Demoncrazy Konurnar gengu berbrjósta frá Alþingishúsinu.
Demoncrazy Konurnar gengu berbrjósta frá Alþingishúsinu. — Morgunblaði/Arnþór
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur sent fyrirspurn til forseta Alþingis vegna gjörnings á Listahátíð í Reykjavík, þar sem berbrjósta konur gengu frá Alþingishúsinu að Listasafni Íslands.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur sent fyrirspurn til forseta Alþingis vegna gjörnings á Listahátíð í Reykjavík, þar sem berbrjósta konur gengu frá Alþingishúsinu að Listasafni Íslands. Einnig voru teknar myndir af konunum berbrjósta inni í þinghúsinu. Sigmundur spyr meðal annars hver hafi veitt leyfi fyrir því „að hálfnakið fólk nýtti Alþingishúsið í auglýsingaskyni og gengi þaðan á sama hátt og forseti Íslands og þingmenn gera við þingsetningu?“ og hvort forseti þingsins telji slíka notkun á þinghúsinu og þinghefðum til þess fallna að auka virðingu Alþingis. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, vildi ekki gefa upp hvernig atvikið kom til þegar Morgunblaðið hafði samband í gærkvöldi. „Ég ætla bara að svara fyrirspurninni, ég tek það alvarlega þegar lögð er fram svona fyrirspurn og henni er beint að mér. Maður á að sýna því þá virðingu að vinna bara sitt svar og ég ætla ekkert að tjá mig um málið.“ Spurður hvort það náist fyrir þinglok segir hann að það ætti að vera hægt en annars kemur svarið á vef Alþingis.