagði þeim að svona kæmu þeir ekki fram við dömur og urðu þeir heldur lúpulegir og ekki var þessi leikur endurtekinn.

Þorvaldur bróðir var mikill hugsuður, öll stærðfræði heillaði hann, einnig stjörnufræði og var hann félagi í stjörnuskoðunarfélagi, hann var afar handlaginn og góður teiknari og það nýttist honum vel er hann vann við grafíska hönnun í eigin fyrirtæki um árabil. Hann hafði áhuga á flugi og var í flugskóla í Keflavík, hann lagði samt flugið aldrei fyrir sig. Á unglingsárum hans fluttu foreldrar okkar til Reykjavíkur og síðar á Stokkseyri. Þorvaldur gekk þá í skóla á Selfossi. Hann var á sjó um tíma, í frystihúsinu, og við virkjanir á Tungnársvæðinu, í byggingarvinnu ásamt Gunnari bróður í Reykjavík, vann við gróðrarstöðina Heiðarblóma, rak um árabil fyrirtækið Nýsýn og á einkarétt á því nafni.

Þorvaldur bróðir var rólegur og ljúfur að eðlisfari, hann hafði góðan húmor og mun ég minnast hlátursins og orðaleikjanna sem hann var svo snjall í, hann samdi lög og ljóð og spilaði á gítar og úkúlele.

Þorvaldur hafði marga öfundsverða eiginleika, t.d. þegar allt var á fullu, allir samankomnir til garðvinnu og alls kyns verka þá fannst honum allt of mikill asi á fólki, hann fór inn og í stuttbuxurnar því sólin skein glatt, kom út með einn kaldan, dró sólstólinn á rólegan stað og naut sólarinnar, það var aldrei að vita hvenær hún léti sjá sig aftur. Að leiðarlokum þakka ég mínum elskulega bróður fyrir samfylgdina. Ég mun sakna þess að koma inn úr rigningunni og rokinu og setjast við kaffiborðið þitt í Hátúni, hlaðið af kræsingum, og segja:

Hvað, það er bara veisla? og þú svarar: Hér er alltaf veisla. En nú er veislunni lokið, elsku bróðir minn, þú ert horfinn okkur um sinn. Það einkenndi þig að þú tókst alltaf fagnandi á móti fólkinu í lífi þínu og áttir alltaf til bros og knús, þess mun ég ávallt minnast. Sofðu rótt.

Þín systir,

Margrét Magnúsdóttir.