Glódís Perla Viggósdóttir átti stórleik þegar Ísland sigraði Slóveníu 2-0 á Laugardalsvellinum í gærkvöldi. Glódís, sem spilaði nær óaðfinnanlega í hjarta varnarinnar, kórónaði leik sinn með tveimur mörkum sem gerðu gæfumuninn fyrir íslenska liðið.

Glódís Perla Viggósdóttir átti stórleik þegar Ísland sigraði Slóveníu 2-0 á Laugardalsvellinum í gærkvöldi. Glódís, sem spilaði nær óaðfinnanlega í hjarta varnarinnar, kórónaði leik sinn með tveimur mörkum sem gerðu gæfumuninn fyrir íslenska liðið.

Í viðtali við Morgunblaðið eftir leik sagði Glódís að þær hefðu vitað að það væri þolinmæðisverk að brjóta niður varnarmúr slóvenska liðsins: „Við vissum að þetta gæti tekið tíma. Þetta er flott lið sem við mættum hérna í dag [í gær] og við getum ekki tekið neitt af þeim. Þær mættu hérna skipulagðar með gott upplegg og náðu bara að loka á okkur og við vorum svolítið lengi að ná að brjóta þær.“

Glódís var ánægð með það hvernig liðið leysti fjarveru Söru Bjarkar og Dagnýjar sem hafa verið lykilmenn í íslenska landsliðinu í mörg ár. „Mér fannst stelpurnar sem komu inn í liðið standa sig gríðarlega vel. Auðvitað saknar maður frábærra leikmanna eins og Sara Björk er og Dagný auðvitað líka. En við erum komnar með breiðari hóp og náum að leysa þetta vel og það er jákvætt fyrir íslenska knattspyrnu og landsliðið.“

Glódís Perla hefur átt frábært tímabil. Hún hefur verið alger lykilmaður í íslenska landsliðinu auk þess að spila virkilega vel með Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni. Glódís sagðist vera mjög ánægð með tímabilið hjá sér. „Tilfinningin eftir þetta tímabil er góð. Við erum búin að vera að vinna leiki og ég hef spilað vel. Við erum með flott lið og ég er með mikið sjálfstraust og það var gaman að skora tvö í dag.“

Glódís hefur í gegnum tíðina verið frekar þekkt fyrir góðan varnarleik heldur en markaskorun. Spurð út í mörkin í leiknum sagðist hún hafa skorað meira á þessu tímabili heldur en vanalega: „Undanfarið hef ég verið að skora meira sem er algerlega nýtt fyrir mér. Ég veit reyndar ekki hvað gerðist í fyrra markinu. Ég var hlaupin niður eða eitthvað og svo bara datt boltinn niður fyrir framan mig. Í seinna markinu var Freysi búinn að segja mér að ég væri í lykilhlutverki að koma mér fram fyrir fyrsta mann þannig að ég varð bara að klára það.“

Spurð út í leikina gegn Þýskalandi og Tékklandi í haust sagðist Glódís vera gríðarlega spennt: „Það er frábært að vera með örlögin í okkar höndum og vonandi fyllum við völlinn og fáum bara fótboltapartí á Laugardalsvelli.“