Nýbúi Toppagullmölur tekur sig vel út á grænu laufblaðinu, en landneminn er eitt smávaxnasta fiðrildi sem finnst hér á landi. Hann er gott dæmi um smádýr sem borist hefur til landsins með innfluttum plöntum.
Nýbúi Toppagullmölur tekur sig vel út á grænu laufblaðinu, en landneminn er eitt smávaxnasta fiðrildi sem finnst hér á landi. Hann er gott dæmi um smádýr sem borist hefur til landsins með innfluttum plöntum. — Ljósmynd/Erling Ólafsson
Fyrir fáeinum dögum barst Náttúrufræðistofnun Íslands ábending um agnarsmátt fiðrildi frá athugulum áhugamanni. Hann var að skoða sig um í trjásafninu í Meltungu í Kópavogi og rakst þar á fiðrildin á surtartoppi.

Fyrir fáeinum dögum barst Náttúrufræðistofnun Íslands ábending um agnarsmátt fiðrildi frá athugulum áhugamanni. Hann var að skoða sig um í trjásafninu í Meltungu í Kópavogi og rakst þar á fiðrildin á surtartoppi. Skordýrafræðingar stofnunarinnar ruku til og sáu nokkuð af fiðrildunum bæði á surtartoppinum og blátoppi. Við nánari athugun kom í ljós að um var að ræða nýja tegund sem kallast á fræðimáli því óþjála heiti Phyllonorycter emberizaepenellus .

Þannig segir á vef Náttúrufræðistofnunar frá fundi á nýju fiðrildi, en tegundin er af ætt gullmala og fékk heitið toppagullmölur þar sem hún lifir á toppum. Tegundin nær norður í miðbik Skandinavíu og á því ágætan möguleika á að lifa af hér en eingöngu þó í görðum vegna sérhæfni á vali fæðuplantna.

Landnámsgluggi opnast

„Smádýr hafa alla tíð borist til landsins með hvers kyns varningi. Fæst hafa þó náð hér varanlegri fótfestu en með hagstæðara veðurfari opnast ýmsum þeirra landnámsgluggi. Ýmis smádýr hafa fundið afdrep í húsum okkar og þeim fer fjölgandi sem setjast að í umhverfi okkar utanhúss, einkum í húsagörðum og almenningsgörðum. Margar tegundanna eru sérhæfðar, lifa eingöngu á ákveðnum tegundum garðplantna og eiga því ekki möguleika á að færa sig út í náttúru landsins. Aðrar eygja hins vegar möguleika á að færa út kvíar.

Í mörgum tilfellum þykir nokkuð sjálfgefið að nýja landnema, sem leggjast á garðplöntur, megi rekja til óvarlegs innflutnings á plöntum og jarðvegi. Á undanförnum árum hafa ýmsir nýir skaðvaldar, líkast til þannig til komnir, skotið upp kollum í görðum okkar, sumir nú þegar illa þokkaðir,“ segir á vef Náttúrufræðistofnunar.

Nánari upplýsingar um toppagullmöl má lesa á Pödduvefnum og þar er einnig að finna upplýsingar um annað áhugavert smáfiðrildi af svipuðum toga. Það er birkiglitmölur af ætt glitmala en hann leggst á karlrekla birkis og alar. aij@mbl.is