Elínborg Kristjánsdóttir fæddist á bænum Eiði í Eyrarsveit á Snæfellsnesi 13. júlí 1933. Hún andaðist á Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili, 28. maí 2018.

Foreldrar hennar voru Kristján Sigurður Jónsson, f. 1901, d. 1969, og Guðrún Guðný Elísdóttir, f. 1901, d. 1972. Hún var þriðja í röð sjö systkina en eldri voru Guðmundur, f. 1928, d. 1995, Jón Jóhann, f. 1929, d. 2010, Rúrik, f. 1934, Arnór Páll, f. 1935, Jónína Guðrún, f. 1937, Kristný Lóa, f. 1940, lést í frumbernsku, og auk þess átti hún eina uppeldissystur, Jóhönnu Kristínu, f. 1947.

Þann 29. október 1955 giftist Elínborg Trausta Jónssyni, f. 8. ágúst 1930, frá Hellnum á Snæfellsnesi, d. 14. febrúar 2014. Foreldrar hans voru Elínborg Sigurðardóttir, f. á Stakkhamri í Miklaholtshreppi 1889, d. 1988, og Jón Kristjánsson, f. á Hellissandi 1878, d. 1948.

Börn Trausta og Elínborgar eru: 1) Jón Kristján, f. 19.1. 1955, maki Sigríður Þórarinsdóttir. Börn þeirra: a) Þórarinn Ægir, f. 1976, maki Björg Bjarnadóttir. Þeirra börn eru Björgvin Þór og Sigríður Sól. b) Trausti Freyr, f. 1979, maki Helena Rut Steinsdóttir. Þeirra börn eru Jón Karl Kristján, Tristan Freyr og Kara Líf. c) Jökull Þór, f. 1982, maki Elísabet Stefánsdóttir. Börn þeirra eru Hafdís Ylfa, Írena Mjöll, Stefán Þórarinn og Þórunn Alda. d) Sigurður Sveinn, f. 1984, hans börn eru Maron Reynir, Melkorka Emilía og Styrmir Trausti. 2) Kristný Lóa, f. 26.4. 1956, maki Ólafur Óskarsson. Börn þeirra: a) Jón Trausti, f. 1974, maki Edda Björk Kristjánsdóttir. Þeirra börn eru Diljá Björk, Arnar Ingi og Hildur Karitas. b) Jóhanna, f. 1977. Hennar börn eru Elvar Már og Harpa Kristný. c) Karitas Ósk, f. 1987, maki Arnór Már Guðmundsson. Þeirra börn eru Indíana Rós og Ólafur Ernir. 3) Sigrún, f. 12.9. 1958, maki Guðmundur Árnason. Börn þeirra: a) Elínborg, f. 1976, maki Kjartan Þorsteinsson. Börn þeirra eru Thelma Björk, Eygló Sunna og Íris Ósk. b) Snorri, f. 1978, maki Ína Dóra Ástríðardóttir. Börn þeirra eru Nökkvi, Andri og Fríða. c) Sigríður. f. 1982, dætur hennar eru Ronja, Bella og Ísadóra. 4) Dröfn, f. 21.4. 1968, maki Þorsteinn Bárður Sigurgeirsson. Börn þeirra: a) Sigrún Lóa, f. 1993, maki David Soller, f. 1984, dóttir þeirra er Sophia. b) Magnús, f. 1997. c) Sigurgeir, f. 1999.

Elínborg ólst upp hjá foreldrum sínum á Eiði. Að loknu skyldunámi lá leiðin í Húsmæðraskólann á Staðarfelli í Dölum. Að því loknu vann hún eitt ár á símstöðinni í Grundarfirði. Þá réð hún sig sem húshjálp hjá sr. Sigurði Einarssyni og frú í Holti undir Eyjafjöllum og vann í Skógaskóla einn vetur.

Elínborg og Trausti hófu búskap á Akranesi árið 1954 og bjuggu alla tíð á Akranesi. Elínborg vann við fiskvinnslu samhliða húsmóðurstörfum og barnauppeldi. Árið 1973 byrjaði hún að vinna á Sjúkrahúsi Akraness sem starfsstúlka og lauk sinni starfsævi þar árið 2003.

Útför Elínborgar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 21. júní 2018, og hefst athöfnin kl. 13.

Við fráfall ástkærrar móður okkar leita margar minningar á huga okkar. Hún var kletturinn í okkar uppvexti þar sem pabbi var oft fjarverandi í langan tíma, sérstaklega þegar við vorum ung, hann á vertíð hjá Hval hf. eða á síld og seinna þegar hann var í siglingum á sementsflutningaskipinu Freyfaxa var mamma ávallt skipstjórinn á skútunni í landi.

Góðar minningar eigum við um útilegur um allt land eftir að foreldrar okkar eignuðust bíl. Þá var bíllinn hlaðinn, skottið fyllt og toppgrind sett á bílinn svo allt kæmist með. Tjaldað var við fallegt vatn eða á, þar sem hægt var að renna fyrir fisk og prímusinn sá um að hita tjaldið.

Mamma var mikil húsmóðir og handavinnukona. Það sást að hún lærði margt í húsmæðraskóla til viðbótar því sem hún lærði í uppvextinum af móður sinni, því ekkert vafðist fyrir henni þegar kom að eldamennsku eða handavinnu. Allt var saumað í Husquarna-vélinni og peysur prjónaðar, það var ekki hlaupið út í búð til að kaupa nýtt í þá daga. Oftar en ekki byrjaði hún að sauma þegar börnin voru farin að sofa en það var hennar næðisstund. Ekki aðeins saumaði hún og prjónaði á börnin sín og sjálfa sig, heldur nutu aðrir góðs af og eftir hana liggja lopapeysur, rósasokkar og vettlingar í flestum heimsálfum sem sendir hafa verið sem gjafir til vina og kunningja okkar barnanna.

Hún var mikil fjölskyldukona og þau pabbi fylgdust náið með hvað börnin og barnabörnin tóku sér fyrir hendur, glöddust þegar vel gekk og stóðu við bakið á þeim sem þurftu á stuðningi að halda. Mamma var líka bóngóð með eindæmum, alltaf var pláss fyrir þá sem þurftu að gista eina og eina nótt og alltaf hægt að bæta við gestum í mat. Öll langömmubörnin fengu hekluð rúmteppi frá lang-Ellu eins og þau kölluðu hana og það er ekki lítið þegar við tölum um rúmteppi í fullri stærð og langömmubörnin orðin 29 talsins.

Árið 1977 fengu foreldrar okkar afnot af landi skammt frá Akranesi þar sem þau komu sér upp sumarbústað og átti það hug þeirra alla tíð eftir það. Í byrjun var gömlu veiðihúsi sem þau keypu breytt í sumarbústað, byggt var við hann a.m.k. í tvígang og að lokum reistur nýr bústaður 1999 þegar ljóst var að þar rúmaðist ekki lengur ört vaxandi fjölskylda. Í Sjávarholti var tíminn notaður til að planta trjám sem orðin eru vísir að skógi í dag. Vorið var heillandi tími í bústaðnum, þar sem fylgst var með fuglum í tilhugalífinu, hreiðurgerð og hve margir ungar komust á legg. Einnig nutu þau þess að ferðast saman og fóru í nokkrar utanlandsferðir til Kanarí og svo seinna að heimsækja yngstu dóttur sína sem búsett er í Danmörku.

Eftir að pabbi dó 2014 fór að halla undan fæti og heilsan að gefa sig, hún flutti í Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir réttu ári, þar leið henni vel og fannst gott að búa við öryggið sem þar var. Nú mun pabbi taka á móti henni í sumarlandinu þar sem þau ganga saman hönd í hönd eins og ávallt áður.

Að leiðarlokum viljum við kveðja ástkæra móður með bænum sem hún kenndi okkur í æsku:

Kristur minn ég kalla á þig,

komdu að rúmi mínu.

Gæskuríkur geymdu mig

Guð í faðmi þínum.

(Höf. ók)

Vaktu, minn Jesús, vaktu í mér,

vaka láttu mig eins í þér.

Sálin vaki þá sofnar líf,

sé hún ætíð í þinni hlíf.

(H.P.)

Elsku mamma. Minning þín lifir í hjörtum okkar að eilífu. Hvíl í friði og hjartans þökk fyrir allt og allt.

Kveðja,

Jón Kristján, Kristný Lóa,

Sigrún, Dröfn og tengdabörn.

Nú er komið að kveðjustund og minningarnar streyma fram svo margar og svo góðar. Hugmyndin um ömmu og afa sameinuð á ný kallar fram ljúft bros og hlýju í hjartað. Amma naut þess alla tíð að eiga stóran og samrýndan hóp í kringum sig sem oftar en ekki sótti hana og afa heim í sumarbústaðinn þeirra. Að koma til ömmu og afa í sumarbústaðinn lét dagana líða, þar var alltaf nóg að gera, fylgjast með flóði og fuglum, rölta um holtið, veiða síli eða aðstoða við verkefni dagsins ásamt svo mörgu öðru skemmtilegu. Við áttum saman margar einstakar stundir og ljúft samband sem við nú geymum í huga og hjarta. Við eigum fallegar minningar um yndislega ömmu með stórt hjarta, opinn faðm og hlýtt bros. Minningar sem við og börnin okkar geymum og gleðjumst yfir að eiga.

Með þessum línum viljum við kveðja þig elsku amma:

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð

uns hittumst við aftur heima.

(Höf. ókunnur)

Jón Trausti, Jóhanna,

Karitas Ósk og fjölskyldur.