Fjallafinka
Fjallafinka — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Sigurður Ægisson Siglufjörður Þessi litfagri fjallafinkukarl sem hér má sjá hóf upp raust sína í blíðviðrinu á Austurlandi á dögunum og söng þar hástöfum, annaðhvort fyrir sína heittelskuðu, sem kann að hafa legið á hreiðri einhvers staðar í...

Sigurður Ægisson

Siglufjörður

Þessi litfagri fjallafinkukarl sem hér má sjá hóf upp raust sína í blíðviðrinu á Austurlandi á dögunum og söng þar hástöfum, annaðhvort fyrir sína heittelskuðu, sem kann að hafa legið á hreiðri einhvers staðar í skógarþykkninu í nágrenninu, eða þá, ef sú var ekki raunin, til að heilla til sín einhverja aðra slíka fjaðurdís í von um endurgoldna ást.

Fjallafinkan verpir í barrskógum Evrópu og Asíu, er á stærð við steindepil og sést af og til á vorin á Íslandi og oftar þó á haustin.

Hún hefur endrum og sinnum orpið í öllum landshlutum á undanförnum árum og með aukinni skógrækt gæti hún einn daginn orðið að reglubundnum varpfugli. Annar karlfugl var t.d. í Hallormsstaðaskógi á sama tíma og þessi þandi raddböndin í Miðhúsum við Egilsstaði og eflaust er tegundina enn víðar að finna hér þetta sumarið.