Skírn Snærós Arna, yngsta barnabarn Kristjönu og Jóns, er í skírnarkjól sem amma hennar prjónaði. Sjálf er Kristjana í peysufötum sem Kristjana amma hennar frá Stóra-Steinsvaði átti.
Skírn Snærós Arna, yngsta barnabarn Kristjönu og Jóns, er í skírnarkjól sem amma hennar prjónaði. Sjálf er Kristjana í peysufötum sem Kristjana amma hennar frá Stóra-Steinsvaði átti.
Núna er ég að njóta þess að vera til,“ segir Kristjana Björnsdóttir á Borgarfirði eystra, en hún á 60 ára afmæli í dag. „Ég er búin að vera í öllum störfum sem hægt er að hugsa sér.

Núna er ég að njóta þess að vera til,“ segir Kristjana Björnsdóttir á Borgarfirði eystra, en hún á 60 ára afmæli í dag. „Ég er búin að vera í öllum störfum sem hægt er að hugsa sér. Ég hef verið beitningarkona, verslunarstjóri, olíubílstjóri og margt fleira, síðast vann ég á gistiheimilinu Blábjörgum. Nú er ég þekktust fyrir að gefa fólki ráð, bæði umbeðin en þó sérstaklega óumbeðin.“

Kristjana er eina konan sem setið hefur í hreppsnefnd Borgarfjarðar eystra, en hún sat í 12 ár í hreppsnefndinni og var um tíma oddviti. „Svo gaf ég ekki kost á mér fyrir fjórum árum.“ Kristjana er núna formaður sóknarnefndar Bakkagerðiskirkju. Hún er frá Móbergi í Hjaltastaðaþinghá en flutti 16 ára gömul til Borgarfjarðar eystra. „Þá fórum við að búa, ég og kallinn minn, og búum enn saman í sátt og samlyndi.“

Áhugamál Kristjönu eru handavinna og barnabörnin. „Ég prjóna, hekla, sauma og geri ýmislegt. Svo er ég soroptimisti og er stolt af því.“

Í tilefni dagsins fer Kristjana í matarboð til sonar síns og tengdadóttur á Egilsstöðum ásamt allri fjölskyldu sinni. Eiginmaður Kristjönu er Jón Helgason. „Hann starfar við smíðar og bílaviðgerðir og er allt mögulegt-maður.“ Þau eiga tvö börn. Sonur þeirra er Magnús, löggiltur endurskoðandi og meðeigandi að KPMG á Egilsstöðum, eiginkona hans er Herborg Eydís Eyþórsdóttir og þau eiga þrjá fótboltadrengi. Dóttir Kristjönu og Jóns er Þórey Birna, leikskólakennari í Fellabæ, eiginmaður hennar er Sigmar Daði Viðarsson húsasmiður og eiga þau tvö börn.