Þrjú íslensk uppsjávarskip voru í gær á kolmunnaveiðum, Guðrún Þorkelsdóttir frá Eskifirði var í færeyskri lögsögu og Grandaskipin Venus og Víkingur við lögsögumörk suðaustur af landinu.

Þrjú íslensk uppsjávarskip voru í gær á kolmunnaveiðum, Guðrún Þorkelsdóttir frá Eskifirði var í færeyskri lögsögu og Grandaskipin Venus og Víkingur við lögsögumörk suðaustur af landinu. Kolmunnaskipin héldu til veiða eftir sjómannadagshelgina en árangurinn varð lítill og undir lok vikunnar komu flest þeirra til hafnar.

Í Neskaupstað lágu í gær Börkur NK, Beitir NK, Margrét EA, Bjarni Ólafsson AK og grænlenska skipið Polar Amaroq. Skipin munu hafa leitað í Rósagarðinum en afar lítið fundið og því þótti ráðlegast að gera hlé á veiðunum, segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Polar Amaroq landaði slatta af kolmunna í Neskaupstað á laugardag og er verið að undirbúa skipið til veiða á makríl og síld í grænlenskri lögsögu.

„Við gerum ráð fyrir að halda til veiða upp úr 20. júní. Við munum partrolla með Polar Princess eins og við höfum gert þrjú síðustu sumur. Í fyrra fengum við tæplega 15.000 tonn af makríl og síld. Ég geri ráð fyrir að við byrjum á að veiða makríl því síldin er seinna á ferðinni vegna hafíss og sjávarkulda,“ er haft eftir Geir Zoëga skipstjóra á heimasíðu Síldarvinnslunnar. aij@mbl.is