Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Áætlað er að þingstörfum ljúki á Alþingi í dag. Fjórtán lagafrumvörp voru samþykkt með atkvæðagreiðslu í gær, en atkvæðagreiðslu að öðru leyti frestað, í níu málum alls.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Áætlað er að þingstörfum ljúki á Alþingi í dag. Fjórtán lagafrumvörp voru samþykkt með atkvæðagreiðslu í gær, en atkvæðagreiðslu að öðru leyti frestað, í níu málum alls. Meðal þeirra mála sem samþykkt voru er frumvarp um niðurfellingu kjararáðs.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, gerir ráð fyrir því að þing klárist í dag. „Það bætist aðeins inn á dagskrána á morgun [í dag] og við höldum aftur af stað um hádegisbil. Það ræðst líka af því að það er enn vinna í gangi hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Við munum þurfa að doka talsvert fram eftir degi áður en við fáum endanleg skjöl frá nefndinni,“ segir Steingrímur og vísar til ítarlegs frumvarps til nýrra laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

„Óskýrt“ og „illa fram sett“

Mikil gagnrýni kemur fram í umsögnum hagsmunaaðila og annarra um frumvarpið, einkum vegna skamms tíma frá því frumvarpið var kynnt þinginu, 28. maí sl.

Málið var tekið til fyrstu umræðu daginn eftir og gekk samdægurs til allsherjar- og menntamálanefndar og voru umsagnarbeiðnir sendar út 30. maí. Alls voru sendar beiðnir til 298 aðila og í gærkvöldi höfðu aðeins 45 umsagnir borist. Í mörgum þeirra kemur fram hörð gagnrýni á meðferð málsins auk efnislegra athugasemda. Málið er sagt mjög seint fram komið og í sumum tilfellum er tekið fram að ógerningur sé fyrir viðkomandi hagsmunaaðila að taka afstöðu til efnisatriða vegna þessa. Allsherjar- og menntamálanefnd muni ennfremur ekki gefast tími til að taka afstöðu til umsagnanna.

„Það er verulega miður að svona skammur tími gefst í sjálfri vinnu þingsins,“ segir Steingrímur. „Á móti kemur að þetta mál hefur fengið algjöran forgang á nefndasviðinu og nefndin hefur haft meiri tíma eftir að við lengdum þingið um nokkra daga. Það er áfram tími fyrir nefndina á morgun. Ef þetta reynist tímafrekara en bjartsýnar vonir gera ráð fyrir, þá gerir það það,“ segir Steingrímur en kveðst bjartsýnn á að þinglok náist fyrir lok dagsins í dag.