Knapinn Hermann Árnason er að leggja í langferð á hestbaki. Hann á margar ferðir að baki.
Knapinn Hermann Árnason er að leggja í langferð á hestbaki. Hann á margar ferðir að baki. — Ljósmynd/Jens Einarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Hermann Árnason, hrossabóndi á Hvolsvelli, ætlar að ríða á ská landshorna á milli og síðan eftir landinu endilöngu. Eftir ferðalagið verður hann búinn að ríða um flest héruð landsins og teikna stjörnu með ferðum sínum.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Hermann Árnason, hrossabóndi á Hvolsvelli, ætlar að ríða á ská landshorna á milli og síðan eftir landinu endilöngu. Eftir ferðalagið verður hann búinn að ríða um flest héruð landsins og teikna stjörnu með ferðum sínum.

Hermann sundreið öll vötn frá Höfn í Hornafirði að Selfossi ásamt fleirum vorið 2009. Í þeirri ferð fékk hann þá hugdettu að ríða landið „í stjörnu“ eins og hann orðar það.

„Ég byrjaði á stjörnunni 2016 og reið þá frá Vík í Mýrdal og norður að Hrauni á Skaga. Þaðan reið ég vestur í Bolungarvík og Skálavík. Svo reið ég Vestfjarðakjálkann og endaði austur á Ingólfshöfða. Þar með tók ég helminginn af stjörnunni,“ sagði Hermann. Nú ætlar hann að fullgera myndina og teikna enn stærri stjörnu á Íslandskortið.

Á ská yfir landið og endilangt

„Ég ríð frá Hvolsvelli vestur að Reykjanesvita 27. júní. Hinn 1. júlí legg ég svo af stað frá Reykjanesi og ríð í norðaustur á Font á Langanesi, á ská yfir landið. Þetta verða nýjar slóðir fyrir mig, Norðausturland og Austurlandið. Frá Fonti fer ég svo á fimm dögum á Dalatanga. Þaðan fer ég vestur yfir landið og ætla að enda 14. ágúst vestur á Öndverðarnesi. Vestasta punktinum!“ Frá Öndverðarnesi ætlar Hermann svo að ríða í rólegheitunum heim á Hvolsvöll. Hann áætlar að allur leiðangurinn muni taka um tvo mánuði. Með Hermanni verða yfirleitt sex til sjö reiðmenn í för og af þeim munu fimm fylgja honum allan leiðina. Þeir eru Svisslendingar sem hafa ferðast með Hermanni árum saman um landið. Hópurinn verður með um 40 hesta til reiðar. Yfirleitt munu þau gista í skálum á leiðinni nema í Gæsavötnum þar sem væntanlega verður gist í tjaldi. Trússbíll fylgir þeim eftir með nesti og annan farangur. En hver leggur til hestana?

Hrossin fá að vinna fyrir sér

„Ég hef stundum sagt að það eina sem ég á of mikið af séu hestar. Að mestu eru hrossin frá mér,“ sagði Hermann. „Það hefur verið mjög lélegur markaður fyrir hross í seinni tíð. Ég var aðeins að rækta og ætlaði að hafa aukavinnu af því að temja og selja hesta. Það þróaðist hins vegar þannig að ég hef látið hestana vinna fyrir sér í staðinn.“

Hermann segir að það sé dálítil ásókn í að koma hestum í langferðirnar, en honum er ekki sama hvað er. „Ég hef reynt að hafa hross sem eru uppbyggð í þetta. Þau byrja að hlaupa með mér ung og eru orðin vön þessum langferðum. Það er svo mikilvægt að hausinn á þeim sé í lagi og þau hafi gaman af þessu. Hluti af hestunum er orðinn háaldraður en hrossin eru öll í fullu fjöri.“

Hermann segir að þrátt fyrir þessar löngu ferðir um landið á hestbaki sé alltaf eitthvað eftir, til dæmis á hann alveg eftir að ríða um Hornstrandirnar.