Ragna Rósberg Hauksdóttir fæddist 1. desember 1943. Hún lést 28. maí 2018.

Útförin fór fram 11. júní 2018.

Nú er hún Ragna amma mín dáin og ég sakna hennar mikið.

Það er svo stutt síðan við vorum saman á Flórída. Amma kallaði mig alltaf blómarósina sína og þegar ég kom í heimsókn til hennar gaf hún mér kökur og kókómjólk. Ég man þegar amma var að gefa fuglunum rúsínur þá kallaði hún þá rúsínubelgina sína.

Hún amma mín er mamma hennar mömmu

og mamma er það besta sem ég á

en gaman væri að gleðja hana ömmu

og gleðibros á vanga hennar sjá.

Í rökkrinu hún segir mér oft sögur

og svæfir mig er dimma tekur nótt.

Syngur við mig sálmakvæðin fögur,

sofna ég þá bæði blítt og hljótt.

(Björgvin Jörgensson)

Sofðu vært, elsku amma,

Þín

Eydís Lára.

Elsku Ragna systir er farin, allt of fljótt frá okkur öllum sem elskuðum hana. Ragna tengdist mér ekki bara sem stóra systir, hún var líka minn uppalandi, vinnuveitandi og vinkona, og um hana á ég óteljandi góðar og skemmtilegar minningar.

Unglingurinn Ragna er mér í fersku minni og þar kemur fyrst í hugann Ragna í skátabúningi á leið á fund eða í útilegu. Svo Ragna í rokkbuxum að tjútta við vinkonu sína heima á Varmá. Líka Ragna að fara í bíó og að safna kvikmyndaprógrömmum. Ragna með vinkonum sínum á leið á skverinn, sem þýddi að hanga úti á kvöldin með öðrum unglingum.

Ragna niðursokkin að lesa Eros og Sannar sögur og þá mátti alls ekki trufla hana. Ragna að sýna okkur flottu, árituðu myndina af Harry Belafonte, sem hún hafði fengið senda eftir að hafa sent aðdáandabréf. Hún dýrkaði og dáði þennan söngvara alla tíð og myndin var geymd sem dýrgripur í skjóli frá litlum óvitum. Ragna var uppalandi minn við hlið mömmu og ömmu eftir að pabbi dó og hún kunni að setja reglur.

Ég átti að koma heim í mat á réttum tíma og ég átti að brjóta saman fötin mín. Hún bókstaflega sá í gegnum veggi og skynjaði gegnum svefn, ef ég svindlaði eitthvað með fötin. Fullorðinsár Rögnu hófust snemma því hún varð móðir aðeins 16 ára, ég varð móðursystir 6 ára og lítill frændi kom á heimilið.

Svo flutti Ragna norður í Eyjafjörð með unga bóndanum, sem var að vinna á heilsuhælinu, hún giftist honum og þau bjuggu í Hvassafelli.

Þó ég sæi eftir Rögnu og litla frænda, þá átti ég eftir að hrífast af sveitinni hennar og vera barnapía hjá henni í 3 sumur. Hún kenndi mér til verka, treysti mér jafnt fyrir uppvaski og börnum. Það var alltaf jafn gaman hjá Rögnu og líflegt í kringum hana, hún blandaði geði við alla og við fórum í heimsóknir, bæði á næstu bæi og líka hinum megin við fjörðinn.

Hún var opin fyrir nýjungum, eignaðist fljótt sjálfvirka þvottavél og pantaði föt úr póstlista Hagkaupa.

Svo var Ragna dugleg að koma í heimsóknir suður með Hjalta, Benna og Jóhönnu. Hjá Rögnu var alltaf pláss fyrir fólk, hvort sem það var í Hvassafelli, á Akranesi eða í Vesturhópinu og hvort sem það var í gistingu eða mat. Það var ófrávíkjanleg regla að mæta ekki södd, því Ragna og Stefán elskuðu að gefa fólki að borða og á boðstólum var nærri alltaf eitthvað sem þau höfðu sjálf aflað, ræktað eða bakað, lax, silungur, vöfflur og margt fleira. Maður gat nánast gengið að því vísu að geta gist á Akranesi ef á þurfti að halda og áður fyrr fór ég þangað oft um helgar með son minn Helga Val, sem var á svipuðu reki og Guðný og Sigrún.

Ragna systir var falleg, glaðvær, opin, hreinskilin, hugrökk, umhyggjusöm og úrræðagóð. Það kunnu ekki allir að meta hreinskilni hennar, því hún átti það til að tala áður en hún hugsaði.

Með sorg í hjarta er ég innilega þakklát fyrir þessa systur mína, fyrir að hafa fengið að eiga hlutdeild í lífi hennar, fyrir að hafa fengið alla þessa ættingja sem afkomendur hennar eru og fyrir alla hennar umhyggjusemi og elsku.

Takk fyrir allt og allt.

Pálína Sigurjónsdóttir

(Pála systir).