Ísfélag Vestmannaeyja Um 11 milljóna dala sveifla var í gengismun á milli ára.
Ísfélag Vestmannaeyja Um 11 milljóna dala sveifla var í gengismun á milli ára. — Morgunblaðið/Ófeigur
Hagnaður samstæðu Ísfélags Vestmannaeyja á síðasta ári var 4,2 milljónir bandaríkjadala, jafngildi um 446 milljóna króna á núverandi gengi. Til samanburðar var hagnaður félagsins 20,9 milljónir dala árið 2016.

Hagnaður samstæðu Ísfélags Vestmannaeyja á síðasta ári var 4,2 milljónir bandaríkjadala, jafngildi um 446 milljóna króna á núverandi gengi. Til samanburðar var hagnaður félagsins 20,9 milljónir dala árið 2016.

Rekstrartekjur námu 103,6 milljónum dala og drógust saman um 5,3 milljónir dala á milli ára. Á sama tíma jukust rekstrargjöld um 4,6 milljónir dala og námu þau 77,8 milljónum dala á síðasta ári.

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta nam 25,8 milljónum bandaríkjadala. EBITDA-framlegð var 24,9% á síðasta ári, en til samanburðar var hún 32,7% á árinu 2016.

Gengismunur var neikvæður um tæpar 9 milljónir dala á síðasta ári, en hann var jákvæður um liðlega 2 milljónir árið á undan. Heildareignir Ísfélags Vestmannaeyja námu 293 milljónum dala í lok síðasta árs. Eigið fé nam 139 milljónum dala, jafngildi um 14,7 milljarða króna á núverandi gengi. Eiginfjárhlutfall var 47,7% um áramótin og var nær óbreytt frá ármótunum þar á undan.