Eyþór Heiðberg
Eyþór Heiðberg
Eftir Eyþór Heiðberg: "Hættulegustu menn þjóða eru þeir sem glatað og gleymt hafa þjóðerni sínu við dansinn umhverfis gullkálfinn og trúa bara á einn guð, mammon..."

Nú hefur verið kosið um Hvalárvirkjun og hún samþykkt. Ég hef ekki kynnt mér stöðu mála hvort rétt sé eða rangt að virkja en það vekur athygli mína að þetta er fámennur hreppur og fáir sem eru látnir ráða og hver hefur gefið þeim þetta vald? Einhvern tíma í framtíðinni fjölgar fólki þarna og það sem allir vilja sjá og njóta, fegurðar náttúrunnar, hverfur varanlega. Fámennur hópur hefur ákveðið að það náttúrulega og fallega hverfi.

Ef til dæmis meirihluti fólks í hreppsnefndum, sem hafa með Gullfoss eða Goðafoss að gera, vildi endilega virkja þá, hvað þá? Ráða hreppsbúar öllu? Eiga Reykvíkingar að ráða því hvort flugvöllurinn fari eða verði um kyrrt. Flugvöllur sem er flugvöllur allra landsmanna? Mér finnst að það sé svo margt sem við eigum öll saman og eigum því að fá að ráða hvað verður um það sem okkur þykir vænt um. Mér finnst t.d. að um allar varanlegar breytingar á landslagi og öðru sem ekki verður aftur tekið eigi allir landsmenn að fá að kjósa um, burt séð frá því hvar þær og þeir eru á landinu, svo að allir geti fylgst með og viti hvað til stendur að gera í hverju tilfelli fyrir sig. Þá ætti ríkið að sýna í sjónvarpinu oftar en einu sinni hvað um sé að vera. Líka ætti að auglýsa í blöðum og sjónvarpi allar mikilsverðar ákvarðanatökur sem til stendur að taka á Alþingi. Við öll berum ábyrgð. Hvernig þá? Þetta er meðfædd ábyrgð sem við öll, allir Íslendingar, fæðumst með; að gæta lands og þjóðar. Seinna meir munu menn spyrja okkur, hina ábyrgu: „Af hverju gerði enginn neitt?“ Verður þá fátt um svör, enda við flest, sem nú lifum komin, undir græna torfu.

Stór hluti landsins, Grímsstaðir á Fjöllum, 300 km 2 er þegar seldur til erlends stóreignamanns. Fiskveiðikvótinn gengur á milli útgerðarmanna, kaupum og sölum. Erlendar ferðaskrifstofur vaða hér um með sína ferðahópa, með öllu eftirlitslausar. Stór hluti umferðarsekta erlendra ferðamanna er aldrei innheimtur. Stjórnvöld þora í hvorugan fót að stíga. Eiturlyfin flæða inn og margir ungra Íslendinga verða að aumingjum af þeirra völdum. Orðin: „Með lögum skal land byggja“ er horfið af lögreglubílunum.

Hættulegustu menn þjóða eru þeir sem glatað og gleymt hafa þjóðerni sínu við dansinn umhverfis gullkálfinn og trúa bara á einn guð, mammon, sem þeir tilbiðja dag og nótt.

Þetta er Ísland í dag, mín fjallkonan fríð. En svo lengi sem þú býrð í brjósti okkar trúum við því að allt verði betra með blómum í haga.

Guð blessi Ísland.

Höfundur er athafnamaður.