Treyjan Hannes í leiknum þar sem hann varði víti frá Messi.
Treyjan Hannes í leiknum þar sem hann varði víti frá Messi. — Morgunblaðið/Skapti
„Við höfum aldrei selt eins mikið af markmannstreyjum og nú,“ segir Viðar Valsson, verslunarstjóri í Jóa útherja, um sölu landsliðstreyja það sem af er HM.

„Við höfum aldrei selt eins mikið af markmannstreyjum og nú,“ segir Viðar Valsson, verslunarstjóri í Jóa útherja, um sölu landsliðstreyja það sem af er HM. Mikil eftirspurn hafði verið eftir markmannstreyjum í aðdraganda mótsins en eftir vítaspyrnuvörslu Hannesar Þórs Halldórssonar gegn Argentínu hefur salan farið á flug. Verslunin hefur nú þegar pantað fleiri markmannstreyjur frá birgi en það er í fyrsta sinn sem það gerist.

„Lagerinn hjá okkur er nánast búinn og við eigum einhverjar örfáar treyjur eftir. Við eigum hins vegar von á nýrri sendingu í vikunni,“ segir Viðar sem ráðgerir að sala á markmannstreyjum í ár sé um þrefalt meiri en fyrir Evrópumótið í Frakklandi fyrir tveimur árum.

Viðar segir að markmannstreyjan í ár sé talsvert þægilegri en ýmsar eldri markmannstreyjur. „Þetta er auðvitað bara stuttermabolur, engir púðar og ekkert vesen. Þess utan er hún bara svo svakalega flott,“ segir Viðar og bætir við að fáir viti líklega að markmenn Íslands séu með þrjár varatreyjur. Það hafi hins vegar verið ákvörðun Errea að gera rauðu treyjuna að sölutreyju. „Þeir eru með nokkrar sem þeir geta skipst á að nota. Rauða treyjan er samt hrikalega flott þannig að ég held að þetta hafi verið góð ákvörðun hjá Errea,“ segir Viðar.

aronthordur@mbl.is