Nú beinast augu að Singapúr og hvað verði úr þegar óútreiknanleg ólíkindatól hittist loks

Fáum klukkustundum eftir að þetta blað fór í prentun stóð til að fyrsti fundur þeirra Donalds Trump forseta og Kim Jong-un, erfðavaldhafa kommúnistaflokks Norður-Kóreu, hæfist. Þessi fundur kemur ekki til af góðu.

Þrír síðustu forsetar Bandaríkjanna settu sér það markmið og hétu kjósendum sínum því að koma í veg fyrir að Norður-Kórea kæmi sér upp kjarnorkuvopnum. Sú ætlun ríkisins stangaðist á við alþjóðlega sáttmála og ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Það voru að auki margar ríkulegar ástæður til þess að komið yrði í veg fyrir að þessi áform gengju eftir.

Bandamenn Bandaríkjanna í þessum heimshluta, svo sem Suður-Kórea, Japan og Taívan, búa ekki yfir kjarnorkuvopnum og er sú staða undirstrikuð í stjórnarskrá Japan, þar sem bannað er að landið eigi slík vopn í fórum sínum. Nái Norður-Kórea að koma sér upp kjarnorkuvopnum og flaugum til að flytja þau landa á milli væri hin hernaðarlega staða á svæðinu gjörbreytt og orðin óþolandi fyrir framantalin ríki. En fyrir aðeins fáeinum misserum vaknaði veröldin upp við þann vonda draum að einvaldurinn í Pyongyang hafði náð því markmiði sem afi hans Kim Il-sung og faðir hans Kim Jong-il höfðu stefnt að og unnið að með leynd.

Bandaríkin og bandalagsríki þeirra höfðu beitt Norður-Kóreu efnahagsþvingunum til að koma í veg fyrir að þetta gæti gerst.

En grunsemdir voru uppi um það að mörg ríki gerðu sitt til að gera stjórnvöldum í Norður-Kóreu auðveldara að komast í kringum þær aðgerðir. Og stjórnvöld í Bandaríkjunum grófu einnig sjálf undan eigin þvingunum, því í tvígang eftir að samningalotum lauk með frómum yfirlýsingum valdamanna í Pyongyang var slakað á refsiaðgerðum. Þetta var gert gegn loforðum yfirvalda um að þau myndu láta af öllum áformum um smíði kjarnorkuvopna og burðarflauga. Til viðbótar komu rausnarlegir gjafagerningar í vörum, þjónustu og beinhörðu fé og þess ekki beðið að sannreyna mætti loforðin. Bandaríkin vöknuðu svo upp við þann vonda draum að þau höfðu verið blekkt. Þá sprengdu Norður-Kóreumenn ekki aðeins eina smásprengju, heldur nokkrar sífellt öflugri. Hin öflugasta þeirra er talin vera 10 sinnum öflugri en sprengjan sem varpað var á Hirosima.

Og flaugarnar, sem skotið var á loft í tilraunskyni, náðu ekki aðeins til nágrannaríkja í viðkvæmri stöðu. Nú er ekki lengur neinn vafi á því, að þetta fátæka og fámenna ríki ræður yfir flaugum sem geta borið sprengjur inn á meginland Bandaríkjanna. Enn er ekki fullljóst hvort fullhannaður sé búnaður til að koma slíkum sprengjum fyrir með öruggum hætti á langdrægar flaugar, en ástæðulaust er að vona að langt sé í að þeirri hindrun verði rutt úr vegi.

Donald Trump hefur, eftir að hann varð forseti, haldið miklu þéttar um þetta mál en fyrirrennararnir. Hann sendi þrjú risaflugmóðurskip með tilheyrandi flota í átt að ströndum Kóreu og hann beitti Kína mun ákafari þrýstingi en gert hafði verið áður um að taka fullan og undanbragðalausan þátt í að fylgja ályktunum Öryggisráðsins eftir. Trump lét varpa ofursprengju á Afganistan. Þetta er stærsta sprengja sem heiminum hefur verið sýnd, þeirra sem ekki lúta lögmálum kjarnorkunnar. Vafalítið er talið að sprengjan, sem ekki var varpað á eiginleg skotmörk, hafi ásamt flugmóðurskipunum þremur verið áhrifamikið viðvörunarskot ætlað Kim Jong-un.

Kóreustríðinu, sem hófst 25. júní 1950, er enn ekki formlega lokið. Hinn 27. júlí 1953 var gert vopnahlé í því stríði. Trump var þá 6 ára og langur vegur í að Kim Jong-un liti augum afa sinn, hinn dýrðlega, elskaða og virta leiðtoga þessarar þjóðar, sem heldur betur hefur fengið að svitna í þágu hans, sonar hans og sonarsonar.

Fréttaskýrendur vestra hafa þegar reiknað út að Kim Jong-un muni reyna að sleppa billega eins og hinir elskuðu og virtu dásemdarmenn, faðir hans og afi. Og takist það, sem þeir reikna með að sé líklegast, þá muni staða Trumps veikjast verulega heima fyrir. Óvissuþátturinn í þessum útreikningum er sennilega einkum sá að Trump er sagður óútreiknanlegur, sem sé reyndar ófyrirgefanlegur galli.

En hitt er þó viðurkennt að það er almennt séð mun erfiðara að reikna út óútreiknanlega menn en hina.