Jón Þorkels Eggertsson fæddist í Ásbyrgi í Garði þann 29. september 1945. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlévangi í Keflavík þann 26. maí 2018.

Foreldrar hans voru Eggert Jónsson frá Kothúsum í Garði, f. 29.5. 1921, d. 8.9. 2005, og kona hans Guðrún Jónsdóttir frá Keflavík, f. 12.7. 1924, d. 2.7. 2016. Systkini Jóns eru Þorsteinn, f. 25.2. 1942, Guðfinna Jóna, f. 21.9. 1944, og Guðrún, f. 27.4. 1961.

Hinn 15.11. 1970 kvæntist Jón Hólmfríði Guðmundsdóttur, húsmæðrakennara frá Klauf í Eyjafirði, f. 15.10. 1946. Foreldrar Hólmfríðar voru Guðmundur Kristján Sigurgeirsson, f. 30.3. 1918, d. 28.12. 1996, og kona hans Ingibjörg Jóhannsdóttir, f. 30.9. 1916, d. 2.11. 2012. Jón og Hólmfríður eignuðust þrjá syni: 1) Eggert, f. 15.11. 1969, kvæntur Unu Hafdísi Hauksdóttur, f. 21.1. 1975. Þau eiga soninn Andra Má, f. 1998. Eggert á soninn Sebastian Jon Sonberg, f. 1997. 2) Ingimund, f. 29.9. 1979. Hann á börnin Aðalgeir, f. 2004, og Erlu, f. 2009, með Þórhöllu Pálsdóttur Snædal, f. 27.1. 1975. 3) Aðalgeir, f. 3.4. 1982, í sambúð með Þóru Lilju Ragnarsdóttur, f. 11.7. 1988. Þau eiga dótturina Klöru, f. 2015.

Jón ólst upp í Ásbyrgi í Garði til 12 ára aldurs, þegar fjölskyldan flutti til Keflavíkur. Hann gekk í Barnaskóla Gerðahrepps og í Gagnfræðaskólann í Keflavík. Hann byrjaði að vinna við netagerð hjá Jóni Eyjólfssyni afa sínum 1958-1961, vann á Netaverkstæði Suðurnesja 1962-1964 og lærði netagerð hjá Þorvaldi Guðjónssyni á Akureyri 1964-1967. Hann var í Iðnskólanum í Keflavík 1963-65 og Iðnskólanum á Akureyri 1966. Jón tók sveinspróf í iðninni árið 1967 og fékk meistarabréf útgefið 6.2. 1970. Hann vann í Nótastöðinni Odda á Akureyri 1964-67 og Fiskernes Redskabsfabrikken í Noregi árið 1967. Jón stofnaði eigið fyrirtæki, Netanaust, árið 1970 og starfaði síðar með Árna Gíslasyni frænda sínum í Reykjavík og hóf umboðssölu með nótaefni í samstarfi við Mørenot í Noregi.

Jón söng lengi með Karlakór Keflavíkur og starfaði með Junior Chamber á sínum yngri árum.

Jón verður jarðsunginn frá Keflavíkurkirkju í dag, 12. júní 2018, og hefst athöfnin kl. 13.

Við Nonni bróðir göntuðumst stundum með það að annar okkar hefði það sem hinn vantaði og öfugt.

Ég var fluttur út í Garð, og hafði eignast þar litla systur þegar frænka mín, Elínrós ljósmóðir, kom einn daginn með stóru töskuna sína. Hún fór inn í svefnherbergi til mömmu meðan barnapía passaði mig og systur mína í stofunni. Tíminn leið og þá heyrðum við barnagrát. Við þutum öll inn í svefnherbergið og þar var þá Nonni bróðir nýfæddur; fallegur strákur með stór blá augu. Mér var sagt að ljósmóðirin hefði komið með hann í stóru töskunni sinni. Ég var rúmlega þriggja og hálfs árs og þetta er ein skýrasta minning mín úr frumbernsku.

Þegar Nonni var orðinn sjö, átta ára var hann strax farinn að þróa með sér töluvert viðskiptavit. Kindur gengu lausar um allt þorpið og einn daginn tók hann sig til að rak þær að nærliggjandi gaddvírsgirðingum. Þær hlupu á girðingarnar og skildu þar eftir ullartægjur. Nonni safnaði tægjunum saman í poka sem hann fór með í kaupfélagið í Keflavík og seldi kaupfélagsstjóranum. Árin liðu og Nonni fór að vinna á netaverkstæði afa okkar. Seinna lærði hann iðngreinina, meðal annars í Noregi og á Akureyri, þar sem hann kynntist tilvonandi eiginkonu sinni, Hólmfríði Guðmundsdóttur. Þau fluttu til Keflavíkur og eignuðust þrjá myndarlega syni; Eggert, Ingimund og Aðalgeir. Seinna færði Nonni út kvíarnar og fór að flytja inn veiðarfæri frá Noregi. Enn síðar fór hann út í fasteignaviðskipti og eignaðist ættaróðul okkar í Garðinum, ásamt fleiri húsum víða annars staðar. Hann var smekkmaður og fagurkeri og kunni best við sig á Suðurnesjum. Þegar hann átti leið um Reykjavík heimsótti hann mig alltaf og bauð mér út að borða, enda var hann rausnarlegur í þokkabót.

Bróðir minn, Jón Þorkels Eggertsson, var átthagatryggur sjálfstæðismaður meðan ég var alþjóðakrati. En við vorum samt nánir og létum pólitíkina ekki komast upp á milli okkar. Hann var í rauninni mikilmenni sem lét lítið fyrir sér fara.

Blessuð sé minning hans.

Þorsteinn Eggertsson

Nokkur minningarorð um Jón bróður minn.

Hann var þriðji í röðinni af okkur fjórum systkinum og var skírður Jón Þorkels í höfuðið á Jóni Þorkelssyni afa okkar. Hann var kallaður Nonni og ætla ég að halda mig við það hér. Snemma kom í ljós hversu duglegur hann var að bjarga sér, eins og til dæmis þegar hann rak kindur undir gaddavírsgirðingar og hirti af þeim ullina sem varð eftir á girðingunum, fór með hana til Gunnars kaupfélagsstjóra í Keflavík og fékk pening fyrir. Mig grunar að Gunnar hafi af góðmennsku sinni keypt ullina af drengnum.

Ég vil minnast allra góðu stundanna með honum. Við ólumst upp í litlu sjávarþorpi (Garði) þar sem smábúskapur var á mörgum bæjum. Þannig kynntumst við bæði sjávar- og sveitavinnu. Við áttum okkar eigið bú „niðri á Klöppum“ sem var rétt fyrir neðan heimili okkar. Þar dunduðum við okkur við að fletja og breiða loðnu, sem við fengum af bílum sem voru að flytja hana til vinnslu í Keflavík.

Þarna vorum við líka með hlóðir sem Nonni hafði útbúið og elduðum við hundasúrurúgmjölsgraut í ryðguðum niðursuðudollum þar og borðuðum með bestu lyst og varð ekki meint af. Sennilega var það þarna sem við ákváðum að við ætluðum að verða bóndi og bóndakona og búa alltaf saman.

Hann var alla tíð mjög duglegur, traustur og ósérhlífinn. Hann var líka barngóður, þess fengu börnin mín og barnabörn að njóta og auðvitað líka börnin hans og barnabörn.

Á fullorðinsárum ferðuðumst við smávegis saman um Noreg. Þegar ég kom til Noregs var hann búinn að vera þar í nokkra mánuði að kynna sér netagerð í Finnsnes í Norður-Noregi, en hann lærði netagerð í nótastöðinni Odda á Akureyri. Netaáhugann fékk hann örugglega frá afa okkar Jóni Eyjólfssyni. Við áttum ógleymanlegar stundir saman í Noregi þar sem við þvældumst um, gistum á farfuglaheimilum. Þarna kom vel í ljós hve fljótur hann var alltaf að átta sig á staðháttum, var ætíð mjög ratvís.

Þegar maðurinn minn Sigvaldi og Kári vinur hans stofnuðu skipamiðlunarfyrirtækið Gáru hliðraði Nonni til í sínu fyrirtæki, Netanausti, til að gera aðstöðu fyrir þetta nýstofnaða fyrirtæki. Þarna má segja að Gára hafi slitið barnsskónum. Þetta þótti honum alveg sjálfsagt að gera, enda alltaf tilbúinn að rétta vinum sínum hjálparhönd. Fyrir þetta er ég mjög þakklát.

Hann hafði alltaf mjög sterkar taugar til æskustöðvanna og var alls ekki sáttur þegar við fluttum til Keflavíkur þegar hann var 12 ára, enda var frjálsræðið ekki eins mikið og í Garðinum.

Til að hafa sér einhvern vettvang í Garðinum keypti hann Kothúsajörðina þegar hann átti kost á því og seinna ættaróðalið Kothús, sem langafi okkar byggði og afi okkar og amma bjuggu í.

Árin liðu og hann keypti líka Ásbyrgi, húsið sem pabbi byggði og var okkar æskuheimili.

Ég kveð elsku bróður minn og geymi allar góðu minningarnar um hann og sendi elsku Hólmfríði, mágkonu minni, sonunum, tengdadætrunum og barnabörnunum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðfinna Jóna Eggertsdóttir (Minný).

Hann var alltaf góður við mig, litlu systur sína sem tók af honum þá stöðu að vera yngsta barnið í fjölskyldunni, þegar hann var tæplega sextán ára. Ekki var ég há í loftinu þegar hann fór að leggja áherslu á það við mig að gera allt vel sem ég ætlaði að taka mér fyrir hendur. Vandvirknin var eitt af einkennum hans og hann vildi hafa fallegt í kringum sig.

Mínar fyrstu minningar eru af því þegar bræður mínir spiluðu tónlist af 45 snúninga plötum og sungu hástöfum með, oftar en ekki voru það Bítlarnir, „She Loves You“ eða Þorvaldur, „Á sjó“.

Mikill ákafi og dugnaður voru líka einkenni á Nonna bróður. Hann lærði netagerð bæði í Keflavík og norður á Akureyri og varð netagerðarmeistari. Frá Akureyri fór hann til Noregs til að vinna við netagerð. Hann kom heim frá Noregi og stofnaði eigið fyrirtæki, Netanaust.

Á þorskvertíð á vorin var svo mikið að gera við að fella net, að þegar húðin á fingrum Nonna eyddist upp, „teipaði“ hann fingurna, til að geta haldið áfram að vinna. Mína fyrstu launuðu vinnu fékk ég hjá Nonna og var ekki há í loftinu þegar ég fékk það hlutverk að setja upp á pípur. Það voru góðar stundir og oft gekk mikið á, á netaverkstæðinu. Seinna þegar hann var kominn með fyrirtækið til Reykjavíkur og í samstarf við Mørenot um innflutning á nótaefni, fékk ég vinnu hjá honum með námi.

Hann kom að norðan á svörtum og hvítum Bronco með hvíta lista í kringum felgurnar. Mér er minnisstæður gleðisvipurinn inn á honum, þegar hann sýndi okkur fína bílinn.

Hann krækti sér í fleira fyrir norðan en þangað sótti hann eiginkonuna, hana Hólmfríði mágkonu mína. Þau eignuðust þrjá syni, þá Eggert, Ingimund og Aðalgeir. Hólmfríður kom með frumburðinn, Eggert til Keflavíkur árið 1970 en þá var Nonni búinn að kaupa og innrétta íbúð af mikilli hugvitssemi og natni.

Hvað ég öfundaði systkini mín af öllum sögunum af uppvexti þeirra í Garðinum og uppátækjunum, mér fannst eins og þau hefðu lifað í ævintýri. Ásbyrgi í Garði var selt og fjölskyldan flutti búferlum til Keflavíkur og ég fæddist þar nokkrum árum síðar. Sléttum 40 árum eftir flutninginn kom Ásbyrgi í sölu og Nonni festi kaup á því og gerði það upp.

Dýravinur var hann og átti fugla í búrum í kjallaranum heima í Háholti þegar ég var lítil. Einhverju sinni komust mýs inn í Netanaust en þeim var ekki fargað, heldur komið fyrir í stærðarinnar sultukrukku og gerð göt á lokið, svo þær myndu nú ekki kafna. Hann hafði með sér kött á sjóinn og átti lengst af einhver dýr, ýmist kött eða hund.

Margs er að minnast og ekki síst þess hve vel þau hjónin tóku á móti litlu systur og mágkonu, hvort sem það var á heimilinu í Keflavík eða í sumarbústaðnum í Biskupstungum. Þá var ekki leiðinlegt að keyra um sveitir landsins með Nonna og spjalla um lífið og tilveruna.

Veikindi Nonna hinn síðari ár urðu til þess að þessi fjörugi og lífsglaði bróðir minn hvarf okkur sjónum smátt og smátt. Ég votta mágkonu minni, bróðursonum og þeirra fjölskyldum mína dýpstu samúð. Minningin um góðan dreng lifir.

Guðrún Eggertsdóttir (Gunna).

Árið sem Jón mágur minn kom inn í fjölskylduna varð ég tíu ára. Þau systir mín stofnuðu heimili í Keflavík og ég sá þau og Eggert son þeirra sjaldnar en ég hefði kosið því ferðalög milli Suður- og Norðurlands voru ekki tíð á þessum árum. Þegar ég var 16 ára bauðst mér að dvelja hjá þeim veturlangt í skóla. Það þáði ég með þökkum, þó ekki væri alveg ljóst hvernig skóli þetta væri sem ég var að fara í. Þetta var bara einhvers konar framhaldsskóli, svo mikið vissi ég. Mér fannst það algjört aukaatriði. Hlakkaði til að prófa eitthvað nýtt og fá að vera nær systur minni.

Jón mágur minn bjó til pláss handa mér, innréttaði pínulítið herbergi sem hafði verið geymsla. Hansahillur með skrifborðsplötu og rúm. Ég var afskaplega ánægð með þetta. Skólaárinu lauk, ég fór norður í heimahagana í sumarvinnu, um sumarið var Fjölbrautaskóli Suðurnesja stofnaður meðan ég var fyrir norðan í sumarvinnu og Jón og systir mín fluttu sig um set í bænum í stærra hús. Ég mætti aftur um haustið og þau systir mín sátu uppi með mig þar til ég lauk stúdentsprófi frá skólanum. Oft hef ég hugsað til þess hve mágur minn var rólegur yfir þessari innrás minni. Mér var einfaldlega bara bætt við fjölskylduna, varð unglingurinn á heimilinu. Ef ég þurfti að skjótast eða skreppa eitthvað bauð hann mér iðulega bíl þrátt fyrir að ég væri með ungt og nýfengið bílpróf. Mér þótti svo sannarlega mjög vænt um traustið. Sömuleiðis var mér alltaf boðið með í allt, jafnt fjölskylduboð, út að borða, tónleika og hvað sem var. Þetta var mér mjög mikils virði þó ég eflaust hefði getað sýnt þakklæti mitt skýrar, til dæmis með meiri þátttöku í heimilisstörfum, eins og gengur. Rausnarskapur var aðalsmerki Jóns og ég naut þess í ríkum mæli frá fyrstu stundu. Hann hafði léttan húmor og gerði oft góðlátlegt grín að veseninu í mér með ýmis praktísk mál og kenndi mér í leiðinni að stundum gerir maður óþarflega mikið mál úr hlutunum. Þegar ég fór frá Keflavík fór ég að að heiman frá tveimur góðum heimilum, æskuheimilinu í Eyjafirði og svo heimili systur minnar og Jóns. Lánið mitt í lífinu hefur verið að hafa alltaf gott og velviljað fólk í kringum mig og Jón á svo sannarlega sinn hlut þar. Síðustu árin átti hann við erfið veikindi að stríða sem tóku á hann og fólkið hans. Ég kveð hann með þakklæti um leið og ég og fjölskylda mín sendum systur minni, sonum hennar og fjölskyldum sem og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Anna Sigríður

Guðmundsdóttir.