Húni segir mörg ung sjávarútvegstengd tæknifyrirtæki hér á landi standa skrefinu framar en erlendir keppinautar. Með fullnýtingu tekst að skapa mikil verðmæti. Mynd úr safni tekin í humarvinnslu á Þorlákshöfn.
Húni segir mörg ung sjávarútvegstengd tæknifyrirtæki hér á landi standa skrefinu framar en erlendir keppinautar. Með fullnýtingu tekst að skapa mikil verðmæti. Mynd úr safni tekin í humarvinnslu á Þorlákshöfn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Arctica Finance vonast til að byggja brýr út í heim til að leiða saman fjárfesta og sjávarútvegssprota og greiða leiðina að áhugaverðum tækifærum

Íslenski sjávarklasinn og verðbréfafyrirtækið Arctica Finance hyggjast efna til samstarfs sem miðar að því að greina og þróa tækifæri í sjávarútvegi, s.s. með því að liðka fyrir fjármögnun verkefna jafnt innanlands sem erlendis, á sviði fullvinnslu, líftækni og útgerðar.

Húni Jóhannesson er sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf hjá Arctica og mun hann hafa umsjón með samstarfinu: „Arctica Finance hefur verið einn af bakhjörlum Sjávarklasans og töldu báðir aðilar að fullt tilefni væri til að hefja nánari samvinnu enda mikil tækifæri í sjávarútveginum bæði innanlands og utan.“

Húni segir að tækniþróun í sjávarútvegi hafi verið mjög hröð á undanförnum árum og vakið athygli út fyrir landsteinana hve mikil sjávarútvegstengd nýsköpun á sér stað á Íslandi. „Fjórða iðnbyltingin er farin á fullt skrið í sjávarútveginum sem lýsir sér m.a. í aukinni sjálfvirknivæðingu. Mörg íslensk fyrirtæki standa í dag skrefi framar en erlendir keppinautar þeirra, hvort heldur sem er á sviði kælingar, vinnslu eða fullnýtingar hráefnis. Fjölbreytnin er mikil og spannar allt frá fullkomnum vatnsskurðarvélum yfir í byltingarkenndar sáraumbúðir úr roði, sem vekja athygli um allan heim. Það er magnað að sjá hvað við erum komin langt, þrátt fyrir að fyrirtækin sem um ræðir séu mörg ung, og sum þeirra í raun bara rétt að slíta barnsskónum. Grunar mig að við séum að komast yfir ákveðinn þröskuld og að á næstu árum geti íslensk sjávarútvegstækni sprungið út á alþjóðavísu.“

Kostnaðarsamt að vaxa

Sá vöxtur sem Húni væntir mun samt ekki gerast af sjálfu sér, og bendir hann á að reikna megi með alls kyns vaxtarverkjum. „Frumkvöðlar og fyrirtæki hafa sýnt fram á það að hugmyndir þeirra virka, og eru komin með dýrmætar vörur á markað, en björninn er ekki þar með unninn. Ráðast þarf í markaðs- og kynningarstarf og áframhaldandi uppbyggingu, og allt er þetta kostnaðarsamt,“ segir hann. „Þar kemur Arctica Finance inn í myndina og aðstoðar við að finna þá fjármögnun sem hentar best í hverju tilviki fyrir sig. Við getum notað sérþekkingu okkar og góð tengsl við innlenda og erlenda fjárfesta til að láta góð verkefni ná enn lengra.“

Húni segir íslenska sjávarútvegssprota glíma við það vandamál, rétt eins og önnur sprotafyrirtæki hér á landi, að fjármögnunarmöguleikar eru takmarkaðir og æskilegt væri m.a. að reyna að vekja meiri athygli erlendra fjárfesta á áhugaverðum tækifærum í greininni. „Til þessa hafa það einkum verið sjávarútvegsfyrirtækin sjálf sem hafa stutt við sprotana og ýmist lagt þeim til fjármagn með beinum hætti eða hlúð að vexti þeirra með því að gera ýmis verkefni og þróunarvinnu að veruleika.“

Tækifæri erlendis

Vandinn er alls ekki bundinn við Ísland og bendir Húni á að hjá systurklösum Íslenska sjávarklasans erlendis kvarti sprotar einnig yfir því að aðgengi að fjármagni mætti vera betra. „Þar er vandinn einkum sá að þarlend fjármálafyrirtæki hafa takmarkaða þekkingu á sjávarútvegstengdri starfsemi. Því gætu myndast áhugaverð tækifæri sem gætu verið fólgin í því að byggja brýr út í heim, í senn til að tengja íslenska fjárfesta við erlenda sjávarútvegssprota og tengja erlenda fjárfesta við íslensk fyrirtæki.“

Aðspurður hvort íslensku sjávarútvegstæknifyrirtækin hugsi nógu stórt og hreyfi sig nógu hratt, segir Húni að þó svo að mörg þeirra hafi alla burði til að verða að alþjóðlegum stórfyrirtækjum þá verði þau að vaxa með skynsamlegum hætti. „Að stækka hratt er flókið verkefni og kostnaðarsamt og ekki endilega best ef fyrirtæki stefna að því að verða sem stærst og á sem skemmstum tíma. Þá er mikilvægast að finna réttu samstarfsaðilana sem bæði geta lagt fyrirtækjum til fjármagn, þekkingu og sambönd á erlendum mörkuðum svo þau eigi auðveldara með að ná þar fótfestu.“